Utanríkismál
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Það hefur komið skýrt fram í þessum umræðum að hv. 2. þm. Austurl. er andvígur þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að Íslendingar taki þátt með öðrum aðildarríkjum EFTA í sameiginlegum viðræðum og samningaviðræðum við Evrópubandalagið. Það hefur líka komið fram að hv. þm. er staðfastur í þeirri stefnu sinni að hann er andvígur aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og andvígur varnarsamningnum við Bandaríkin. Hefur þingmaðurinn flutt sérstaka tillögu um að hann verði tekinn til endurskoðunar með það fyrir augum að segja honum upp.
    Það fer heldur ekkert á milli mála hver er stefna Kvennalistans samkvæmt þeim málflutningi sem við höfum hér hlýtt á. Hún er sú sama og Alþb.
    Eftir að hafa hlýtt á ræðu hv. 3. þm. Reykv. er ég kannski hins vegar í ögn meiri vafa um það hver muni vera stefna Sjálfstfl., hvort hún er sú hin sama og Kvennalistans og hv. 2. þm. Austurl. eða með einhverjum hætti afbrigði af henni. Það er ekki alveg ljóst. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þm.: Er það ekki alveg ljóst að Sjálfstfl. styður þá stefnu sem mótuð hefur verið af núv. ríkisstjórn um þátttöku Íslands í samningaviðræðum af hálfu EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið? Getur verið að það fari eitthvað á milli mála, er Sjálfstfl. kannski andvígur henni? ( RH: Af hálfu allrar ríkisstjórnarinnar?) Ég er að spyrja um stefnu Sjálfstfl. ( Gripið fr am í: Við höfum spurt um stefnu ríkisstjórnarinnar.) Já, já, ég hef svarað því, ég svara fyrir ríkisstjórnina. Nú spyr ég um stefnu Sjálfstfl. Stefna ríkisstjórnarinnar er alveg skýr. Stefna ríkisstjórnarinnar, að því er varðar samningsumboðið, var birt hér á hinu háa Alþingi, bókfærð í ríkisstjórn og flutt af forsrh. ( RH: En nú er hún önnur.) Nei, nei, hún er alveg sú hin sama, hún er óbreytt. Stefna ríkisstjórnarinnar er þessi: Samkvæmt einróma bókun í ríkisstjórn var utanrrh. falið að halda áfram
þátttöku fyrir Íslands hönd í undirbúningsviðræðum og samningaviðræðum. Og jafnframt að halda áfram tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið um sérmál Íslands. Þetta kom fram í bókun ríkisstjórnarinnar, hún er fyrirvaralaus að því er varðar ríkisstjórnina sem slíka og þetta er stefna ríkisstjórnarinnar. ( RH: Hvað var meira í bókuninni?) Bókunin var um þetta tvennt: Að halda áfram þátttöku af Íslands hálfu, bæði í undirbúnings- og samningaviðræðum á grundvelli þeirra niðurstaðna í könnunarviðræðunum sem fyrir lágu. Hverjar voru þær niðurstöður? Þær birtust í sameiginlegum niðurstöðum stjórnarnefndarinnar frá 20. okt. Þar eru t.d. tilgreindir þeir fyrirvarar sem Ísland hafði þá sett fram. Með öðrum orðum, utanrrh. hefur umboð stjórnarflokkanna til að halda áfram undirbúnings- og samningaviðræðum á grundvelli niðurstaðna könnunarviðræðna. Alveg skýrt. Og jafnframt að halda áfram tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið sem þessi ríkisstjórn hefur staðið í í tvö ár. Algjörlega skýr afstaða. Það er hins vegar

alveg jafnljóst að hv. 2. þm. Austurl. er ósammála þessari stefnu. ( HG: En þingflokkurinn?) Þingflokkurinn hefur gert einhverja ályktun, að því að mér skilst. En það er annað mál en fram kemur í bókun ríkisstjórnarinnar því þar eiga hlut að máli ráðherrar Alþb. Hún er eins og ég hef lýst. Ég hef að sjálfsögðu tekið fullt mark á þeirri bókun.
    Þess vegna fer það ekkert á milli mála, þetta er stefna ríkisstjórnarinnar. En ég er farinn að velta fyrir mér, hver er stefna Sjálfstfl.? Það er ekki nógu skýrt. Þess vegna er mín fyrsta spurning til þeirra talsmanna Sjálfstfl., er það ekki alveg ljóst og er ekki hægt að taka af tvímæli um það, styður Sjálfstfl. þá stefnu ríkisstjórnarinnar að Ísland haldi áfram viðræðum við Evrópubandalagið með hinum EFTA-ríkjunum, þ.e. þeim viðræðum sem nú er lokið, könnunar- og undirbúningsviðræðum, og samningaviðræðum sem fram undan eru? Styður Sjálfstfl. að við höldum áfram og tökum upp þær samningaviðræður sem boðaðar eru með EFTA-ríkjunum við Evrópubandalagið? ( Gripið fram í: Já.) Já, takk, gott. Þá höfum við það á hreinu. Það var nefnilega ýmislegt í máli hv. ræðumanns sem gat vakið upp efasemdir um það, en þetta þarf að vera alveg skýrt. ( Gripið fram í: Kom skýrt fram í ræðu formannsins í upphafi.) Akkúrat, og er ég ánægður með að þetta eru skýrar niðurstöður. Sjálfstfl. styður þá stefnu ríkisstjórnarinnar að taka upp á grundvelli niðurstaðna könnunar- og undirbúningsviðræðna samningaviðræður við EB. ( Forseti: Má ég biðja hv. þm. að vera ekki að kallast á hér í þingsal.) Og þá fer ekkert á milli mála um það að á bak við þá stefnu er mikill þingmeirihluti. Það er kjarni málsins.
    Þá er spurningin um það, eigum við ekki að halda áfram tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið, sem líka er stefna ríkisstjórnarinnar? Styður Sjálfstfl. ekki það líka? Ég hef gengið út frá því sem gefnu að Sjálfstfl. styðji það. ( Gripið fram í: Byrja að ræða þær.) Byrja þær, já, byrja tvíhliða. Nú er því við að bæta að kannski er ekki rétt að komast svo að orði að það eigi að byrja þær vegna þess að þær hafa staðið yfir í tvö ár. Tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið hafa staðið yfir í tvö ár á ýmsum stigum. Það hafa farið fram tvíhliða viðræður við ríkisstjórnir, ráðherra í ríkisstjórnum
Evrópubandalagsins, á vettvangi forsætisráðherra við forsætisráðherra, utanríkisráðherra við utanríkisráðherra, viðskiptaráðherra við viðskiptaráðherra, sjávarútvegsráðherra við sjávarútvegsráðherra, o.s.frv. Tvíhliða viðræður við ríkisstjórnir. Jafnframt á öðru stigi hafa farið fram tvíhliða viðræður af hálfu ríkisstjórnar Íslands við framkvæmdastjórnina í Brussel. Og það hafa farið fram tvíhliða viðræður, sérstaklega af hálfu sjávarútvegsráðherra Íslands við sjávarútvegsráðherra nokkurra Evrópubandalagsríkja. Það hafa sum sé farið fram á undanförnum árum tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið á tveimur stigum: Við einstakar ríkisstjórnir og við framkvæmdastjórnina í Brussel, sérstaklega um sérmál Íslands, þ.e. um samstarfsmál

á sviði fiskveiðimálefna og sjávarútvegs og hins vegar um tollamál. Þær viðræður fóru seinast fram af hálfu sjútvrh. við sjávarútvegsmálakommissar í framkvæmdastjórninni á sl. hausti. Þær viðræður eru í gangi, þ.e. verið er að undirbúa framhaldsfund um þau mál, sérmál Íslands, fiskveiðimálefnin, sjávarútvegsmálefnin og tolla.
    Þá höfum við þetta skýrt, það er víðtækur stuðningur við það að halda viðræðum áfram á grundvelli markaðrar stefnu, formlegum samningaviðræðum með EFTA-ríkjunum og síðan að halda áfram tvíhliða viðræðunum við Evrópubandalagið. Og það er auðvitað mikið ánægjuefni að þetta skuli vera svo.
    Þá þarf bara að leiðrétta einn misskilning og hann er þessi: Það kom fram í máli hv. 3. þm. Reykv. að sinnaskipti hefðu orðið af hálfu utanrrh., og þá væntanlega forsrh. einnig. Þessir tveir menn hefðu verið andvígir því að halda uppi tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið. Það er ekki svo. Það hefur komið skýrt fram, og það kom skýrt fram þegar ég reifaði fyrst okkar mál hér á hinu háa Alþingi, þ.e. gaf Alþingi skýrslu um stöðu þessara könnunarviðræðna, að stefna ríkisstjórnarinnar væri sú að sækja fram í þessu máli á tveimur vígstöðvum, þ.e. með EFTA-leiðinni og svo í tvíhliða viðræðum. Það kom einnig fram í bókun ríkisstjórnarinnar sem ég vitna til, þar sem stefnan er mörkuð, að halda þessu hvoru tveggja áfram.
    Um þetta er ekki ágreiningur nema af hálfu þeirra sem skilgreina afstöðu sína þannig að þeir vilji alls ekkert samflot hafa með EFTA-ríkjunum. Það er allt svo stefna Kvennalistans og hv. 2. þm. Austurl.
    Þá er eftir eitt mál sem er þetta: Er skynsamlegt að taka strax upp formlegar samningaviðræður við Evrópubandalagið um lækkun tolla á sjávarafurðir? Þetta er eina ágreiningsefnið sem eftir er milli þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur mótað og þeirrar afstöðu sem birst hefur af hálfu þingmanna Sjálfstfl. Þingmenn Sjálfstfl., ásamt reyndar þingmönnum Kvennalistans ef ég man rétt, hafa flutt tillögu um að taka upp slíkar formlegar samningaviðræður sem fyrst með það að markmiði að fá fellda niður tolla á því sem eftir er og sætir nú tollum samkvæmt bókun 6. Reyndar var tillagan, a.m.k. í sinni upphaflegu gerð, bara um það að ná sama hlutfalli og upphaflega. En alla vega, tvíhliða samningaviðræður við framkvæmdastjórnina í Brussel um það að fá tollaívilnanir, víðtækari en bókun 6 hefur veitt, á okkar sjávarútvegsútflutningi. Og það er í sambandi við þetta sem það hefur gerst að menn komu hingað í fyrri viku til að undirbúa frekari viðræður um þetta mál, tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið. Þeir komu og áttu viðræður við embættismenn hér á Íslandi. Og hver var þeirra boðskapur? Þeirra boðskapur var sá að ef Íslendingar óskuðu eftir formlegum samningaviðræðum við Evrópubandalagið um tollalækkanir á fiskafurðir yrðu þær viðræður náttúrlega að fara fram við framkvæmdastjórnina, þ.e. utanríkismáladeild og sjávarútvegsdeild, en þá hefðu þeir ekki annað

samningsumboð en að vísa til hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins sem er um það að krefjast veiðiheimilda í staðinn fyrir tollaívilnanir. Þeir áréttuðu með öðrum orðum enn það sem við höfum sagt, sögðum þá: Framkvæmdastjórnin hefur ekki umboð til annars. Þeir gengu reyndar lengra og sögðu að það væri að vísu sjálfsagt mál að gera fiskveiðisamning við Íslendinga og gæti tekið til þeirra mála sem við höfum verið að ræða við þá um, þ.e. samstarf að því er varðar fiskveiðirannsóknir, mengunarvarnir, heilbrigðiseftirlit, gæðastaðla og hvað eina. Jafnvel um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir, en það væri gagnkvæmni sem mundi engu breyta um tolla. Ef Íslendingar færu fram á tollalækkanir í samræmi við fyrirliggjandi tillögu þeirra sjálfstæðismanna þá væri aðeins unnt að gera það á þeim forsendum að við keyptum það fullu verði í krónum og aurum, með veiðiheimildum. Einhliða veiðiheimildum. Veiðiheimildir fyrir tolla.
    Þetta kom þeim sem hér stendur ekki á óvart og þetta kom ekki sjútvrh. á óvart og ekki þeirri ríkisstjórn sem hér situr á óvart. Ætti kannski ekki að koma neinum á óvart vegna þess að þetta er hin sameiginlega fiskveiðistefna Evrópubandalagsins. Og þá er sagt, og þá segja hv. sjálfstæðismenn eða talsmenn þeirra núna eins og t.d. hv. 1. þm. Reykn.: Já, en þetta er ekkert að marka, þetta eru bara embættismenn. Þetta eru bara embættismenn. Og ekki fara menn nú að gefast upp. Eða eins og hv. 3. þm. Reykv. sem spurði á þá leið, eða fullyrti á þá leið, að það væri dapurlegt að utanrrh. hefði ekki bein í nefi
til að taka upp þessar tvíhliða viðræður af því að hér væri bara um embættismenn að ræða.
    Af hverju eru menn með þennan orðaleik? Hverjir eru þessir embættismenn? Þeir eru embættismenn í framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins í Brussel. Þeir eru að framfylgja stefnu sem stjórnmálamenn, ríkisstjórnir, aðildarríkisstjórnir Evrópubandalagsins hafa mótað. Auðvitað eru þeir í umboði stjórnmálamanna, umboði ríkisstjórna. Okkar vandi er aðeins þessi: Í formlegum tvíhliða samningaviðræðum munum við fá þessi sjónarmið fram af því að við getum ekkert farið fram hjá framkvæmdastjórninni í Brussel, eins og við höfum verið að segja. Það er framkvæmdastjórnin í Brussel sem ein hefur umboð til þess að semja um lækkun á tollum. Það þýðir ekkert að tala um það við Helmut Kohl eða Francois Mitterrand. Þetta er á verksviði framkvæmdastjórnarinnar samkvæmt stjórnkerfi Evrópubandalagsins. Það liggur fyrir að þeir hafa aðeins pólitískt umboð til eins, að krefjast veiðiheimilda fyrir tolla. Og það er ekki nógu gott að segja: Já, en þetta eru bara embættismenn, vegna þess að það er út í hött. Þetta eru embættismenn sem eru að framfylgja stefnu sem stjórnvöld í EB hafa gefið þeim umboð til og þeir hafa ekki umboð til annars. Það er því hverju orði sannara sem við sögðum: Viljið þið virkilega framkalla kröfuna um veiðiheimildir í svona tvíhliða formlegum samningum? Vegna þess að ef hv. sjálfstæðismenn eru spurðir:

Hver á svo að vera afstaða ykkar í næsta leik? Ja, þá hafa menn talað ákaflega skýrt. Vinur vor, hv. 8. þm. Reykv., hefur sagt það skýrar en nokkur annar maður á Íslandi: Það skal aldrei verða. Við semjum ekki um veiðiheimildir fyrir tollaívilnanir. Hann flytur hér tillögu um að taka upp tvíhliða viðræður, samningaviðræður við EB, sem munu og hafa þegar framkallað kröfuna um veiðiheimildir, en svarar sér sjálfum fyrir hönd Sjálfstfl.: Þeirri kröfu vísum við á bug, við munum aldrei semja um þær tillögur. Og það er ekki nógu gott að segja síðan: Já, en þetta eru bara embættismenn. Það þýðir ekkert að vera með ögrunartal um það, ja, ætlar utanrrh. eða forsrh. eða ætlar þessi ríkisstjórn ekki að hafa bein í nefinu til þess? Hún hefur haft bein í nefinu til þess að vera í tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið. Hún hefur hins vegar sagt: Það er óskynsamlegt að framkalla þessa kröfu á þessum tímapunkti, vegna þess að það verður ekkert hjá því komist, verður ekkert fram hjá því gengið ef við ætlum að fara þessa leið. Og það er t.d. ekki nógu gott að segja: Utanrrh. hefur verið að segja að svona mundi fara. Nú er það ekki lengur utanrrh. sem er að segja neitt um það, það eru fulltrúar Evrópubandalagsins sem eru að segja þetta. Þetta er ekki komið frá mér. Þetta er ekki komið frá hæstv. forsrh. Þetta er ekki komið frá hæstv. sjútvrh. Þetta er stefna, stefnuumboð þeirra aðila sem við er að eiga í framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins og það er loksins komið á daginn það sem við sögðum allan tímann: Svona er þetta. (Gripið fram í.) Jú, jú, það eru margvísleg sjónarmið uppi innan Evrópubandalagsins, hv. þm., en það er algjörlega klárt í þessu efni að það er framkvæmdastjórnin sem fer með umboð til samninga um tolla og það er framkvæmdastjórnin sem hefur sett á þetta eina umboð til þess að ganga til samninga varðandi fiskveiðimál, að heimta veiðiheimildir. Um það eru ekki skiptar skoðanir. Hins vegar hefur það komið fram í tvíhliða viðræðum við einstaka sjávarútvegsráðherra, einkum og sér í lagi hinn þýska, Von Gelden, að hann ásamt nokkrum öðrum hefur sagt: Ja, við munum að sjálfsögðu ekki breyta hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins vegna þess að hún styðst við ákveðin rök og ákveðna hagsmuni innan þess, og þið munuð ekki fá því breytt, en við erum reiðubúnir að styðja ykkur til þess að reyna að koma því til leiðar að lokum að það takist um það pólitískt samkomulag að þessi stefna verði ekki látin eiga við um Ísland. Það gerist hins vegar aldrei ef þið ætlið að semja um það beint við núverandi framkvæmdastjórn. Er ekki hægt að koma þessu til skila, er þetta ekki nægilega skýrt?
    Við stöndum frammi fyrir þessari kröfu ef við ætlum að taka upp formlegar tvíhliða samningaviðræður við Evrópubandalagið og við fáum þar engu breytt. Það er alveg skýrt, alveg ljóst. Það þýðir ekkert að afneita þeim staðreyndum. Og það þýðir ekkert að afgreiða það með því að þetta séu embættismenn. Þetta eru embættismenn sem eru að verki, þeir sem við þurfum að semja við í umboði

stjórnmálamanna. Þá er næsta spurning: Eru stjórnmálamennirnir reiðubúnir að breyta þessu? Hvernig ætla þeir að fara að því? Jú, það gæti hugsanlega gerst með þeim hætti þegar svo væri komið í samningum EFTA-ríkjanna við EB, að ekkert stæði eftir á samningaborðinu af öllum þeim gríðarlega efnivið sem við erum að semja um, upp á 30 þúsund síður, nema það sérmál Íslands sem lýtur að kröfunni um frjálsan aðgang að mörkuðum fyrir fiskafurðir án þess að kaupa hann veiðiheimildum heldur á gagnkvæmisgrundvelli. Þá gæti það þýtt --- og það er bara gæti --- að mjög rækilega undirbúnar og ítrekaðar tvíhliða viðræður við hina pólitísku forráðamenn gætu komið því til leiðar að það sjónarmið sem þýski sjávarútvegsráðherrann hefur tekið undir, sem framkvæmdastjórnarmeðlimurinn Henning Christophersen hefur tekið undir, að þeir gætu komið því til leiðar að þessi sameiginlega fiskveiðistefna verði
ekki til þess að spilla öllum samningunum um evrópska efnahagssvæðið. Það gæti hugsast að menn teldu það heldur of háu verði greitt, ef þetta ágreiningsefni eitt væri eftir. Með öðrum orðum, til þess að spilla nú ekki þeim heildarsamningum um allt það efni þar sem allir hagsmunir EFTA-ríkjanna eru í húfi, og vegna þess að EFTA talar einni röddu eru þeir allir skuldbundnir til að styðja þessa kröfu okkar Íslendinga, þá gæti náðst pólitísk samstaða um það að beygja framkvæmdastjórnina eða breyta málum á þann veg að þetta skyldi að vísu ekki ná til Íslands vegna sérstöðu. En við munum aldrei ná því máli fram í viðræðum við framkvæmdastjórnina. Og það er ekki tímabært að taka það mál upp við pólitíska forráðamenn Evrópubandalagsins núna á meðan við erum
á EFTA-sporinu. Þetta eru rökin í málinu. Þetta eru engin sinnaskipti. Þetta er nákvæmlega það sem við sögðum síðasta haust.
    Hv. 3. þm. Reykv. lagði við hlustir og tók eftir því þegar ég sagði áðan: Að forminu til verða samningarnir við EFTA-ríkin við hvert og eitt ríki. Þetta er búið að liggja fyrir í meira en hálft ár. Þetta er búið að liggja fyrir í öllum vinnugögnum í sambandi við undirbúnings- og könnunarviðræðurnar að að forminu til er það svo. En það breytir engu um það að samningaviðræðurnar eru við EFTA í heild og við EFTA sem einn hóp og EFTA kemur þar fram sem einn aðili og að EFTA-formaðurinn, sem ber mesta ábyrgð á samningsumboðinu, verður þar og er skuldbundinn til þess að fylgja fram málstað EFTA sem slíks, ekki sérhagsmunum sinnar þjóðar heldur EFTA sem slíks og þeim fyrirvörum sem EFTA-ríkin hafa gert hvert og eitt. Samningarnir eru því milli Evrópubandalagsins og EFTA. En að forminu til, þegar þeir eru lagðir fyrir til staðfestingar, eru þeir við hvert og eitt EFTA-ríki. En þetta eru ekki tvíhliða samningar hvers ríkis. Það þarf að vera alveg skýrt.
    Þess vegna verð ég að segja þegar það er upplýst að í stórum dráttum, sem betur fer, er svona mikil samstaða um þetta mál á Alþingi, þá finnst mér alveg

óþarfi að vera að taka til orða á þann veg að það eigi að lýsa ábyrgð á hendur utanrrh. eða forsrh. fyrir að eyðileggja samningsstöðu Íslands fyrir fram. Hvaða rök eru á bak við svona fullyrðingar? Hefur það verið okkar verk að eyðileggja samningsstöðu Íslands fyrir fram? Eða málflutningur af því tagi að ríkisstjórnin hafi í þessu máli farið í einhverja hringi. Ég skil ekki slíkan málflutning. Ég verð bara að viðurkenna það fúslega.
    En síðan, virðulegi forseti, er það spurningin um það hvort erfiðasta málið í þessum samningum lúti að spurningunni um sameiginlegar stofnanir og stjórnun hins evrópska efnahagssvæðis. Sumir eru þeirrar skoðunar, það er rétt, að það kunni að vera erfiðasta málið. Ég hef fyrir löngu síðan lýst því mati mínu að ég telji að það verði ekki erfiðasta málið. Ég dreg enga dul á það að ég held að þeir stóru fyrirvarar sem við Íslendingar höfum lýst varðandi nýtingu náttúruauðlinda og almenn krafa EFTA-ríkjanna um fríverslun með fisk verði erfiðu málin. Vegna þess að það er misskilningur hjá þeim forráðamönnum EB og þeim talsmönnum Evrópubandalagsins sem halda það að EFTA hafi sett fram kröfu um að fá íhlutun um ákvörðunarferil EB. Við höfum aldrei sett fram þá kröfu. Það er alveg skýrt, alveg eins og við ætlumst til þess að við verðum ekki knúnir til þess, vegna þessara samninga innan EFTA, að breyta EFTA í einhverja samþjóðlega eða yfirþjóðlega stofnun og við ætlumst til þess að okkar ákvörðunarferlar, byggðir á samstöðu, verði óbreyttir áfram, þá gerum við að sjálfsögðu ekki slíkar kröfur til EB. Við erum ekki að sækja um aðild að EB og við erum ekki að gera þá kröfu að við fáum réttindi sem eingöngu eru á færi aðildarþjóða. Þetta er því á misskilningi byggt. Hitt er alveg jafnljóst að þegar við hugsum til framtíðarinnar varðandi stjórnun hins evrópska efnahagssvæðis, um nýja löggjöf sem ætti að gilda yfir allt svæðið, þá getur ekki EB ,,dikterað`` það eitt og sér. Með öðrum orðum, við erum að segja: Það er ekki hægt og verður ekki hægt innan evrópska efnahagssvæðisins að frumkvæði EB að knýja þar fram löggjöf sem sjálfkrafa mun gilda um allt evrópska efnahagssvæðið vegna þess að EFTA hefur sína eigin ákvörðunarferla. Um það verður að takast samkomulag. Það verður að fara sína leið fyrir stofnanir beggja aðila. Og til þess að leysa þetta vandamál hafa verið settar fram tillögur sem ekki er komin full samstaða um, eitt af því fáa sem ekki er komin full samstaða um, um það með hvaða hætti eigi að undirbúa slíkar ákvarðanir, að báðir aðilar hafi þar frumkvæði. Hvernig unnið verði að undirbúningnum á grundvelli sérfræðinganefnda. Og að lokum verði einn samningsvettvangur milli EFTA og EB, þ.e. ráð hins evrópska efnahagssvæðis sem er bæði á vettvangi háttsettra embættismanna og loks á ráðherrastigi. Ég vona að það sé alveg skýrt. Við virðum sjálfræði ákvörðunarferilsins innan EB og það skal verða gagnkvæmt að því er varðar EFTA.
    Og að lokum: Hefur eitthvað komið fram í þessum umræðum sem gefur til kynna að ríkisstjórnin eða ég

persónulega eða flokkur minn hafi skipt um skoðun í þessu efni og við séum farnir að boða aðild að EB? Svarið er nei. Svarið er eins skýrt og einfalt og það getur verið. Það er einfaldlega nei. Við höfum lagt okkur fram um það að móta þá stefnu sem hér er fylgt. Við fylgjum henni einhuga sem flokkur, Alþfl. Það er sú stefna sem ríkisstjórnin hefur náð
samstöðu um að fylgja fram og sem ég heyri mér til mikillar ánægju að nýtur víðtæks stuðnings hér á hinu háa Alþingi. Við ætlum að ganga til þessara samninga á grundvelli þeirrar miklu vinnu sem unnin var í könnunarviðræðunum, fullir af pólitískum vilja um að ná árangri. Ég hef það mat, hvað sem svo líður fréttaflutningi og tilraunum einstakra aðila til að spila fyrir þessum samningum, að það sé hægt að gera sér raunhæfar vonir um að ná árangri. Vandamálin sem bíði úrlausnar séu ekki stærri en það.
    Ef menn spyrja hins vegar: Ja, hvað gerist ef allt fer í hund og kött? Hvað gerist ef við náum ekki viðunandi samningsniðurstöðu? Hvað gerist ef einstök önnur ríki fara þá að tínast hvert á fætur öðru inn í EB? Hvað gerist ef Austur-Evrópuríkin, einhvern tíma á seinni hluta þessa áratugar, væru búin að skapa forsendu fyrir því að þau færu inn í EB? Hvað gerist ef búið væri að breyta EB eða evrópska efnahagssvæðinu yfir í viðskipta- og efnahagssamtök Evrópu gervallrar, þar með talið ekki einasta EFTA-ríkjanna og þar með allra Norðurlanda? Hvað gerist með öðrum orðum ef Evrópa væri komin inn í eina slíka viðskipta- og efnahagsheild, kannski að undanskilinni Albaníu? Ekki kann ég að svara því, spá fyrir um óorðna hluti. Ekki er ég spámaður. ( HG: Ekki hér?) Nei, nei, nei, nei og enginn er spámaður í sínu föðurlandi, allra síst þar. En það getur hver og einn spurt og það getur hver og einn leitt að því líkur hvað muni gerast.
    Ég held að það sé hins vegar alveg óþarfi að eyða löngum tíma í að ræða þá fræðilegu spurningu hvernig Íslendingar muni bregðast við ef þróun mála í Evrópu verður svona en ekki á hinn veginn. Við höfum mótað okkur þessa stefnu, við ætlum að fara þessa leið. Við byrjum formlega samninga núna eftir nokkrar vikur. Við höfum vel skilgreinda samningsstöðu. Menn geta vel metið það svo að samningsstaða okkar sé sterk eða veik. Menn geta haft hvaða skoðun á því sem þeir vilja. En við vitum eftir hverju við slægjumst, við vitum hvaða markmiðum við ætlum að ná. Og við höfum lagt okkur fram um það til hins ýtrasta að tryggja íslenska hagsmuni í þeim samningum. Ég held að það sé hafið yfir allan vafa núna að sú leið sem við höfum markað og undirbúið er skynsamleg og rétt.