Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1989
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Hlutverk Ríkisendurskoðunar hefur verið tíundað hér svo nákvæmlega að ég ætla ekki að rifja það upp frekar til að lengja málið, en með þessari skýrslu sem við ræðum nú liggur fyrir hver verkefni Ríkisendurskoðunar hafa verið á sl. ári. Þau verkefni hafa verið nokkuð mörg og er gerð grein fyrir þeim og einnig því hvað Ríkisendurskoðun telur að séu framtíðarverkefni stofnunarinnar.
    Með lögunum um ríkisendurskoðun frá 1986 var stofnuninni falið víðtækara endurskoðunarhlutverk en áður. Enn hafa bæst við ný verkefni svo sem skýrslan greinir. 1. jan. 1987 tóku gildi lög sem kváðu á um að Ríkisendurskoðun skuli starfa á vegum Alþingis en vera óháð handhöfum framkvæmdarvaldsins. Áður var Ríkisendurskoðun sjálfstæð stjórnardeild innan fjmrn. og laut fjmrh. Þessi lagasetning gerði síðan Ríkisendurskoðun sjálfstæðari en áður. Síðan hafa athugasemdir stofnunarinnar um atriði sem aflaga hafa farið í rekstri ríkisfyrirtækja og stofnana mjög oft verið í sviðsljósinu og vakið umræður í fjölmiðlum og meðal almennings og vakið yfirleitt almennan áhuga á að fylgjast með fjármálum ríkisins, eða almennari en áður hefur verið, e.t.v. ekki síst vegna þess að í opinberum skýrslum Ríkisendurskoðunar á fólk greiðari aðgang að upplýsingum um þau mál og skattborgarinn hlýtur að láta sig varða það hvernig sameiginlegu fé okkar allra er varið.
    Áður en áðurnefnd lagabreyting var gerð var Alþingi mjög háð aðstoð framkvæmdarvaldsins við fjárlagagerð. Embættismenn aðstoðuðu við fjárlagagerð, embættismenn sem gert höfðu eða höfðu látið gera þær tillögur sem þeir áttu svo að sjá um framkvæmd á. Sú höfuðbreyting er nú orðin að Alþingi hefur fengið stofnun til að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu sem er því alls óháð, þ.e. framkvæmdarvaldinu.
    Síðan Ríkisendurskoðun tók til starfa á vegum Alþingis hefur mikil breyting orðið á um skýrslugerð og eftirlit með ríkisfjármálum. Má þar nefna að þrisvar á ári koma skýrslur um framkvæmd fjárlaga yfirstandandi árs, skýrslur koma um niðurstöður framkvæmdar fjárlaga liðins árs, fjáraukalög hafa verið lögð fram vegna greiðslna á yfirstandandi ári. Allt gerir þetta mönnum auðveldara að fylgjast með stöðu fjármála ríkisins og það sem mest er um vert, það stuðlar að betri yfirsýn yfir umfang ríkisrekstrar og stuðlar á þann hátt að markvissari fjárlagagerð.
    Ég vil leyfa mér að láta í ljós þá skoðun að þetta sem ég nú hef nefnt sé með því markverðasta sem gerst hefur í meðferð ríkisfjármála síðan lýðveldið var stofnað. Þessi meðferð mála stuðlar að auknu aðhaldi hjá ríkisstofnunum og hjá framkvæmdarvaldinu. Öll umræða um þessi mál hefur breyst í þá veru að kröfur hafa aukist um sparnað, ráðdeild og ábyrgð í meðförum á fé ríkisins og forstöðumenn ríkisstofnana finna fyrir þessum kröfum. Það örlar á hugarfarsbreytingu í þessum efnum. Ríkisendurskoðun hefur veitt fjvn. aðstoð við störf hennar. Sú aðstoð

hefur fyrst og fremst tengst vinnu við afgreiðslu fjárlagafrv. og upplýsingagjöf vegna framkvæmdar fjárlaga og upplýsingagjöf að beiðni einstakra nefndarmanna. Ég tel þá aðstoð ómetanlega fyrir nefndarstarfið og ég sé ekki fyrir mér í rauninni hvernig hægt var að komast af án þess, einkum vegna þeirrar stöðu Ríkisendurskoðunar að vera með öllu óháð framkvæmdarvaldinu.
    Ég hef þegar rætt um það hversu nauðsynleg sú fjárhagsendurskoðun er sem stofnunin hefur með höndum og hingað til hefur verið aðalverkefni hennar, en annar þáttur er ekki síður mikilvægur sem minna hefur verið sinnt og það er stjórnsýsluendurskoðun sem felst í því að könnuð sé meðferð og nýting á almannafé. Stofnuninni er skylt að vekja athygli hlutaðeigandi stjórnvalda á því sem úrskeiðis kann að fara í rekstri og gera tillögur um úrbætur.
    Því er ekki að leyna að sú endurskoðun sem stofnunin hefur gert á stjórnsýslu nokkurra stofnana virðist hafa farið fyrir brjóstið á ýmsum og er það í rauninni furðulegt þegar litið er til þess hversu mikið nauðsynjamál þetta er og hversu markverðum árangri þetta hefur skilað. Og furðulegast af öllu er að ákveðin andstaða við þessar aðgerðir virðist ríkja hér innan veggja hins háa Alþingis, en hér ætti þó öðrum stöðum framar að ríkja skilningur á mikilvægi slíkra aðgerða, að mínu áliti.
    Virðulegi forseti. Ég lýk máli mínu með því að lesa nokkra kafla úr Lima-yfirlýsingunni sem hv. frsm. gerði grein fyrir áðan hvers eðlis væri, og þar segir m.a.:
    ,,Með því að skipuleg og góð nýting á almannafé er ein af meginforsendum fyrir réttri stjórnun og meðferð opinberra fjármála og þess að ákvarðanataka viðkomandi yfirvalda beri árangur, með því að óhjákvæmilegt er, til að ná þessu markmiði, að hvert land hafi á að skipa ríkisendurskoðun og sjálfstæði þeirra stofnana sé tryggt með lögum, með því að slíkar stofnanir hafa orðið enn mikilvægari sökum þess að ríkið hefur gerst æ virkara á sviðum félags- og efnahagsmála og þar með farið út fyrir ramma hefðbundinna fjárlaga, með því að hin sérstöku markmið með endurskoðun, þ.e. rétt og virk meðferð á opinberu fé,
uppbygging traustrar fjármálastjórnunar, skilvirk stjórnsýsla og upplýsingamiðlun til yfirvalda, sem og almennings, með útgáfu á hlutlægum skýrslum, eru mikilvæg fyrir stöðugleika og þróun ríkja og í samræmi við markmið Sameinuðu þjóðanna, með því að á fyrri alþjóðaþingum ríkisendurskoðana voru samþykktar ályktanir sem öll aðildarríkin féllust á að dreift yrði, var samþykkt að gefa út og dreifa skýrslu undir heitinu Lima-yfirlýsingin um leiðbeinandi reglur varðandi ríkisendurskoðun.`` Í þessum reglum eru drög að helstu starfsreglum sem ríkisendurskoðunum beri að fara eftir.
    Í 5. gr. þessarar yfirlýsingar er lögð áhersla á sjálfstæði ríkisendurskoðana: ,,Ríkisendurskoðanir geta því aðeins gegnt hlutverki sínu á hlutlægan hátt og með tilætluðum árangri ef þær eru óháðar þeim aðila

sem endurskoðað er hjá og eru verndaðar fyrir utanaðkomandi áhrifum.`` Og enn fremur segir í þessum kafla að í stjórnarskrá skuli kveðið á um stofnun ríkisendurskoðunar og það sjálfstæði sem hún skuli njóta. ,,Sérstaklega ber að tryggja að æðsti dómstóll veiti ríkisendurskoðun nauðsynlega lögvernd gegn hvers konar afskiptum af sjálfstæði og heimild hennar til að framkvæma endurskoðun.`` Á þetta ber að leggja ríka áherslu.
    Það er trúa mín að þessir kaflar undirstriki nauðsyn þess að Ríkisendurskoðun starfi óháð á vegum Alþingis og sem lög mæla fyrir um og á þann hátt sé best sinnt því nauðsynlega aðhaldi og eftirliti sem þarf að vera á ráðstöfunum á almannafé.