Óson-eyðandi efni
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég þakka forsrh. svör hans og heyrist mér að þau hafi komið frá Hollustuvernd ríkisins og hefði kannski verið eðlilegra að beina spurningunni til hæstv. heilbrrh. á meðan hann hefur yfir þessum málum að ráða. Hins vegar finnst mér ekkert verra að fá hæstv. forsrh. hér til að svara. Mér sýnist að margt sé reynt að gera í þessum málum en betur má ef duga skal.
    Ég er mjög ánægð með það að okkur hafi tekist að setja reglugerð um notkun ósoneyðandi efna á úðabrúsum þar sem við höfum bannað innflutning og notkun hérlendis. Það munu vera u.þ.b. 25% af þeim ósoneyðandi efnum sem hér hafa verið í umferð. Það er eitt atriði sem mig langar til að benda á í þessu sambandi og hæstv. forsrh. minntist á, en það er harðfroðueinangrunin eða plasteinangrunin. Ég held að það væri rétt hjá okkur að líta betur á það mál. Þegar verið er að blása slíkt plast eru oft notuð ósoneyðandi efni en hægt er að blása með öðrum efnum. En það sem ég vildi vekja athygli á er að við framleiðum hér á landi einangrunarefni, steinull, og það er mjög mikilvægt fyrir okkur af tveimur ástæðum að auka notkun á henni, bæði vegna ósoneyðandi efna sem notuð eru við framleiðslu á plasti og til að auka notkun á innlendri framleiðslu. Það þarf að vekja sérstaka athygli á því að við getum notað okkar eigin framleiðslu sem er minna skaðleg en það sem við flytjum inn. Það er eðlilegt fyrir okkur að líta til þess hvert við leitum eftir bæði einangrunarefnum og ýmsum öðrum og hvort í þeim löndum þar sem þau eru framleidd séu notuð við framleiðsluna efni sem eru vinsamleg fyrir ósonlagið. Þetta vildi ég einungis benda á og ég lýsi ánægju minni með að það skuli eiga að gefa út fræðslubækling. Því fólk er orðið mjög meðvitað í þessum málum og margir sem vilja fá að vita hvort það sem þeir kaupa getur verið skaðlegt fyrir umhverfið.