Ný samvinnulög
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. sem með mér flytur hv. þm. Jón Kristjánsson. Till. hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hlutast til um að ljúka undirbúningi frv. um ný samvinnulög á komandi sumri. Frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi á fyrstu dögum haustþings.``
    Við þurfum að fara rúm 100 ár aftur í tímann til þess að finna upphaf samvinnustarfs á Íslandi. Þá uppgötvuðu menn að þeir gátu beitt samtakamætti sínum sér og sínum hagsmunum til framdráttar. Ég ætla ekki að rekja þá sögu til þessa dags, en ég ætla að fara örfáum orðum um það hvernig samvinnustarf á Íslandi stendur nú, rúmum 100 árum seinna.
    Það hefur ekki farið hjá því að samvinnufélögin hafa orðið fyrir barðinu á erfiðum starfsskilyrðum undirstöðuatvinnugreina nú um nokkurt skeið. Það hefur að vísu lagast verulega á síðasta ári eins og ég kem að hér á eftir. Það á kannski fyrst og fremst við um hin sameiginlegu samtök samvinnufélaga, Samband ísl. samvinnufélaga, sem nú á í verulegum fjárhagserfiðleikum og menn verða að takast á við á næstu mánuðum. Hagur grunnfélaganna, kaupfélaganna, hefur hins vegar vænkast mjög á síðasta ári og stefnir allt í það að þau muni komast á góðan rekspöl á því ári sem nú er að líða.
    Ég ætla að nota tækifærið hér til að leiðrétta þrálátan misskilning sem hefur náð meira að segja alla leið upp í umræðu hér í hv. Alþingi þar sem menn virðast ekki gera nokkurn greinarmun á Sambandi ísl. samvinnufélaga, sem er, eins og ég sagði áðan, heildarsamtök samvinnufélaganna, og grunneiningunum, kaupfélögunum, sem í raun eru sjálfstætt starfandi félög en ekki deildir í
Sambandinu eins og manni heyrist stundum á umræðunni og meira að segja hér á Alþingi.
    En hvað er það sem skilur samvinnufélögin frá öðrum rekstri? Það er kannski það öðru fremur að allir félagar hafa eitt atkvæði. Það er ekki fjármagnið sem ræður. Þessi hugmyndafræði fellur mjög vel að skoðunum stórs hóps í okkar þjóðfélagi auk þess sem form sem þetta hentar mjög vel fyrir fjölmargar greinar í atvinnulífinu, ekki síst í hvers konar þjónustu. Það hentar miklu fleirum en þeim sem hafa skipað sér í raðir Sambands ísl. samvinnufélaga. Nú skyldi maður ætla að lög um eins víðtækan rekstur og samvinnureksturinn séu í stöðugri endurnýjun. En hver er reyndin? Núverandi lög eru að stofni til nánast óbreytt síðan 1937. Á síðustu árum hefur undirbúningur að nýjum samvinnulögum oftar en einu sinni farið af stað en aldrei náð það langt að hér væri lagt fram á Alþingi heildstætt frv. um þessi mál.
    Það sem öðru fremur rekur á eftir umræðu um ný samvinnulög nú er sú mikla umræða sem er í þjóðfélaginu núna um uppbyggingu á eigin fé eða hvernig eigið fé fyrirtækja er byggt upp. Það sem gerir það að verkum að þetta er í umræðunni núna frekar en kannski oft áður eru þær breytingar sem urðu þegar fyrirtæki hættu að eiga aðgang að

fjármagni með neikvæðum vöxtum og urðu að fara að greiða, ekki bara verðtryggingu heldur háa vexti til viðbótar. Það var þannig um langt árabil að fyrirtæki gátu byggt upp eigið fé með því einu að taka fé að láni sem ekki var borgað til baka nema að litlum hluta.
    Það er mjög mikið í umræðunni núna, og ég held að þróunin muni verða sú, að fyrirtæki muni í vaxandi mæli leita eftir áhættufé með útgáfu hlutabréfa, þ.e. ná fjármagninu beint frá fjármagnseigendunum án milligöngu bankakerfisins. Þetta tel ég að sé mjög af hinu góða. En þá hljótum við að spyrja: Hvernig standa samvinnulögin gagnvart þessum nýju sjónarmiðum? Þau standa þannig að þar er sú eina leið sem til er til þess að byggja upp eigið fé frá eigendunum eða í gegnum stofnsjóðina. Það kerfi er að mörgu leyti stirt í fjölþættum rekstri og þarfnast verulegrar endurskoðunar.
    Á síðustu áratugum hafa lög um hlutafélög verið endurskoðuð, bæði í heild og einnig einstakir þættir. Um þetta hefur verið samstaða á Alþingi og sömuleiðis gagnvart þeim atriðum í skattalögum sem snúa að því að auðvelda hlutafélögum að ná sér í eigið fé með útgáfu hlutabréfa. Um þetta hefur, eins og ég sagði áður, verið mikil samstaða á þingi og við kunnum þess dæmi frá þessum vetri að bæði hafa verið gerðar breytingar á skattalögum í þessa veru og sömuleiðis hafa breytingar á lögum um hlutafélög fengið fljúgandi byr í gegnum þingsali. Ég hlýt því að treysta því að nú þegar hér er lagt til að unnið verði markvisst að því að endurskoða samvinnulögin með það að markmiði að heildstætt frv. verði lagt fyrir á næsta haustþingi og þá í mínum huga með það fyrir augum að búið verði að samþykkja ný samvinnulög fyrir næstu áramót, þá hlýt ég að treysta því að þetta fái sama byr, sama hljómgrunn á Alþingi og sú umfjöllun sem verið hefur um hlutafélagsformið. Enda hljótum við að líta þannig á að það sé jákvætt fyrir heilbrigt atvinnulíf á Íslandi að þeir sem í atvinnurekstrinum standi hafi á hverjum tíma völ á margs konar formi fyrir sinn atvinnurekstur.
    Hlutafélagsformið hefur reyndar verið nokkuð í umræðunni undanfarið og að ósekju hafa menn tengt saman auðsöfnun á fárra hendur og það að í þeim
tilfellum hafa menn notast við hlutafélög. Þetta er ekki rétt og á ekki að gera og er að mínu mati mjög slæmt að menn hafa um langan aldur ruglað mjög saman annars vegar þeim formum sem menn hafa til að ná sínum markmiðum og hins vegar þeim hugsjónum eða markmiðum sem standa að baki rekstrinum. En ég ítreka það sem ég sagði áðan að það hlýtur að vera öllum aðilum til hagsbóta að hér verði sem fjölbreyttust form fyrir atvinnulífið á hverjum tíma, sama hvar í flokki menn standa og sama hvaða hugsjónir menn aðhyllast varðandi uppbyggingu atvinnulífs.
    Þessi mál komu nokkuð til umræðu á Alþingi fyrr í vetur í tengslum við skýrslu um kaup Landsbankans á Samvinnubankanum. Ég ætla að leyfa mér að vitna í ummæli hæstv. viðskrh. þar um. Hann sagði að nú

um sinn hefðu verið uppi hugmyndir í viðskrn. um breytingar á samvinnulögunum í þá veru að tekin yrðu upp stofnbréf sem samvinnufélög gætu gefið út og gegndu sama hlutverki og hlutabréf í hlutafélögum. Í þeirri umræðu sagði hæstv. viðskrh. líka að þetta hefði ekki fengið mikinn hljómgrunn meðal forustumanna íslenskra samvinnufélaga. Ég hygg að það sé rétt að einstakir forustumenn hafi ekki sýnt þessu áhuga en hins vegar veit ég það að stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga hefur síðan unnið að þessu máli og lagt tillögur inn til viðskrh. einmitt í þá veru sem við höfum rætt um og við ræðumaður hér og hæstv. viðskrh. erum sammála um, að því er ég tel, að þurfi að gera.
    Ég ætla líka að leyfa mér að vitna í ummæli hv. 1. þm. Suðurl., formanns Sjálfstfl., í þeim sömu umræðum þar sem hann sagði að það væri sorglegt að samvinnumenn vildu ekki endurskoðun á sínum lögum en það væri kannski skiljanlegt í ljósi þess að menn gætu alltaf hlaupið til ríkisins þegar á bjátaði. Þetta er alrangt og sú umræða að hér þurfi að verða breyting á er orðin mjög útbreidd meðal samvinnumanna og hefur orðið æ útbreiddari síðustu mánuði.
    En hver er þá hinn æskilegi framgangur þessa máls á næstunni? Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég hlýt að líta þannig á að það sé vilji Alþingis að þessi tillaga fái afgreiðslu og þessi vinna verði hafin að fullum krafti. Ég ætla í því sambandi að ítreka það að samhliða því að gengið verði endanlega frá frv. að samvinnulögum verði að ganga í þá vinnu að gera einnig drög að reglugerð um stofnbréf vegna þess að þar eru margir þættir sem verður að binda og sú breyting ein á samvinnulögunum að heimila samvinnufélögunum útgáfu stofnbréfa án þess að nánar sé á um það kveðið í reglugerð segir okkur lítið og er okkur haldlítil.
    Ég vil einnig ítreka það sem reyndar hefur komið fram fyrr í ræðu minni að það verður líka að liggja ljóst fyrir samhliða þessari vinnu að það sé viji fyrir því að ganga þannig frá skattalögum að stofnbréf samvinnufélaga verði jafnrétthá hlutabréfum hlutafélaga.
    Að lokinni þessari umræðu leyfi ég mér að óska eftir því að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. allshn. til frekari vinnu.