Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1989
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins segja hér örfá orð í sambandi við þessa starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1989 sem hér liggur frammi og hefur verið mælt fyrir. Ég held að enginn sé í vafa um að með tilkomu Ríkisendurskoðunar undir Alþingi var stigið mikilvægt spor og hefur nú þegar á þessum stutta starfstíma sem Ríkisendurskoðun hefur starfað eftir að þessi breyting var gerð markað veruleg spor til að færa meðferð ríkisfjármála til betri vegar. Ég vil sérstaklega taka fram að samskipti Ríkisendurskoðunar við fjvn. hafi verið með miklum ágætum og það hefur verið fyllilega í samræmi við lög um Ríkisendurskoðun og komið að miklum notum við fjárlagagerðina. Þetta er fyrst og fremst í sambandi við upplýsingar og þær beiðnir um upplýsingar sem hafa komið fram bæði frá fjvn. í heild og eins frá einstökum nefndarmönnum sem Ríkisendurskoðun hefur fylgt eftir og komið með með miklum ágætum.
    Ríkisendurskoðun sem slík hefur aldrei haft bein áhrif á fjárlagagerðina sjálfa á þann hátt sem margir hafa viljað halda fram og raunar var haldið fram af hv. frsm. skýrslunnar, það er síður en svo, heldur hefur eingöngu verið um upplýsingastörf að ræða og í samræmi við það sem segir í lögum um Ríkisendurskoðun. Hún á sérstaklega að vera fjvn. Alþingis til ráðuneytis og til þjónustu eftir því sem farið er fram á. Þetta tel ég mikilvægt og ég er í engum vafa um að sú þjónusta sem Ríkisendurskoðun hefur veitt við fjárlagagerð og í fjvn. hefur verið mjög jákvæð fyrir meðferð á ríkisfjármálum og sérstaklega í sambandi við fjárlögin sjálf.
    Mér þykir rétt að undirstrika þetta alveg sérstaklega hér því að það er samdóma álit allra þeirra sem nálægt þessum málum hafa komið að þetta hefur haft mjög jákvæð áhrif.
    Það má einnig segja það hér að nú þegar tel ég það engum vafa undirorpið að Ríkisendurskoðun hafi haft gífurlega mikil áhrif á ríkiskerfið í heild. Ég er
í engum vafa um það að bæði hjá ríkisstofnunum og hjá hinum ýmsu ráðuneytum hafa menn áttað sig á mikilvægi stofnunarinnar og mikilvægi þeirra leiðbeininga, upplýsinga og ábendinga sem koma fram í skýrslum Ríkisendurskoðunar um hin ýmsu mál sem sum hver hafa verið tíunduð hér í framsöguræðu. Þetta er gífurlega mikið atriði og enginn vafi á því að þetta verður leiðandi starf til að koma ríkisfjármálum á öllum sviðum til betri vegar og þá stefnum við að sjálfsögðu rétt í þessum málum.
    Það sem við sjáum svo er náttúrlega það sem kemur fram í þessari ágætu skýrslu, að það eru áhrif upplýsingar um framkvæmd fjárlaganna og meðferð þeirra. Þetta hefur komið fram þegar, eins og hv. frsm. skýrði hér frá, í skýrslum sem Alþingi hefur fengið, bæði um meðferð fjármálanna og meðferð framkvæmdarvaldsins á hinum ýmsu málum sem hefur verið leiðbeinandi fyrir framhald þessara mála.
    Ég legg mikla áherslu á, og ég fagna því að forusta þingsins áttar sig á mikilvægi þessara mála, að

það kom ákveðið fram hjá hv. frsm. að leggja beri áherslu á að auka og efla sjálfstæði Ríkisendurskoðunar. Og þegar við lítum yfir þau alþjóðasamtök sem Lima-yfirlýsingin er árangur af, hvernig unnið er að þessum málum á alþjóðavettvangi, er það alveg ljóst að Ríkisendurskoðun stefnir í rétta átt í störfum sínum. Ég tel að á engan hátt megi koma fram hér á hv. Alþingi að Alþingi vilji hefta framgang sjálfstæðis Ríkisendurskoðunar. Það er meginmál. Og ég vona að niðurstaðan af þessu starfi sanni það að hér er brýn þörf á að Ríkisendurskoðun starfi innan Alþingis og hafi algjört sjálfstæði til þess að meðhöndla þau mál sem lögin gera ráð fyrir að hún annist og það sem henni er falið að gera eða er óskað er eftir að hún geri hér á hv. Alþingi.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki taka lengri tíma. Við erum vonandi sammála um þessi mál. Ég tel mjög nauðsynlegt að búa Ríkisendurskoðun viðunandi starfsaðstöðu, bæði að því er rekstrarfé snertir og eins starfsaðstöðu í húsnæði, og vænti þess að sú ákvörðun sem núna er verið að ganga frá, að Ríkisendurskoðun fái húsnæði ríkisskattstjóra, verði að veruleika á þessu ári. Það má vel taka undir það með hv. frsm. að þetta sé að hluta til bráðabirgðahúsnæði, en aðalatriðið er það að ekki sé komið í veg fyrir það frá hv. Alþingi að Ríkisendurskoðun geti starfað sjálfstætt eins og nauðsyn ber til því að á því veltur sá árangur sem menn gera sér grein fyrir að hún þurfi að sýna í störfum sínum.
    Ég vildi aðeins endurtaka að ég fagna þessari skýrslu og hún undirstrikar að mínu mati gildi Ríkisendurskoðunar, og sú ákvörðun sem Alþingi tók á sínum tíma var í alla staði réttmæt og hefur þegar sannað gildi sitt.