Utanríkismál
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka öllum hv. alþm. sem tekið hafa þátt í þessum umræðum fyrir málefnalegar og fróðlegar umræður um utanríkismál almennt, um stöðu alþjóðamála og um mat á stöðu Íslands við þær síbreytilegu ytri kringumstæður sem örar breytingar á vettvangi alþjóðamála hafa skapað að undanförnu.
    Áður en ég vík að einstökum fyrirspurnum sem til mín var beint, þykir mér rétt að gera hv. Alþingi í stuttu máli grein fyrir seinustu viðburðum í samskiptum EFTA og EB, þ.e. nýafstöðnum fundi ráðherra EFTA-málefna í Genf, sem fram fór á þriðjudag og miðvikudag.
    Á þeim fundi var gengið frá tveimur skjölum sem nú er lokið við að þýða á íslensku. Þau verða rædd á ríkisstjórnarfundi í fyrramálið og send utanrmn. samtímis. Þessi skjöl eru grundvallarstefnumörkun EFTA til undirbúnings samningaviðræðum við Evrópubandalagið. Annað skjalið er boðskapur EFTA-ráðherranna til Evrópubandalagsins, sem má segja að sé útdráttur úr hinu fyrra skjali. Á fundinum áttu sér einnig stað gagnlegar viðræður við fulltrúa í svokallaðri þingmannanefnd EFTA um aukinn hlut þeirra innan EFTA í samstarfi ríkjanna og aukinn hlut þeirra í samskiptum við þingmenn Evrópubandalagsins og fulltrúa á þjóðþingum Evrópubandalagsríkjanna.
    Af hálfu Alþingis tóku þátt í þessum fundum þeir hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, fyrrv. utanrrh., og Jón Sæmundur Sigurjónsson alþingismaður.
    Ef ég ætti að leggja mat á stöðu þessara mála vildi ég leggja áherslu á eftirfarandi atriði:
    Í fyrsta lagi. Ráðherrar EFTA-ríkjanna staðfestu það mat sem fram kom í sameiginlegri skýrslu svokallaðrar stjórnarnefndar EFTA og EB frá 20. mars að undirbúningur af beggja hálfu væri það vel á veg kominn að báðir aðilar væru sammála um að óska eftir formlegu umboði af hálfu Evrópubandalagsins til þess
að hefja samningaviðræður hið fyrsta. Hér er einkum vikið að því að frá því að könnunarviðræðunum, eða fyrsta áfanga þeirra, lauk 19. des. á fyrra ári hefur á vettvangi EFTA-ríkjanna hvers og eins verið unnið fyrst og fremst að tvennu. Í fyrsta lagi að ítarlegum samanburði á lögum og reglum Evrópubandalagsins, þeim sem varða samningssviðið og löggjöf EFTA-ríkjanna. Þetta hefur verið viðamikið verk. Niðurstaðan er að fyrir liggur skýrsla þar sem skráð eru þau frávik eða þau vandamál sem upp kunna að koma þegar um er að ræða samræmingu á þessari löggjöf. Þetta er allviðamikil skrá og sérstök ástæða til að nefna hana hér vegna þess að hún hefur valdið nokkrum misskilningi. Þess hefur orðið vart á vettvangi Evrópubandalagsþingsins og utanríkismálanefndar þess, svokallaðrar REX-nefndar, að menn hafi talið þessa skrá yfir frávik og mismun á löggjöf og reglum vera skrá yfir væntanlega fyrirvara EFTA-ríkjanna. Það er mikill misskilningur. Þetta er vinnuskjal innan EFTA þar sem er að finna

niðurstöður af starfi starfshópanna fimm og sérfræðinganefndar á þeirra vegum, þar sem þessi frávik eru skráð en á ekkert skylt við formlega framsetningu á fyrirvörum af hálfu EFTA-ríkjanna í væntanlegum samningum. Þeir fyrirvarar voru allir skráðir í könnunarviðræðunum og hafa verið kynntir fyrir löngu síðan og hafa legið fyrir lengi.
    Þessir fyrirvarar hafa, eins og hv. alþm. er kunnugt, af okkar hálfu verið fyrst og fremst eftirfarandi:
    Eins og við setjum málið fram er stærsta málið af Íslands hálfu þegar við erum að ræða um sérmál Íslendinga spurningin um að fá fram grundvallarregluna um fríverslun með fiskafurðir sem er sameiginleg samningsstaða EFTA-ríkjanna í heild og þess vegna ekki séríslenskur fyrirvari.
    Annar meginfyrirvarinn varðar fjármagnssviðið og lítillega búsetu- og vinnumarkaðssviðið en fyrst og fremst fjármagnssviðið og snýst um varanlegan fyrirvara með vísan til þjóðarhagsmuna varðandi rétt erlendra aðila til nýtingar á grundvallarauðlindum sem íslenska þjóðin byggir afkomu sína á. Hér er átt að sjálfsögðu við nýtingu á fiskimiðunum og orkuauðlindunum.
    Þriðji fyrirvarinn varðar síðan búsetu- og vinnumarkaðinn og skírskotun til þess fyrirvara sem Íslendingar hafa haft lengi að því er varðar norræna vinnumarkaðinn, þ.e. að íslensk stjórnvöld áskilja sér rétt til íhlutunar ef það stefnir í verulega röskun annaðhvort í einstökum greinum íslensks vinnumarkaðar eða á einstökum svæðum vegna innflutnings erlends vinnuafls. Þetta eru þeir þrír meginfyrirvarar sem settir hafa verið fram af hálfu Íslendinga og það var gert strax í byrjun könnunarviðræðnanna með skýrum og afdráttarlausum hætti.
    Annað meginmál er spurningin um stjórnun hins evrópska efnahagssvæðis þegar því hefur verið komið á í ársbyrjun 1993 ef tímaáætlanir standast. Þess misskilnings hefur gætt og valdið nokkrum andmælum af hálfu Evrópubandalagsins að EFTA-ríkin hafi skilgreint stöðu sína að því er varðar stjórnun hins evrópska efnahagssvæðis með þeim hætti að við höfum gert kröfu til þess að hlutast til um innri ákvörðunarferil EB. Þetta er á misskilningi byggt og ætti slíkur misskilningur ekki að vakna upp nú vegna þess að frá þessum málum var
gengið með skilmerkilegum hætti í sameiginlegum niðurstöðum bæði stjórnarnefndarinnar 20. okt. 1989 og í yfirlýsingu utanríkisráðherranna 19. des. 1989. Staðan í málinu er þessi:
    Í samræmi við upphaflegar tillögur Jacques Delors, forseta framkvæmdastjórnar EB, um það að EFTA og EB komi sér upp sameiginlegum stofnunum til stjórnunar og ákvörðunartöku samkvæmt því verklagi sem hann hefur kennt við hinar tvær meginstoðir, er það alveg skýrt að hvor aðili um sig muni hafa sinn eigin innri ákvörðunarferil. Við gerum ekki kröfu um það að hafa sama rétt og aðildarríki EB um ákvörðunarferil þess, enda er það skýrt að tilgangur

þessara samninga er ekki aðild að EB heldur samningur um að yfirfæra grundvallarreglur innri markaðarins einnig til landanna sex. Jafnframt er það ljóst að við frábiðjum okkur að EB hafi áhrif á ákvörðunarferil EFTA-ríkjanna sem er annars eðlis vegna þess að EFTA-ríkin eru ekki yfirþjóðleg stofnun heldur frjáls fríverslunarsamtök sex sjálfstæðra ríkja þar sem ákvarðanir eru teknar á grundvelli samstöðu og þar sem ekki er um að ræða yfirþjóðlegt eða samþjóðlegt vald. Þetta er alveg ljóst þannig að þau andmæli sem heyrst hafa eða efasemdir frá utanríkismálanefnd Evrópubandalagsins eru byggðar á afar ófullnægjandi upplýsingum.
    Reyndar kom það fram í viðræðum EFTA-ráðherranna við fulltrúa þingmannasamtaka EFTA að ekki hefði verið lögð nægileg áhersla á það á undanförnum mánuðum í starfi EFTA að kynna þetta mál milliliðalaust fyrir þingmönnum Evrópubandalagsins. Við höfum lagt mjög ríka áherslu á að koma upplýsingum um okkar afstöðu milliliðalaust til skila til ríkisstjórna og stjórnmálaleiðtoga EB-landanna og að sjálfsögðu við framkvæmdastjórnina en á það hefur skort að þessum upplýsingum hafi verið komið jafnrækilega til skila til Evrópuþingsins. Það verður að viðurkennast að það hafa verið mistök og úr því þarf að bæta. Á þeim tíma sem eftir er þangað til formlegar samningaviðræður hefjast verður því lögð rík áhersla á það af hálfu EFTA, bæði af hálfu formennskulandsins og einstakra EFTA-aðildarlanda, sem og þingmannasamtaka EFTA, að reyna að bæta fyrir þetta.
    Að því er varðar þetta atriði, þ.e. samskiptin við Evrópuþingið, þá er þess að geta að Evrópubandalagsþingið hefur fyrst og fremst ráðgefandi hlutverki að gegna. Það er hins vegar ljóst af atburðum seinustu vikna að það er í valdabaráttu við framkvæmdastjórnina. Því að við skulum átta okkur á því að Evrópubandalagið, þótt við tölum oft um það nánast eins og samheiti yfir eitt fyrirbæri, er samsett af mörgum pörtum og því fer víðs fjarri að þar séu allir á einu máli. Og ef við viljum tryggja árangur okkar í samningaviðræðunum skiptir það náttúrlega máli að við sinnum því rækilega að tala við alla þar sem hafa áhrif á niðurstöðuna. Evrópubandalagsþingið er í valdabaráttu við framkvæmdastjórnina og hefur sagt eftirfarandi af því tilefni: ,,Við ætlum að gera samning Evrópubandalagsins við EFTA, sem er langsamlega viðamesti samningur sem Evrópubandalagið hefur nokkru sinni gert, að eins konar prófsteini á stöðu okkar, Evrópubandalagsþingsins, innan þessa kerfis.``
    Með öðrum orðum, einstakir þingmenn utanríkismálanefndarinnar hafa sagt: Við munum ekki una því að Evrópubandalagsþingið sé sett skör lægra en þjóðþing EFTA-ríkjanna og sett þá kröfu fram að áður en ráðherraráðið gangi formlega frá samningsumboði sínu sem ráðgert var að gera 7. maí verði málið tekið til umfjöllunar í Evrópubandalagsþinginu, ekki til atkvæðagreiðslu því

að það hefur ekki vald til þess, heldur til umfjöllunar sem ráðgjafarstofnunar. Jafnframt hafa menn á þeim bæ haft uppi stór orð um það að ekki komi til greina að EFTA-ríkin, sem eru utan bandalagsins og hafa ekki tekið á sig þær skuldbindingar sem aðild fylgja, fái með samningum rétt til íhlutunar um ákvörðunarferil EB og virðast standa í þeirri trú að sú krafa hafi verið sett fram sem er á misskilningi byggt eins og ég vék að áður.
    Þetta er nú eiginlega það eina sem veldur mér umtalsverðum áhyggjum vegna þess að það er ljóst að ef framkvæmdastjórnin verður við tilmælum eða kröfum Evrópubandalagsþingsins um að leggja niðurstöður hinnar sameiginlegu stjórnarnefndar EFTA-EB, High Level Steering Group, fyrir þingið í Strasborg mun það tefja að samningsumboð verði veitt á áformuðum tíma. Þá gæti ráðherraráðið ekki veitt sitt formlega samningsumboð fyrr en á tímabilinu 11.--14. júní í stað áður tekinnar ákvörðunar um 7. maí. Það mundi með öðrum orðum dragast á langinn um rúmlega mánuð. Nú er að vísu ekki víst að af þessu verði vegna þess að á fundi framkvæmdastjórnarinnar að loknum ráðherrafundinum í Lúxemborg sl. mánudag varð niðurstaðan sú að leggja málið fyrir utanríkismálanefndina, REX-nefndina hjá Evrópuþinginu, og að reyna að halda upphaflegri dagsetningu 7. maí til þess að taka endanlega ákvörðun um formlegt samningsumboð af hálfu Evrópubandalagsins. Þannig er a.m.k. staða málsins í dag.
    Að loknum ráðherrafundinum, þ.e. EFTA-ráðherranna, þriðjudag og miðvikudag, fór núv. formaður ráðherraráðsins, Anita Gradin, utanríkisviðskiptaráðherra Svía, til fundar við Andriessen, varaforseta Evrópubandalagsins, og kynnti
honum niðurstöður fundarins sem og fór hún til fundar við REX-nefndina, þ.e. utanríkismálanefnd Evrópubandalagsins, síðar í dag.
    Í tilefni þess að fréttir sem hingað hafa borist, aðallega eftir dönskum heimildum, þ.e. eftir fréttastofunum Ritzau og NTB, og virðast að mestu leyti byggðar á viðtölum við danska utanríkisráðherrann eða háttsetta embættismenn í danska utanríkisráðuneytinu er óhjákvæmilegt að taka af tvímæli um afstöðu EFTA og EB að loknum þessum tveim þýðingarmiklu fundum. Og þá styðst ég við skriflega orðsendingu frá ráðherraráði EB sem okkur EFTA-ráðherrum barst síðla dags á þriðjudag. Þar segir einfaldlega að framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins muni á fundi sínum þann 10. apríl nk. taka ákvörðun um formlegt samningsumboð af sinni hálfu til þess að hefja viðræður við EFTA-ríkin. Því næst segir að EB-ráðherrar hafi almennt lýst stuðningi við það að hefja samningaviðræður sem fyrst en vegna kröfu Evrópubandalagsþingsins, sem ég vék að áður, kunni að vera að veiting formlegs samningsumboðs dragist frá byrjun maí til byrjun júní. Af hálfu utanríkisráðherra Ítalíu, De Michelis, sem mun taka við formennsku Evrópubandalagsins á seinni

hluta þessa árs, var því yfir lýst að hann mundi leggja á það höfuðáherslu að ljúka þessum samningum fyrir lok þessa árs en framkvæmdastjórnin hefði hins vegar áréttað þá afstöðu sína að hún teldi sig ekki bundna af slíkum yfirlýsingum, enda væri það hennar mat að samningagerðin sjálf mundi taka a.m.k. eitt ár frá því að hún hefst. Með öðrum orðum, það er afstaða framkvæmdastjórnarinnar að samningunum geti varla verið lokið fyrr en undir mitt næsta ár, en væntanlegur forseti Evrópubandalagsins lýsir þeirri stefnu sinni að hann muni stefna að því að ljúka þeim hið allra fyrsta.
    Það er í samræmi við málflutning Ítala áður í viðræðum við okkur þar sem þeir hafa tekið af tvímæli um það að þeir telja breytingar sem orðið hafa í álfunni á undanförnum mánuðum ýta undir það að samningar Evrópubandalagsins við EFTA verði ekki dregnir á langinn heldur verði þeim hraðað, m.a. í ljósi nýrrar stöðu í Mið-Evrópu með sameiningu Þýskalands og þeirrar stefnu sem ljóst er að á miklu fylgi að fagna hjá Frakklandi, Suður-Evrópuríkjunum og þarna hins væntanlega formennskulands, Ítalíu, nefnilega að nauðsynlegt sé af pólitískum ástæðum að njörva hið nýja Stór-Þýskaland sem tryggilegast niður í öflugri samstarfsheild Vestur-Evrópuríkja.
    Þetta er það jákvæða sem við höfum heyrt frá Evrópubandalaginu. Á hinn bóginn kom það líka fram í þessari orðsendingu að þær raddir hefðu heyrst, þar á meðal frá utanríkisráðherra Lúxemborgar, að kröfur EFTA-ríkjanna um íhlutunarrétt í ákvörðunarferil EB væru af því tagi að ekki væri unnt að verða við þeim og þess vegna gæti vel farið svo að upp úr þessum samningum slitnaði. Það væri út af fyrir sig alvarleg yfirlýsing ef hún væri ekki, eins og ég sagði áður, á misskilningi byggð vegna þess að þá kröfu hafa EFTA-ríkin aldrei sett fram. Ég geri þess vegna ráð fyrir því að misskilningur af þessu tagi verði leiðréttur og hann muni þess vegna ekki reynast sú hindrun í vegi samninga sem menn kynnu að ætla, annars vegar af ummælum einstakra þingmanna í utanríkismálanefnd Evrópuþingsins eða þessari yfirlýsingu ráðherrans frá Lúxemborg.
    Þetta er það sem ég hef að segja um stöðu málsins, þ.e. annars vegar út frá bæjardyrum EFTA-ráðherra og hins vegar EB, eftir þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir. Það er kannski ástæða til þess að geta sérstaklega um tvennt út af hinum dönsku fréttaskeytum.
    Í fyrsta lagi kemur þar fram að ýmsir ráðherrar í Evrópubandalaginu hafi á þessum fundi lýst þungum áhyggjum yfir fyrirvarafjölda EFTA-ríkjanna en þar munu menn hafa byggt afstöðu sína á flugufregnum um 60 blaðsíðna bók með fyrirvörum sem, eins og ég hef þegar vikið að, er líka á misskilningi byggð. Hitt er alveg ljóst að af hálfu framkvæmdastjórnarinnar, sem hefur skuldbundið sig í undirbúningi að þessum viðræðum með þeim hætti sem ég hef lýst, hefur því verið lýst yfir, bæði af þeim Delors og Andriessen, að það muni skipta miklu máli að fyrirvörum sé haldið í algeru lágmarki. Og hvað eiga þeir þá við með

fyrirvörum? Þeir eiga við frávik eða fyrirvara frá hinum almennu reglum um innri markaðinn, þ.e. hinn svokallaða ,,acquis communautaire`` sem varðar þetta samningssvið. Um það eiga ekki að ríkja neinar efasemdir vegna þess að þeir fyrirvarar eru skráðir og liggja fyrir.
    Í annan stað segir í þessum dönsku fréttaskeytum að vaxandi líkur séu á því að EFTA leysist upp ef ekkert verði af samningum vegna þess að Austurríki kunni að ná inngöngu í Evrópubandalagið miklu fyrr en áður hefur verið gert ráð fyrir. Hingað til hefur verið gert ráð fyrir því og það staðfest af utanríkisráðherra Austurríkis að þeir gerðu ekki ráð fyrir því að ljúka samningum um inngöngu í Evrópubandalagið fyrr en í fyrsta lagi á árinu 1996. Einmitt þess vegna hafa þeir áréttað það að þeir ætli að halda til streitu samstarfi sínu innan EFTA vegna þess að þeir gerðu ráð fyrir því að niðurstöður af samningum EFTA-ríkjanna lægju fyrir miklu fyrr, þ.e. snemma á árinu 1991 og Austurríki gæti ekki beðið með lausn sinna vandamála í samskiptum við Evrópubandalagið í heil fimm ár. Í tilefni af bæði þessum
fréttum og annarri umræðu, t.d. í austurrísku pressunni, notuðum við að sjálfsögðu tækifærið til þess á þessum EFTA-ráðherrafundi og gengum fast að Austurríkismönnum um að svara þeirri spurningu hvort þess væri að vænta að þeir væru í þann veginn að segja skilið við EFTA-sporið eða yfirgefa EFTA-samstarfið eða hvort þeir hefðu einhverjar fréttir okkur að færa um það að fyrstu viðræður þeirra við Evrópubandalagið vegna umsóknarinnar hefðu breytt þessari stöðu, hvort þeir væntu þess að fá fyrr samning um inngöngu í EB. Svörin voru þessi: Að vísu vonumst við til að geta náð samningsniðurstöðu um inngönguna fyrr en upphaflega var áformað, þ.e. einhvern tíma fyrir 1996 en það breytir engu um það að eftir því sem okkur er sagt, þ.e. Austurríkismönnum, af hálfu Evrópubandalagsins mun það ekki koma til greina að hefja slíka samningagerð af neinni alvöru fyrr en eftir 1993, þ.e. eftir að innri markaðurinn er kominn til framkvæmda. Sem þýðir þá hvað? Sem þýðir það að ef þeir samningar taka að lágmarki tvö ár, en í fyrri tilvikum hafa þeir tekið frá sjö upp í átta ár, gæti slíkt gerst árið 1995 samkvæmt þeim upplýsingum sem Austurríkismenn gefa okkur sjálfir og samkvæmt því mati sem fyrir liggur frá framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins um þann lágmarkstíma sem það taki að ljúka samningum.
    Þetta segi ég einfaldlega sem endursögn af því sem okkur er tjáð og legg ekkert mat á það sjálfur hvort eitthvað sem síðar kann að gerast geti enn breytt þessu í þá átt að hraða þeirri afgreiðslu eitthvað meir. Ég hika ekki við að segja það hér úr þessum ræðustól af því að ég hef mjög leitað eftir upplýsingum um það að það er ágreiningur innan Evrópubandalagsins í þessu máli. Það kemur fram í austurrískri pressu að Austurríkismenn gera sér vonir um að fá öflugri stuðning hins sameinaða Stór-Þýskalands við umsókn Austurríkis eftir sameiningu og gera sér þess vegna

vonir um það að þeirra mál fái lausn eftir aðildarleiðinni fyrr en áður var ætlað.
    Á móti kemur að það er opinbert leyndarmál að fyrrv. forustuland EB, Frakkland, og Suður-Evrópuríkin eru andvíg þessari afstöðu og segja: Þetta mál er óbreytt. Vitna til yfirlýsingar Delors þar sem hann sagði: Austur-Þýskaland er sérstakt tilfelli og er ekki fordæmi að því er varðar afgreiðslu Evrópubandalagsins á aðildarumsóknum einstakra ríkja. Sérstakt tilfelli og ekki fordæmi. Með öðrum orðum, þeirra afstaða er sú að aðildarumsókn Austurríkis fái enga hraðferð og tímaáætlunin í því efni sé óbreytt. Þegar menn togast þannig á innan Evrópubandalagsins er það ekki á okkar færi að slá því föstu hver niðurstaðan verður en ég tel rétt að skýra frá því sem kemur fram af viðtölum við fulltrúa þessara þjóða að þessi ágreiningur er uppi.
    Og hver er þá heildarstaðan í ljósi þess að ráðherrar Evrópubandalagsins hafa nú hist og lagt mat á stöðuna eftir að vinur vor, utanríkisráðherra Dana, tók sérstakt frumkvæði í þessu máli með því að birta greinar í víðlesnum dagblöðum í öllum höfuðborgum Norðurlanda? Það vekur athygli mína að á þessum ráðherrafundi Evrópubandalagsins tók hann málið alls ekki upp. Vék þar ekki að skoðunum sínum í þessu máli, ekki einu einasta orði. En hvað var það sem hann hafði einkum og sér í lagi ráðlagt okkur? Fyrir utan það að gefa yfirlit um að hans mati líklega þróun á meginlandi Evrópu á næstu árum, sem ég hef engan ágreining að gera við, þá fólst í orðsendingu danska utanríkisráðherrans ráðgjöf eða hvatning til annarra Norðurlanda um það að raða okkur nú upp í biðröðinni sem umsækjendur um beina aðild. Það var kjarninn í hans boðskap. Raðið þið ykkur nú upp í biðröðinni. Hvers vegna? Vegna þess að þið getið ekki gert ykkur vonir um að fá fram kröfur ykkar um íhlutunarrétt um ákvarðanaferil EB. Eins og við hefðum nokkurn tímann farið fram á það. Tómur misskilningur. Vegna þess að það er ekki líklegt að þið fáið fram kröfur ykkar um þann fjölda af undanþágum sem EB býst við að sé á leiðinni. Tómur misskilningur líka. Vegna þess að frá því að Uffe Ellemann-Jensen, utanríkisráðherra Dana, skrifaði undir sameiginlega yfirlýsingu utanríkisráðherra EFTA og EB 19. des. 1989 hafa orðið slíkar
reginbreytingar á meginlandi Evrópu að það mun hugsanlega leiða til þess að EB falli frá öllum forsendum þessarar samningsgerðar. Hvað hefur gerst svona óskaplega merkilegt frá því í árslok 1989 og þangað til núna í mars--apríl? Hvenær varð lýðræðisbyltingin í Austur-Evrópu? Hvenær hrundi Berlínarmúrinn? Hvenær var það komið á dagskrá að sameining Þýskalands væri fram undan? Það var áður en Uffe Ellemann-Jensen skrifaði undir þessa sameiginlegu yfirlýsingu og lýsti þar yfir sérstakri ánægju sinni sem utanríkisráðherra Danmerkur að undirbúningur samninga væri svona vel á veg kominn og hvatti eindregið til þess að þessu samningaferli yrði hraðað. Hvað er það sem hefur breyst? Er Austurríki búið að falla frá samstarfi við EFTA-ríkin

vegna þess að sameining Þýskalands er komin á dagskrá? Við spyrjum Austurríkismenn og þeir svara nei. Vegna þess að við gerum okkur enn, eins og þeir kalla það, raunhæfar vonir um að eftir EFTA-leiðinni fáum við fljótar niðurstöðu okkar mála.
    Og hvað er þá eftir af málflutningi danska utanríkisráðherrans að því er varðar ráðgjöfina til annarra Norðurlanda? Raðið þið ykkur upp í biðröðina á eftir Austurríki, á eftir Tyrklandi, á eftir Möltu, til þess að sækja um beina
aðild að Evrópubandalaginu sem gæti verið á dagskrá að taka afstöðu til á seinni hluta þessa áratugar. Það er kosturinn sem danski utanríkisráðherrann er að bjóða okkur upp á. Ég læt hv. alþm. eftir að meta það hversu hollráður hann er í því efni.
    Ég held að niðurstaðan sé afar skýr. Hún er þessi: Það var Evrópubandalagið sem lagði niður forsendurnar fyrir hinni svokölluðu EFTA-leið. Það var Evrópubandalagið sem sagði og segir enn: Fyrir 1993, meðan við erum að hrinda innri markaðnum í framkvæmd, getum við ekki samið í tvíhliða samningum við einstök ríki. Þá verða þau bara í biðröðinni. Það var Evrópubandalagið sem sagði: Við tökum ekki við nýjum umsóknum fyrr en einhvern tímann eftir 1993, de facto eftir 1995. Við gerum ekki tvíhliða samninga við einstök ríki fyrr en eftir að við erum búin að hrinda grundvallarreglunum um innri markaðinn í framkvæmd, með öðrum orðum einhvern tímann eftir 1993--1995. Og það var Evrópubandalagið sem sagði: Við erum hins vegar reiðubúin til þess að taka upp samninga við EFTA-ríkin sem heild um hið fjóreina frelsi um einn viðskiptamarkað fyrir vörur, um einn fjármagnsmarkað, um einn þjónustumarkað, um einn atvinnu- og búsetumarkað.
    Það er Evrópubandalagið sem er búið að skuldbinda sig til þess að halda þessu áfram. Það er Evrópubandalagið sem gerði það með hinni sameiginlegu yfirlýsingu stjórnarnefndarinnar 20. okt. 1989. Það var Evrópubandalagið sem gerði það með sameiginlegri yfirlýsingu utanríkisráðherranna í Brussel í desember 1989. Og það er Evrópubandalagið sem er búið að árétta núna, þann 20. mars, með sameiginlegri yfirlýsingu stjórnarnefndarinnar um það að vinnan hafi gengið samkvæmt áætlun og að menn séu tilbúnir til samninga. Og það er Evrópubandalagið eða nánar tiltekið framkvæmdastjórn þess sem lýsir því nú yfir að hún muni ganga frá formlegu samningsumboði sínu 10. apríl og tilkynnir okkur að þótt formlegt endanlegt samningsumboð ráðherranefndarinnar geti hugsanlega dregist til 11.--14. júní búist hún síður við því vegna þess að það er áhugi á því hjá meiri hluta ráðherranna að ljúka þessu þann 7. maí, að því tilskildu að nægilegt sé að Evrópuþingið taki málið til umfjöllunar í utanríkismálanefnd sinni en ekki á formlegu ,,plenum``, allsherjarfundi. Báðir aðilar eru búnir að fjárfesta mikið í þessari leið. Leggja fram mikla vinnu, leggja fram vinnugögn upp á þúsundir blaðsíðna, en eftir stendur fyrst og fremst þetta: Það liggja fyrir undirskriftir, skuldbindandi undirskriftir utanríkisráðherra Evrópubandalagsins.

    Gallinn við hin bróðurlegu ráð danska utanrríkisráðherrans er því fyrst og fremst sá að hann virðist byggja á einhverjum kviksögum, einhverjum ,,gossip`` sem er með þeim hætti að þegar eftir er leitað staðfestingar á því með formlegum hætti hjá réttum aðilum þá gufar þetta allt saman upp. Og jafnvel þótt svo færi, öfugt við formlegar staðfestar yfirlýsingar, að af einhverjum ástæðum ófyrirséðum tækist okkur ekki að ná viðunandi samningsniðurstöðum, sem auðvitað getur gerst, og enginn getur fullyrt að geti ekki gerst, jafnvel þótt svo færi, hver er þá hinn kosturinn? Það verða auðvitað hvert og eitt EFTA-ríkjanna að gera upp við sig.
    En hitt er alveg rétt að það er mikið til í því mati danska utanríkisráðherrans og styðst ekki eingöngu við hans mat, það er mikið til í því að það eru miklar líkur á því, ef svo fer, að ýmis önnur EFTA-ríkjanna eigi þá ekki annan kost en að raða sér upp í biðröðina og reyna að semja um fulla aðild. Og það er ekkert efamál að það er svo um Austurríki vegna þess að aðildarumsókn þess liggur fyrir og það eru mjög verulegar líkur á því að það sama gerist að því er varðar a.m.k. Svíþjóð.
    Þegar menn spyrja hver sé hinn kosturinn vil ég áður en lengra er haldið vekja athygli manna á einu. Við erum ekki að tala um eitthvað sem er statískt, óumbreytanlegt. Við erum að tala um þróun mála í Evrópu sem er sífellt að þróast, sífellt að taka breytingum. Sem dæmi um það vil ég nefna eftirfarandi: Nokkur hinna nýfrjálsu ríkja í Austur-Evrópu hafa á undanförnum mánuðum tekið upp mjög náið samstarf við EFTA og reyndar EB líka. Lönd eins og, ég tala nú ekki um Júgóslavíu, það er eldra mál, Ungverjaland, Tékkóslóvakía og Pólland eru núna að gera, almennt orðað, samstarfssamninga við EB. Þau hafa tekið upp viðræður við EFTA um að ná sams konar samningum. Ungverjaland er þar fyrst vegna þess að það liggja fyrir drög að svokallaðri sameiginlegri yfirlýsingu um samstarf á mörgum sviðum. Það liggur fyrir að umbótaöflin þar, sem nú eiga þegar aðild að ríkisstjórn, stefna að því að stofnanabinda samstarf sitt við Vestur-Evrópuríkin sem allra fyrst og með sem allra víðtækustum hætti.
    Það liggur alveg ljóst fyrir að þessi ríki geta ekki gengið inn í Evrópubandalagið á fyrri hluta þessa áratugar. Núna hugsa menn um það mál þannig að ef við lítum fram til Evrópu aldamótanna geti vel verið að það sem nú heitir Evrópubandalag og nú heitir EFTA, eða það sem kynni að heita sameiginlegt evrópskt efnahagssvæði, nái yfir Evrópu alla með 500 millj. íbúa. Það er að sjálfsögðu ekkert annað en pólitískt mat. En ég segi, Ungverjaland, Tékkóslóvakía og Pólland geta ekki gert sér vonir um að ganga inn í Evrópubandalagið. Á því er mjög einföld skýring. Þessi lönd geta ekki opnað
sitt hagkerfi fyrir samkeppni og innflutning við vörur þessara háþróuðu iðnríkja á jafnréttisgrundvelli undir kjörum fríverslunar með banni á ríkisstyrki og með þeim kröfum sem gerðar eru um algjöra opnun á

vöruviðskiptum, fjármagnsmarkaði og hverju einu. Á því er ekki áhugi af hálfu EB og á því er ekki möguleiki af hálfu þessara ríkja. Hvað munu þau þá gera? Það fer eftir því hversu skjótt þau ná árangri. En þau draga enga dul á það að þau munu fyrr en síðar óska eftir fríverslunarsamningum við EFTA sem biðstofu á meðan þau eru að byggja upp áform sín um inngöngu í Evrópubandalagið. Því það liggur fyrir af hálfu þessara ríkja að þau stefna að inngöngu í Evrópubandalagið, það er hafið yfir allan vafa. En þau hafa lýst því yfir að bæði eiga þau ekki þennan inngöngurétt og þau óska eftir að gera það í áföngum. Og af því að EFTA er ekki yfirþjóðleg stofnun heldur fríverslunarsamband sjálfstæðra ríkja muni þau frekar óska eftir því að byrja þetta samstarf með fríverslunarsamningum við EFTA. Vegna þess að þá geta þau gert það í áföngum. Þau geta tekið upp samninga um fríverslun á einhverjum ákveðnum sviðum og þurfa ekki að opna dyr sínar að fullu og öllu fyrir grundvallarreglum Evrópubandalagsins sem mundi verða þeim ofviða.
    Og svo spyrja menn, þegar komið væri fram til ársins 1995, hver væri staðan þá t.d.? Ætli Ungverjaland verði fyrr inn í Evrópubandalagið eða inn í hið evrópska efnahagssvæði en Ísland? Eða ætli Tékkóslóvakía verði á undan? Eða ætli Pólland verði á undan? Eða hver yrði staða Íslands eftir að ekki einungis Austurríki heldur líka Svíþjóð og kannski Noregur og Finnland og Tékkóslóvakía og Ungverjaland og Pólland væru komin inn? Hver væri þá staða Íslands?
    Með þessum orðum er ég að vísa til þeirrar spurningar sem hv. 2. þm. Austurl. beindi til mín. Sem er sú hvort það hafi orðið einhver stefnubreyting af minni hálfu eða míns flokks eða innan ríkisstjórnarinnar varðandi þessi mál. Svarið er nei. Það er engin stefnubreyting. Við erum í EFTA-samstarfinu, við höfum verið í undirbúningi þessara samninga, við höfum enn þá trú á því að þessir samningar geti leitt til nægilega hagstæðrar og jákvæðrar niðurstöðu, að það dugi okkur, og við erum í þessum samningum vegna þess að það er ekki stefna þessarar ríkisstjórnar að ganga í Evrópubandalagið heldur að tryggja okkar hagsmuni með þessum samningum á þessum samningssviðum. Hversu varanlegur slíkur samningur verður það verður framtíðin að leiða í ljós. Því get ég ekki svarað hér á þessari stundu. ( HG: Ummælin í Kaupmannahöfn?) Ummælin í Kaupmannahöfn voru af mjög líkum toga eins og þau sem ég nú hef látið falla, þ.e. í samhenginu við það sem kann að gerast í framtíðinni í Evrópu og í heild er ómögulegt að útiloka það að við verðum einhvern tímann í þeirri stöðu. En það er mál sem bíður síns tíma og ég hef ekki meira að segja um.
    Af gefnu tilefni er rétt einnig að víkja að athugasemdum um það hvort hér sé um að ræða í þessum samningum eitthvert afsal landsréttinda, afsal löggjafarvalds fyrir hönd Alþingis, afsal valds ríkisstjórna o.s.frv., vegna þessara samninga. Ég hélt

að við hefðum þegar svarað þessu með viðhlítandi hætti.
    Aðalatriðin í því máli eru þessi: Við erum búin að leggja drög að því að gera viðamikinn milliríkjasamning. Samningur Evrópubandalagsins, ef af verður, verður samningur við hvert EFTA-ríki fyrir sig. Þetta er, eins og ég sagði, viðamesti samningur sem Evrópubandalagið hefur nokkru sinni gert og hvað þá heldur langsamlega viðamesti milliríkjasamningur sem Ísland hefur nokkurn tímann gert ef af honum verður. Hann er óskaplega mikill að magni til, umfangi, u.þ.b. 30.000 síður af lagatexta. En út frá spurningunni um afsal valds er þetta ósköp einfaldlega svona: Samningurinn verður auðvitað lagður fyrir Alþingi. Hann verður aldrei að milliríkjasamningi nema Alþingi samþykki hann. Ef Alþingi gerir það hins vegar hefur þessi samningur sömu stöðu og aðrir milliríkjasamningar sem við höfum áður gert. Við tökum á okkur síðan aðrar skuldbindingar um það að tryggja að þessum samningi verði framfylgt. Að tryggja samræmda túlkun hans á svæðinu og að tryggja rétt þeirra sem eiga að starfa samkvæmt samningnum að geta fengið úrlausn sinna deilumála fyrir dómstóli. Þess vegna setjum við upp tvennar stofnanir, eina eftirlitsstofnun, sem verður fyrir EFTA í heild og fyrir hvert land sérstaklega, og einn dómstól þar sem menn geta leitað réttar síns. Nákvæmlega með sama hætti og við skuldbindum okkur í milliríkjasamningum, t.d. með Mannréttindasáttmálanum, til þess að íslenskir þegnar geti, ef þeir telja á sér brotið, fengið lausn sinna deilumála með því að skjóta ágreiningsefnum fyrir Evrópudómstólinn. Engum hefur dottið í hug að í því felist afsal valds, hvorki Alþingis né dómstóla, og það er nákvæmlega sambærilegt við þann samning sem við nú gerum. Vegna þess að það liggur fyrir að EFTA ætlar ekki, þrátt fyrir þær tillögur sem fyrir liggja um styrkingu á EFTA, að breyta sjálfu sér og samstarfsaðferðum sínum. EFTA er samtök frjálsra fullvalda ríkja þar sem ekki er hægt að ná niðurstöðu nema með samstöðu.
    Að því er varðar undanþágur og fyrirvara ætla ég aðeins að segja eftirfarandi: Samkvæmt hugsanagangi EB er fyrirvari, ,,exception`` eða ,,reservation``, samkvæmt skilgreiningu fyrirvari eða undanþága frá reglum
Evrópubandalagsins um framkvæmd innri markaðarins sem eru allt reglur um opnun og um fríverslun, almennar reglur þess eðlis. Þess vegna er það að ég lít ekki á kröfur Íslendinga um fríverslun með fisk sem undanþágu eða fyrirvara frá EB-reglum. Þvert á móti. Ég segi: EFTA-ríkin sem hafa komið á fríverslun með fisk í viðskiptum sínum innbyrðis setja sameiginlega fram þá kröfu að hún verði látin gilda á evrópska efnahagssvæðinu öllu. Við erum að setja fram kröfu um frekari útfærslu á fríverslunarreglunni, að hún nái til fleiri vörusviða, nefnilega fiskjar og að hluta til landbúnaðarafurða. Það er ekki undanþága frá EB. Það er krafa um það að EB gangi lengra í að útfæra sínar fríverslunarreglur til vörusviða sem þar

eiga heima og er engin séríslensk undanþága.
    Hverjar eru þá okkar undanþágur? Þær eru í grundvallaratriðum þessar: Sérstaða Íslands sem fámennrar þjóðar sem býr við tiltölulega einhæft atvinnulíf og tiltölulega fábreyttan auðlindagrundvöll er þessi: Við setjum fram kröfu um varanleg frávik, varanlega undanþágu, byggt á tilvísun til lífshagsmuna þjóðar, ,,fundamental national interest``, um það að erlendir aðilar megi ekki hafa sama rétt og íslenskir að því er varðar nýtingu á þessum auðlindum sem heita fiskstofnarnir og orkuauðlindirnar. Við rökstyðjum þetta með þeim hætti að samkvæmt íslenskum lögum eru fiskstofnarnir sameign þjóðarinnar. Um þá gegnir öðru máli en t.d. lendur eða fasteignir. Þeir eru óskiptanlegir í þeirri merkingu að auðlindin er óskiptanleg. Hún gengur ekki kaupum og sölum á markaði eins og jarðir eða fasteignir. Við segjum að nær sé að líta á t.d. auðlindir eins og olíulindirnar í Norðursjónum og þær reglur sem um nýtingu þeirra gilda hjá EB-landinu Bretlandi. Auðlindir innan breskrar lögsögu eru sameign þjóðarinnar og það er á forræði bresku
ríkisstjórnarinnar, hvað sem svo líður EB-aðild þeirra, hvernig sú auðlind er nýtt. Og það er á valdi bresku ríkisstjórnarinnar að tryggja það að þær auðlindir nýti engir aðrir en þeir sem eru meðeigendur þeirra, þ.e. breskir þegnar.
    Þriðja fyrirvarann, sem varðar búsetu- og atvinnumarkaðinn og er sá hinn sami og verið hefur í gildi varðandi norræna vinnumarkaðinn, tel ég vera af því tagi að það verði mjög auðvelt fyrir EB að fallast á hann. Sá fyrirvari sem langsamlega mestu máli skiptir er því fyrirvari nr. tvö, um auðlindanýtinguna, því að hitt er raunverulega ekki í skilningi Evrópubandalagsmanna sjálfra fyrirvari frá þeim reglum þó að það standi eftir sem áður að stærsta hagsmunamál Íslendinga í þessum samningum er auðvitað að knýja fram fríverslun með fiskafurðir.
    Hvað varðar ótta manna um að það muni þýða að við höfum ekki lengur stjórn á útflutningi á óunnum fiskafurðum og það muni leiða til þess að Íslandi sitji hér uppi sem hráefnisframleiðandi og við missum vinnuna úr landinu, þá er því til að svara að þetta mun í engu breyta því ástandi sem nú er. Við höfum skuldbundið okkur til þess að leggja ekki magntakmarkanir á útflutning í þessu landi. Við höfum gert það bæði innan GATT og við höfum gert það í samningsskuldbindingum okkar innan EFTA og EB. En það eru fyrirvarar á því, t.d. í fríverslunarsamningnum við EB, þar sem við jafnframt tökum á okkur þá skuldbindingu að tryggja að ekki verði slíkt offramboð á ferskfiskmörkuðum að við stöndum ekki þar við þá skuldbindingu að halda uppi svokölluðum lágmarksviðmiðunarverðum þannig að þetta mun engu breyta um þá ráðstöfun.
    Og að því er varðar spurninguna um það hvort við treystum okkur til þess að keppa á mörkuðum hins evrópska efnahagssvæðis ef Evrópubandalagið heldur áfram sinni sameiginlegu fiskveiðistefnu, sem m.a. inn á við beinist að því að greiða styrki til evrópsks

sjávarútvegs og fiskvinnslu, þá verður það að byggjast á okkar eigin mati, nefnilega mati okkar á því hvað af þessum styrkjum er samkeppnishindrandi. Að verulegum meiri hluta til eru þeir það nefnilega ekki þegar grannt er skoðað. Vegna þess að helmingurinn af þessum fjármunum fer í að kaupa veiðiheimildir annars staðar. Það kemur okkur ekkert við. Hluti af þessum fjármunum fer í að byggja upp dreifingar-, sölu- og markaðskerfi fyrir fiskafurðir sem er okkur jákvætt. Hluti af þessum styrkjum fer í að fjármagna í gegnum úreldingarsjóð minnkun á veiðiflota þeirra sem er okkur afar hagstætt. Það er einungis sá hlutinn sem lýtur að beinum styrkgreiðslum við fiskvinnsluna sem er markaðstruflandi.
    Ég hallast hins vegar að því að þrátt fyrir þetta muni styrkur íslensks sjávarútvegs og fiskvinnslu reynast slíkur að við getum með góðum árangri keppt á þessum mörkuðum jafnvel þótt þeir haldi þessum styrkjum um skeið. En það er yfirlýst stefna Evrópubandalagsins að minnka þennan flota og það er yfirlýst stefna Evrópubandalagsins að draga úr þessum styrkjum og það er mjög eindregin stefna framkvæmdastjórnarinnar og það er mat manna að á næstu árum muni draga mjög úr hvoru tveggja sem þýðir þá það að markaðsstaða okkar styrkist að sama skapi.
    Virðulegi forseti. Ég taldi nauðynlegt við lok þessarar umræðu að reyna eftir bestu getu að gera Alþingi grein fyrir mati mínu á stöðu þessara mála og að reyna að draga úr hálftaugaveiklunarkenndum viðbrögðum sem orðið hefur vart
vegna misvísandi fréttaflutnings, nefnilega á þá leið að allt sé hers höndum, allt sé upp í loft og allar líkur bendi til þess að ekki verði neitt úr neinu. Ég tel þvert á móti allar líkur benda til þessa að þessar áætlanir muni standast, til eða frá þessi eini mánuður sem líður þar til við fáum samningsumboðið. Að því er varðar samninginn sjálfan er rétt að segja það einu sinni enn að um það bil 90%, og þá tölu nefni ég nú með fyrirvara, af því sem við munum semja um við samningaborðið er þegar frágengið mál. Það er ágreiningslaust. Það sem eftir er að semja um eru sérmál einstakra ríkja, þeir þungu fyrirvarar sem við ætlum að halda í lágmarki en skipta auðvitað sköpum. Síðan verðum við að láta auðnu ráða um það hvort samningsniðurstaðan að því er þetta varðar verður okkur hagstæð þannig að við getum við unað.
    Að því er varðar aðra kosti ætla ég að láta mér nægja að segja aðeins eitt: Þeir sem hafa í góðri trú sagt að við eigum að leggja höfuðáherslu á tvíhliða samninga við Evrópubandalagið eru nú nokkru nær um það hversu líklegt er að ná jákvæðum niðurstöðum eftir þeirri leið eftir heimsókn embættismanna framkvæmdastjórnarinnar sem hingað kom í fyrri viku til þess að undirbúa tvíhliða viðræður við sjávarútvegskomissara Evrópubandalagsins, senjor Marin. Þessir embættismenn staðfestu allt sem við höfum sagt um það mál áður. En þegar menn segja: Það er ekkert að marka, þetta eru bara embættismenn, bið ég menn um að vera ekki í orðaleikjum. Þetta eru

að sönnu embættismenn. En þeir voru að framfylgja hinni opinberu, sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins sem stjórnmálamenn hafa ákveðið, sem er það pólitíska veganesti og það pólitíska umboð sem þeir hafa og þeir hafa ekkert annað umboð.
    Og ef við erum að tala um, ekki tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið heldur tvíhliða formlegar samningaviðræður við Evrópubandalagið, þá komumst við ekki fram hjá þessum mönnum vegna þess að það er ekki við neina aðra að tala. Við tölum ekki við aðra um lækkun á tollum vegna þess að samningsumboð til þess er í höndum framkvæmdastjórnarinnar. Og við tölum ekki við aðra um sérsamninga um fiskveiðimálefni vegna þess að það er á verksviði framkvæmdastjórnarinnar. Með það mál þýðir okkur ekkert að fara til stjórnmálaleiðtoga í ríkisstjórnum EB, til Þjóðverja, sérstaklega Helmut Kohl, eða vinar vors, aðstoðarutanríkisráðherra Þjóðverja, Adam-Schwaetzer. Um það þýðir okkur ekki að ræða sérstaklega til þess að fá niðurstöðu við þann mann sem hefur verið okkur hvað jákvæðastur í þessu máli, von Gelder, sjávarútvegsráðherra Þýskalands, vegna þess að þessir menn hafa ekki umboð. Samkvæmt stjórnkerfi Evrópubandalagsins er það framkvæmdastjórnin í Brussel sem ein hefur hið pólitíska umboð til að framfylgja hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu inn á við og út á við. Það er framkvæmdastjórnin í Brussel sem við er að semja ef við ætlum að fá lækkaða tolla, t.d. frekari tollalækkanir samkvæmt bókun 6. Við fáum engu um það breytt og þeir fá engu um það breytt fyrr en kannski á þeim tímapunkti undir lok viðræðna EFTA-ríkjanna við EB þegar ljóst er að það er komið samkomulag kannski um 99% af öllum þeim mikla milliríkjasamningi en það strandar kannski enn á því að það er árekstur milli sérhagsmuna Íslands og hinnar sameiginlegu fiskveiðipólitíkur og þá er kannski einhver von til þess að fremur en þessi ríki öll vilji sópa þessum mikla samningi út af borðinu þá verði hægt að taka það mál upp í alvöru og ná einhverri sérannexíu eða sérprótokolli um sérmál Íslands eins og við höfum hugsað það mál frá öndverðu og liggur fyrir alveg endanlega staðfest og skjalfest að er rétt mat á samningsstöðunni.
    Ég segi þetta einfaldlega vegna þess að ég tel að þetta eigi að leiða til þess að við hér á hinu háa Alþingi og fulltrúar þeirra flokka sem auðvitað hafa allir það að markmiði að gæta íslenskra hagsmuna sem allra best í þessum samningum, við látum þetta ekki verða okkur að ágreiningsefni, að við búum okkur ekki til ágreiningsefni af þessu tagi heldur stöndum einfaldlega einhuga saman um sannanlega meginhagsmuni okkar. Það er ekki lengur deila um það hvort við eigum að fara þessa tvíhliða leið eða EFTA-leiðina. Ég hef sagt og segi enn: Við eigum að sækja fram á báðum vígstöðvum. Þetta er ekki annaðhvort eða. Við höldum auðvitað áfram EFTA-leiðina til enda. Við munum halda áfram tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið. Við óskum eindregið eftir því að senjor Marin komi í þá

heimsókn sem honum hefur verið boðið í. Og ég nefni það sem dæmi að forsrh. Íslands mun fara í tvíhliða viðræður við framkvæmdastjórnina í Brussel þann 18. apríl þar sem hann mun ræða við forseta framkvæmdastjórnarinnar, Jacques Delors, varaforseta framkvæmdastjórnarinnar og utanríkisráðherra bandalagsins, Franz Andriessen, Henning Christophersen sem fer með hin viðskiptalegu málefni og Marin sem fer með sjávarútvegsmálefnin. Auk þess mun forsrh. ræða við forseta Evrópubandalagsþingsins og væntanlega og vonandi formann utanríkismálanefndar, REX-nefndarinnar. Og það er ákveðið að utanrrh. verði með honum í för. Þetta nefni ég bara sem dæmi um það að við munum að sjálfsögðu halda áfram tvíhliða viðræðum því að við munum hamra þetta járn áfram. Við munum halda áfram að segja: Hvað svo sem líður ykkar sameiginlegu fiskveiðistefnu getið þið að sjálfsögðu --- það er ekki á okkar valdi að segja ykkur til um það hversu
vitlaus hún er. Við vitum af henni. En þrátt fyrir hana viljum við fá fram viðurkenningu á sérstöðu Íslands, lands sem byggir afkomu sína á þessari auðlind og lands sem byggir gjaldeyristekjur sínar í jafnríkum mæli á útflutningi fiskafurða, þá viljum við vinsamlegast fara fram á það að sá skilningur verði de facto sýndur á sérstöðu Íslands að hún á ekki við, þessi margrómaða evrópska fiskveiðistefna þegar Ísland á í hlut.
    Við munum halda þessum málflutningi áfram í tvíhliða viðræðum eins og við höfum gert kerfisbundið tvö sl. ár. Forsrh. hafandi rætt við alla sína kollega, ég hafandi rætt við alla mína starfsbræður, bæði utanríkisráðherra og utanríkisviðskiptaráðherra hvers einasta Evrópubandalagsríkis, viðsk.- og iðnrh. sem hefur rætt þetta við kollega sína og einnig við framkvæmdastjórnina í Brussel, sjútvrh. sem hefur rætt þetta við sína kollega og þannig mætti lengi telja. Auðvitað munum við halda þessum viðræðum áfram með það að markmiði að afla og viðhalda skilningi á sérstöðu Íslands þannig að við getum hugsanlega fært okkur það í nyt de facto þegar kemur að lokum samningsniðurstöðunnar en til þess þurfum við atbeina stjórnmálaleiðtoganna í Evrópubandalaginu sem munu ekki geta tekið fram fyrir hendurnar á kommissjóninni nema með því að taka um það sérstaka pólitíska ákvörðun.
    Virðulegi forseti. Að því er varðar einstakar spurningar sem til mín var beint vil ég reyna að fara hratt yfir sögu því þetta er að sönnu meginmálið sem við erum að fjalla um. Mér þótti vænt um að heyra það hjá hv. 1. þm. Suðurl., formanni Sjálfstfl., að það væri ekki mikill ágreiningur af hans hálfu um þá utanríkisstefnu sem framfylgt hefur verið af hálfu núv. ríkisstjórnar, að í stórum dráttum væri samstaða um grundvallarforsendurnar, þ.e. aðildina að Atlantshafsbandalaginu, varnarsamninginn sem forsendur fyrir þeirri öryggisstefnu sem við höfum rekið og rekum enn. Ég tók eftir því að hann gagnrýndi að að þessu væri ekki sérstaklega vikið í

stjórnarsáttmálanum og það er rétt, það er ekki að því vikið. En það var heldur hvergi að því vikið að þessum grundvallarforsendum ætti að breyta. Þvert á móti lá það fyrir að á þeim forsendum yrðu ekki breytingar í tíð þessarar ríkisstjórnar og þarf engum að koma á óvart. (Gripið fram í.) Það er auðvitað öllum kunnugt hér á hinu háa Alþingi um það hver hefur verið afstaða t.d. Alþb. til þessara mála. Alþb. er andvígt varnarsamningnum við Bandaríkin. Alþb. er eftir því sem ég best veit enn þá andvígt aðildinni að Atlantshafsbandalaginu. En Alþb. hefur hvað eftir annað tekið þátt í ríkisstjórnum án þess að setja fram kröfur um að breyta þessu tvennu og þær kröfur voru heldur ekki settar fram að þessu sinni og voru ekki á dagskrá. Í stórum dráttum er því út af fyrir sig samstaða þvert yfir flokkavíggirðingar um þessar grundvallarforsendur.
    Það er hins vegar á misskilningi byggt þegar hv. 1. þm. Suðurl. segir að það skorti á mótaða skýra eða samkvæma stefnu innan núv. ríkisstjórnar. Auðvitað er áherslumunur milli flokka. En sú stefna sem framfylgt hefur verið hefur verið afar skýr og samkvæm og reyndar að mínu mati árangursrík. Þar vil ég leggja sérstaka áherslu á það frumkvæði sem Íslendingar hafa tekið í einu stærsta öryggismáli okkar sem varðar tillögurnar um afvopnun á höfunum. Það mál sýnir að lítil þjóð sem er aðildarþjóð að varnarbandalagi getur með árangursríkum hætti beitt sér fyrir frumkvæði á alþjóðlegum vettvangi með árangri. Íslendingar eru jafnréttháir aðilar í Atlantshafsbandalaginu og hinar þjóðirnar, þ.e. Bandaríkin, Þjóðverjar, Bretar eða hver önnur sem menn nefna, og þar er, rétt eins og í litla EFTA, málum svo fyrir komið að engar ákvarðanir eru teknar nema með samstöðu.
    Dæmið af því með hvaða hætti við, sem stöndum að þessari ríkisstjórn, höfum tekið frumkvæði að því er varðar afvopnun á höfunum, það sannar okkur það að Atlantshafsbandalagið er vettvangur þar sem við getum, ef við viljum beita virkni og frumkvæði, komið þýðingarmiklum hlutum áleiðis. Reyndar vil ég bæta því við að ef við ekki hefðum þessa aðild að Atlantshafsbandalaginu ættum við hvergi nokkurs staðar aðild að öllum afvopnunarferlinum í Evrópu, yrðum þar hvergi til kvaddir og hvergi um neitt spurðir, ættum enga aðild að þeim málum. Það hefur einmitt verið afar lærdómsríkt að kynnast því hvernig fulltrúar hinna minni ríkja innan Atlantshafsbandalagsins hafa hvað eftir annað reynst hafa, í krafti síns málflutnings, úrslitaáhrif á niðurstöður og stefnumörkun innan Atlantshafsbandalagsins.
    Ég vildi því í allri vinsemd segja sem svo að það væri kominn tími til, af því að sumir tala um hið kalda stríð sem á að vera liðið, fyrir flokk eins og Alþb. íslenska og talsmenn þess í utanríkismálum að taka nú til rækilegrar endurskoðunar gömlu ,,parólin`` ,,Ísland úr NATO --- herinn burt`` sem eru vel fallin til söngs en afar illa fallin til þess að gera að grundvelli í yfirvegaðri ábyrgri stefnu í utanríkis- og varnarmálum í ljósi þeirra atburða sem orðnir eru í

okkar heimshluta.
    Ég nefni sem dæmi að ítalski kommúnistaflokkurinn, sem er nú sá merkasti, hefur auðvitað fyrir lifandi löngu gert þetta upp við sig og hætt að vera með þetta ,,paról`` fyrir mörgum árum. Meira að segja danski SF-flokkurinn, Sund fornuft, hætti þessu einnig fyrir mörgum árum og styður aðild Danmekur að NATO.
    Umbótaöflin, lýðræðisöflin í Austur-Evrópu, lýsa því yfir, Tékkóslóvakía og Ungverjaland, að þau telji rétta og skynsamlega þá stefnu stjórnvalda í þessum löndum að Þýskaland haldi áfram að vera aðili að Atlantshafsbandalaginu. ( Forseti: Leyfist forseta að spyrja hæstv. ráðherra hvort mikið sé eftir af ræðu hans. Hér hafði svo um samist að gerður yrði frestur á þessari umræðu kl. 2 svo að atkvæðagreiðsla næðist um mikilvæg mál.) Virðulegi forseti. Ég skal slá botn í þessa ræðu með nokkrum setningum.
    Ég þarf ekki að víkja að fullyrðingum varðandi varaflugvöll um að um hann ríki slíkur ágreiningur innan ríkisstjórnar að utanrrh. hafi verið beygður í því máli. Ég vísa því enn á bug. Ég hef rætt það svo oft á þessum vettvangi að ekki þarf meira um það að segja.
    Að því er varðar málefni Aðalverktaka tek ég eftir því að formaður Sjálfstfl. sem boðar þá stefnu að þar eigi að efna til opins verktakamarkaðar sem væntanlega mundi gerbreyta aðstöðu Íslands, íslenskra verktaka, í þeim málum, svarar ekki þeirri spurningu hvað gera á við þetta mikla fyrirtæki en þetta eru náttúrlega skilaboð til þeirra sem þar starfa um það að endi verði bundinn á starfsemi þess sem sérhæfðs verktakafyrirtækis. Ég hef boðað þar aðra stefnu, nefnilega þá að ríkið taki þar meiri hluta og að hagnaðurinn af þessari starfsemi skili sér þannig til þeirra sem hann ber, þ.e. almennings í landinu, þjóðarinnar í heild fremur en í hlut einhverra sem úthlutað var þarna forréttindum og hafa makað krókinn sem slíkir áratugum saman.
    Spurt var af hverju ekki kæmi fram afstaða til sameiningar Þýskalands. Ég vil bara taka fram að það er ekki okkar hlutverk í skýrslu utanrrh. til Alþingis að blanda okkur í innanríkismálefni annarra þjóða, en ég vil láta þess getið að ég hef skrifað utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að gefnu tilefni, eins og fleiri utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsríkja um það að við óskum eftir að það mál, að því er varðar öryggismál annarra Evrópuríkja, verði tekið sérstaklega upp innan Atlantshafsbandalagsins og reyndar stóð til að gera það um miðjan þennan mánuð.
    Þeirri spurningu var til mín beint, að því er varðar landbúnaðarmál í samningum EFTA--EB, hvort þau fælu í sér að framvegis yrði innflutningur landbúnaðarvara bannaður eða hömlur lagðar á það hvort Íslendingar sjálfir vilja moka hundruðum millj. kr. í útflutningsbætur. Svarið við hvoru tveggja er nei. Það er ekki á okkar samningssviði. Hins vegar eru þeir hlutir að gerast innan GATT að þar eru uppi tillögur um að frysta núverandi ástand og stefna að

því að minnka þetta í áföngum og smám saman að koma á hindrunarminni heimsviðskiptum með landbúnaðarafurðir sem er auðvitað hið þýðingarmesta mál, bæði fyrir okkar þjóð og allar aðrar þjóðir sem eru matvæla- eða hráefnaframleiðendur.
    Virðulegi forseti. Sjálfsagt er eitthvað af einstökum spurningum sem ég hef þá ekki svarað hér sérstalega, en ég held að þær skipti a.m.k. ekki því höfuðmáli að þær varði nein meginatriði.
    Ég læt máli mínu lokið, virðulegi forseti.