Utanríkismál
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að ræða mikið um skýrslu utanrrh. frekar en orðið var. Í alllangri ræðu sem ég flutti hér í síðustu viku um þetta dagskrárefni var að ýmsu vikið sem varðaði efni skýrslunnar. Þó var þar órætt eitt stórt mál, sem við höfum mörg okkar þingmanna unnið við, en það varðaði einmitt efnið sem hæstv. ráðherra lét sér hvað tíðræddast um nú, sem sé viðræður EFTA og Evrópubandalagsins.
    Það fór ekki á milli mála, að því er mér virtist, fyrir jól nú í vetur hver afstaða hæstv. ráðherra var, ekki síst gagnvart hugmyndum sjálfstæðismanna um það að samhliða könnunarviðræðum EFTA og EB ættu að fara fram tvíhliða viðræður Íslendinga og EB vegna viðskipta með fisk. Hæstv. ráðherra og hæstv. forsrh. áttu varla nógu sterk orð til að lýsa þeirri ósvinnu sem það væri að láta sér detta slíkt og þvílíkt í hug. Hæstv. ráðherrar spurðu sem svo: Eigum við þá að sækja fram á tvennum vígstöðvum í senn? Eigum við að vinna með EFTA að viðræðum við EB og eigum við jafnframt að grafa undan því samkomulagi með því að taka upp tvíhliða viðræður við EB? Eitthvað í þessa veru voru þau sjónarmið sem hæstv. ráðherra lét í ljós og ég þarf ekki annað en vísa til nokkurra stórkostlegra ræðna sem hæstv. ráðherra hélt. Þar barði hann mjög á sjálfstæðismönnum, að eigin mati a.m.k., m.a. í útvarpsumræðunum um vantraustið þar sem hæstv. ráðherra bæði rangfærði tillögu sjálfstæðismanna og andmælti henni eins og hún lá fyrir sem afar óskynsamlegri.
    Hvað segir hæstv. ráðherra nú: ,,Að sjálfsögðu höldum við áfram tvíhliða viðræðum. Ég hef alltaf sagt það og segi nú: Auðvitað höldum við uppi tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið.`` ( Utanrrh.: Ég hef alltaf sagt það.) Ævinlega, mikil ósköp. Hæstv. ráðherra hefur bara alltaf sagt þetta. Var þá einhver annar sem talaði í gegnum hæstv. ráðherra þegar allt annað kom fram í ræðum hans hér í vetur? (Gripið fram í.) Og hví var það þá sem hæstv. ráðherra gat ekki hugsað sér að fallast á það sem hefði styrkt stöðu hans, svo sannarlega, a.m.k. stöðu Íslands, í viðræðum EFTA við Evrópubandalagið, að fyrir lægi umboð Alþingis, skýrt og skorinort, til þess að halda áfram þessum viðræðum á þeirri braut sem fyrir lá? Og það var ekki að ófyrirsynju sem slík tillaga var borin fram af hálfu sjálfstæðismanna, svo sannarlega ekki, því að það hefur æ ofan í æ komið fram af hálfu hv. þm. Alþb., og þó aðallega aðaltalsmanns þess flokks í utanríkismálum, að um mörg atriði í þessum viðræðum væri hreint engin samstaða í ríkisstjórninni. Því var það að gerð var sérstök samþykkt í ríkisstjórninni sem greint var frá hér á þinginu í umræðunum fyrir jól, að á ýmsum stigum þessara viðræðna yrðu einstakir þættir bornir undir atkvæði ríkisstjórnarinnar eða leitað yrði álits allrar ríkisstjórnarinnar. Það kom fram að alþýðubandalagsmenn, hæstv. ráðherrar Alþb. töldu sig þar með hafa fengið tryggingu fyrir því að aldrei yrði

gengið gegn þeirra sjónarmiðum í þessum viðræðum. Það liggur fyrir að aðaltalsmaður Alþb. í utanríkismálum er andvígur aðild Íslands að væntanlegu evrópsku efnahagssvæði. Ef þetta er rangt hjá mér þá hef ég misskilið hv. þm. allan tímann og það má þá vera einfeldni minni að kenna. Ekki er a.m.k. óskýrleika hv. þm. að kenna, svo skýrt og skorinort er hann vanur að tala um sínar skoðanir og undirbyggja þær með rökum. Það verður að viðurkennast þó svo maður geti ekki fallist á þau rök, það er önnur saga.
    Og hvers vegna skyldi hæstv. ráðherra hafa tekið þeim sinnaskiptum sem mér virðast hafa orðið? Fyrir því liggja ýmsar ástæður sem komu greinilega fram í ræðu hans því að annar eins dans í ræðuformi hefur ekki lengi verið stiginn hér í þessum ræðustól. Mér varð hugsað til þess sem mundi gerast ef hljóðfæraleikari ætti að spila fyrstu fiðlu í hljómsveit en hljómsveitarstjórarnir væru þrír. Hvernig færi fyrir þessum hljóðfæraleikara? Ég tala ekki um ef það væri ballettdansari sem ætti að lúta stjórnendum þar sem einn vildi láta stíga til vinstri og annar til hægri og sá þriðji í hring. Hæstv. ráðherra gerði þetta nefnilega allt í senn.
    Um leið og hæstv. ráðherra hlýtur að vinna verk sitt með ríkisstjórnina á bak við sig er hann núna um leið að viðurkenna það samt að ýmislegt það sem við sjálfstæðismenn höfum bent honum á frá upphafi vega er rétt. Eins og t.d. hæstv. ráðherra segir nú: Það liggur ekkert fyrir um það að við gætum ekki fengið tvíhliða viðræður upp á það að fallist yrði á okkar fyrirvara að því er varðar t.d. viðskipti með fisk. Jú, að vísu hefur það komið fram hjá embættismönnum á vegum framkvæmdastjórnarinnar að þetta sé svo sem nánar hefur verið tilgreint og
hæstv. ráðherra hefur einnig vitnað til afstöðu þeirrar stofnunar í sambandi við væntanlegar reglur um ákvarðanatöku, en svo kemur í ljós að þingið kann að vera allt annarrar skoðunar og síst skyldi það sitja á ráðherrum úr þingræðisríkjum að muna eftir því að það kann að hafa einhverja þýðingu hvaða skoðun þingið hefur þó að ólíkum reglum sé saman að jafna hjá Evrópubandalaginu og einstökum þjóðríkjum.
    En það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði, innan Evrópubandalagsins er engin ein skoðun ríkjandi. Þar eru mismunandi skoðanir á hinum ýmsu tillögum sem varða viðræður og samkomulag milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins. Og það er nákvæmlega þetta sem við sjálfstæðismenn höfum haft í huga þegar við höfum bent á hættuna sem leiðir af því þegar bæði hæstv. utanrrh., hæstv. forsrh. og nú seinast hæstv. sjútvrh. eru að lýsa því yfir æ ofan í æ að við komumst ekki lönd eða strönd með viðskiptasamninga um fisk við Evrópubandalagið vegna þess að það strandi á því að þá verðum við að vera tilbúin til þess að veita Evrópubandalaginu aðgang að okkar fiskimiðum. Og hæstv. ráðherra hefur sjálfur sagt þetta berum orðum: Svari menn þá því fyrst hvort þeir vilja hleypa löndum Evrópubandalagsins í okkar fiskveiðilögsögu. Þessa kröfu hefur hæstv. ráðherra

gert til okkar þegar við höfum lagt það til að jafnframt viðræðum EFTA og EB sé það kannað til hlítar hvaða möguleika við höfum til þess að ná sérstöku samkomulagi í sambandi við fiskveiði, í sambandi við fisksölusamninga og tollaívilnanir, þá höfum við jafnan rekið okkur á þennan vegg þegar hæstv. forsrh., hæstv. utanrrh. og nú seinast, og er þá fokið í flest skjól, hæstv. sjútvrh. hafa sagt við okkur: Þetta gengur ekki, það liggur fyrir af hálfu Evrópubandalagsins, það strandar á kröfu Evrópubandalagsins, stefnu þess um að fá í staðinn réttindi til veiða í okkar fiskveiðilögsögu.
    Og þá víkur sögunni til hæstv. sjútvrh. sem kvaddi sér hljóðs í umræðunni sl. föstudag og tilkynnti það sem manni virtist að yrði mjög alvarleg frétt að nú lægi það ljóst fyrir svo ekki yrði um villst að þessi kenning hæstv. ráðherra væri rétt því að tveir embættismenn, eða kannski þeir hafa verið þrír, sem komu hér á vegum Marins og á vegum framkvæmdastjórnar EB létu þá skoðun í ljós að það væri alveg ljóst að um þetta þýddi ekki að tala nema veittar yrðu heimildir til fiskveiða í íslenskri lögsögu. Þar með var sú saga sögð.
    Svo líður helgi og hálf vika og þá kemur hæstv. utanrrh. í ræðustól og segir: Það eru mismunandi skoðanir innan EB. Og það má vel skilja af ræðu hans sem við höfum raunar oft sagt, að stjórnmálamennirnir kunna að hafa aðra skoðun en embættismennirnir. Hæstv. ráðherra segir að nú hafi það uppgötvast að það þurfi umboð frá þinginu, það þurfi umsögn frá þinginu. Ég verð að segja það að mér þykir gott að hæstv. ráðherra hefur loksins uppgötvað það, en betra hefði verið ef hann hefði látið sér skiljast það fyrr í vetur. En hvað um það. Að því er varðar hinn mikla vettvang Evrópubandalagið, stjórnarfyrirkomulag þess og Evrópuþingið þá liggur þetta atriði fyrir. Við höfum ævinlega sagt og ég held að við höfum verið sammála um það að við gætum einmitt helst bundið vonir okkar við hið beina samband milli æðstu ráðamanna á vettvangi stjórnmálanna.
    Og svo kemur æðsti ráðamaður okkar í þessum samningaviðræðum og segir, eftir að hann er búinn að lýsa því fyrir okkur að álit manna um þessi efni sem fleiri innan Evrópubandalagsins séu svo sannarlega mismunandi, að því fari víðs fjarri að menn séu á einu máli og það sé líka ljóst að samið verði við hvert EFTA-ríkið fyrir sig, en skrifar jafnframt undir það að rétt sé að tveir embættismenn sem komu hér í síðustu viku að þeir hafi sagt allan sannleikann og haft úrslitaorðið um þetta efni. Ég verð að segja að mér þykir ekki á góðu von ef hæstv. ráðherra hefur ekki bein í nefinu til þess að taka upp þessar viðræður og ætlar kollegum sínum álíka styrkleik í skoðunum til þess að ræða um þessa hluti og taka á þeim frá pólitísku sjónarmiði. Einhvers staðar frá hafa embættismennirnir umboð sitt. Þeir koma væntanlega ekki með það heiman frá sér í skólatöskunum, þeir hljóta að hafa umboð sitt frá pólitískum yfirboðurum. Og mér þykir lítið leggjast fyrir kappann, það verð ég

að segja, að láta sér detta í hug að renna þessu niður sisvona.
    Ég treysti því, þrátt fyrir það að jörðin sé losaraleg undir þessari hæstv. ríkisstjórn, að hæstv. ráðherra taki nú fast á þessu máli því hann er þegar að komast nær raunveruleikanum í því. Því að hæstv. ráðherra er farinn að viðurkenna það rétt sem við sjálfstæðismenn sögðum í vetur að það sé sjálfsagt að halda áfram og taka upp tvíhliða viðræður um þetta efni og það meira að segja svo að hæstv. ráðherra segir nú að samningurinn sem stefnt hefur verið að milli EFTA og EB verði samningur við hvert einstakt EFTA-ríki. Þetta sagði hæstv. ráðherra. Og hvað er þá orðið um stoðirnar tvær sem menn hafa svo mjög talað um og sjálfur Delors hélt um fræga ræðu í janúar í fyrra?
    Í mars í fyrra var gefin út allfræg yfirlýsing forsætisráðherra Norðurlanda. Þar gerði forsrh. Íslands hæstv. nokkra fyrirvara sem voru næstum því eins frægiro g þessi yfirlýsing. Það var deilt um það í nokkra daga á okkar kæra landi hvort fyrirvarar hæstv. forsrh. hefðu verið raunverulegir fyrirvarar eða einhvers konar athugasemdir. Það fór eftir því hver var að útskýra þetta mál hvort það hétu fyrirvarar eða eitthvað annað. Nú er liðið rúmt ár og nú segir hæstv. utanrrh.: Menn segja að Íslendingar hafi gert heila röð af fyrirvörum. --- En þetta er misskilningur, segir hæstv. utanrrh. Þessir fyrirvarar eru engir fyrirvarar. Þeir eru bara sjálfsögð afleiðing af stefnu þeirri sem ríkir. Eitthvað á þessa leið orðaði hæstv. ráðherra það. Ég skildi hann svo að
þarna væri nánast um að ræða tilbrigði við ríkjandi stefnu hjá Evrópubandalaginu sem hægt væri að teygja í þá veru að við gætum notfært okkur hana eða hægt væri að semja um að okkar hagsmunum væri betur borgið.
    Mig gildir það einu hvort við köllum slíkt fyrirvara eða eitthvað annað, það skiptir bara engu máli. Það sem skiptir máli er hins vegar það að ríkisstjórnin viti hvert hún stefnir í þessu máli og þegar ég tala um ríkisstjórnina í þessu máli tala ég um hæstv. utanrrh. sem á að hafa rétt til þess að tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar allrar. En það gerir hann hins vegar ekki. Það gerir hann ekki. Það er ljóst af afstöðu þeirri sem Alþb. hefur hvað eftir annað látið koma fram.
    Hæstv. ráðherra segir hér í lok ræðu sinnar: Við skulum ekki vera að búa okkur til ágreiningsefni. Ég vildi óska þess að hæstv. ráðherra hefði heldur sagt: Ég hef eytt ágreiningsefnum í ríkisstjórn Íslands um þetta mál. En það sagði hann ekki. Og til þess að það sé ljóst að það er samstaða um þetta mál þá er í raun og veru alveg nauðsynlegt að við höfum það alveg skýrt hvert hæstv. ráðherra er að stefna. Ég sé ekki betur en að einungis í þessari ræðu sem hér var haldin hafi verið farið í þvílíka hringi með þetta mál að menn vita nú tæpast hvaðan á sig stendur veðrið. Og auðvitað er það svo að staða þessa máls eins og hún er nú eftir að hæstv. sjútvrh. hefur komið og bætt um betur og ber fyrir sig tvo embættismenn í því að nú sé það fullreynt að ekki þýði að tala um

viðskiptaívilnanir í sambandi við íslenskar fiskafurðir vegna þeirrar afstöðu sem þeir létu í ljós í síðustu viku, þegar þetta er orðin staða málsins og eftir nokkra daga á hæstv. forsrh. að fara að ræða við Jacques Delors og aðra aðalráðamenn Evrópubandalagsins um þessi mál og hefur fengið þetta í veganesti, ekki einungis frá stjórnarflokkunum heldur frá ráðherra úr sínum eigin flokki, þá virðist sannast sagna staða þessa hluta málsins heldur óbjörguleg.
    Ég get ekki varist því að lýsa ábyrgð á hendur hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. á því að ekki var tekið með miklu afdráttarlausari hætti á þessu máli í vetur fyrir 19. des., þegið það umboð sem líklegt var að þeim stæði til boða af hendi Alþingis og það veganesti af hendi Alþingis að taka jafnframt upp tvíhliða viðræður um þetta einstaka hagsmunamál og leggja þau spil á borðið sem við þegar höfðum en ekki að eyðileggja alla samningsstöðu okkar fyrir fram. Þegar þetta er skoðað þá þykir mér ábyrgð hæstv. ráðherra vera mikil og svo sannarlega ekki útséð um það hvort við yfir höfuð getum náð því marki að tryggja stöðu okkar Íslendinga sérstaklega í þessu máli að óbreyttri ríkisstjórn.
    Hæstv. ráðherra sagði að auðvitað stæði það ekki til að fara að taka þátt í ákvörðunum Evrópubandalagsins, að við færum ekki að vera aðilar þar að, enda væri alveg óþarfi fyrir Evrópuþingið að vera að afsala sér slíku tilboði um að EFTA-ríkin færu að taka þátt í þeim ákvörðunum. En hvað sagði hæstv. ráðherra í vetur? Í skýrslu sinni til Alþingis um stöðu viðræðnanna frá nóvember í vetur er sérstakur kafli um mikilvægi þess að EFTA-ríkin telji það forsendu að þau hafi tök á því á sama tíma að hafa áhrif á ákvarðanir. EB hefur reyndar lagt til líka að samráð sé haft við EFTA-ríkin á sama tíma og með sömu skilyrðum og þegar haft er samráð við þing Evrópubandalagsins. Jafnframt er það undirstrikað að EFTA-ríkin hafi lagt mikla áherslu á það að þau geti haft áhrif á mótun þeirra reglna sem verði innan Evrópubandalagsins og gildi um evrópska efnahagssvæðið. Jafnframt er tekið fram í því plaggi að frá því verði að ganga að reglur evrópska efnahagssvæðisins verði í öllum tilvikum þar sem þær eiga að gilda um bæði Evrópubandalagið og EFTA-löndin, jafnskilvirkar, með öðrum orðum, þær gildi jafnt og séu jafnframkvæmanlegar fyrir hvor tveggja bandalögin. Það er því ljóst að þá var þetta talið af hálfu utanrrh. fyrirvari. Ekki nóg með það, í þessu fólust aðalrökin fyrir þeim tímasetningum sem fram undan voru í viðræðum milli EFTA og Evrópubandalagsins. Aðalrökin voru þau að EFTA-ríkin mundu í gegnum þetta hafa áhrif á allt ákvörðunarferlið, svo að notað sé orð úr orðasafni utanrrn., og þetta væri aðferð til að tryggja það.
    Ég er hins vegar sammála hæstv. ráðherra um það að við hljótum, ef af þessu samkomulagi verður, að horfast í augu við það að við semjum um sameiginlega úrskurði og einhverjar sameiginlegar reglur. Það er hins vegar nýtt, a.m.k. að því er fram

kemur af hálfu hæstv. ráðherra gagnvart Alþingi, að EFTA-ríkin hafi svona miklu minni tök á því að hafa áhrif á ákvarðanir heldur en til stóð þá.
    Ég taldi nauðsynlegt, herra forseti, að vekja sérstaka athygli á því sem ég tel vera hættulegt í þessu máli, sem sé að hér liggi fyrir, en það er í raun og veru afar óljós afstaða af hálfu hæstv. ráðherra. Mér þykir hún vera óljós því að það eru komnar fram nokkuð mismunandi meiningar í þeirri stefnu sem við höfðum talið að hæstv. ráðherra hefði verið að marka sér og það er enn ljósara en áður að í hæstv. ríkisstjórn er ekki ein skoðun ráðandi um þetta efni. Við eigum eftir að fá svör við ýmsu sem varðar sameiginlegar reglur hins evrópska efnahagssvæðis. Ég minnist þess að í einni af ræðum sínum um þetta efni hér í
vetur sagði hæstv. ráðherra: Það verða engin vandræði með að sameinast um sameiginlegar reglur. Það hlýtur að ganga ef samkomulag verður um efnisatriði ýmis. En eftir því sem við fáum upplýsingar um í skjölum og gögnum um þessi efni er það einmitt á þessu sviði sem vandinn er mestur, þ.e. sá þáttur sem veit að sameiginlegum reglum og úrræðum stofnana. M.a. þarf það að vera ljóst hvort hæstv. ráðherra telur, ef af stofnun evrópsks efnahagssvæðis verður, að nauðsynlegt sé að breyta stjórnarskrá Íslands. Ef hæstv. ráðherra telur að svo sé tel ég það ábyrgðarleysi að skýra ekki frá því og vinda þá að því jafnbráðan bug og nauðsynlegt er til þess að slíkt megi takast því að það veit hver maður hvern tíma það tekur eftir íslenskum stjórnlögum að breyta stjórnarskránni.
    Þetta er e.t.v. stærsta atriðið og mér þykir það heldur fálmkennt, ég verð að segja það með því orði, ef hæstv. ráðherra gerir sér það ljóst að hann telji slíka breytingu nauðsynlega, og veit að ríkisstjórnin mun ekki
verða á einu máli um hana, hluti hennar muni spyrna við fótum og vilja hætta þessum viðræðum, en hæstv. ráðherra heldur áfram allt að einu. Því er það að mér finnst að hæstv. ráðherra þurfi að svara því hvort hann hefur raunverulega land fyrir augum á þessari siglingu eða hvort hann er í þessu viðræðuferli sínu úti á rúmsjó.