Ný samvinnulög
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að fagna þessari tillögu og lýsa mínum stuðningi við málefnið og vænti að ég geti talað þar fyrir hönd míns flokks alls. Því hefur æðioft verið hreyft á þingi og í langa tíð og það hef ég gert nokkuð oft að nauðsyn bæri til að endurskoða samvinnufélagalöggjöfina. Sérstaklega var þetta til umræðu í sambandi við endurskoðun hlutafélagalaga sem sett voru 1978. Því miður var ekki aðhafst þá en betra er seint en aldrei og þess vegna fagna ég því að þessi þátill. er fram komin.
    Það er auðvitað ljóst að ef stofnbréf verða í samvinnufélögum með svipuðum hætti og hlutabréf eru hjá hlutafélögum hvað varðar atkvæðamagn og atkvæðisrétt getur það ekki breytt því að sömu reglur munu gilda um skattlagningu stofnbréfa eins og hlutabréfa hygg ég en hv. þm. gat sérstaklega um það atriði. Mér finnst það liggja í hlutarins eðli að sömu skattareglur eigi að gilda um raunar öll félagsform.
    Hitt er líka rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði að það er nauðsynlegt að raunverulegir valkostir, held ég að hann hafi orðað það, væru á milli fjárfestingar í hlutafélögum og öðru félagsformi og þá einmitt samvinnufélögum. Auðvitað eru almenningshlutafélög og samvinnufélög af sama meiði og það er mjög athyglisvert þegar menn fara yfir þingsöguna fyrr á öldinni að þá er gjarnan rætt í sama mund um hlutafélög og samvinnufélög og það er nú enn gert og er af hinu góða.
    Ég hefði gjarnan viljað að þessu starfi hefði verið hraðað meira, jafnvel þannig að frv. í einhverri mynd hefði getað orðið til t.d. á miðju sumri og það yrði þá kynnt þannig að Alþingi gæti haft snör vinnubrögð þegar hitt frv. kæmi síðan fram við þingsetningu.
    Ég endurtek að ég og minn flokkur styðjum þetta mál og ég vil sérstaklega geta þess af því tilefni að minnst var hér á hv. 14. þm. Reykv. Guðmund H.
Garðarsson að hann flutti fyrir nokkrum árum tillögu eða frv. um samvinnufélög og hvort sem í því stóð það sama að öllu leyti eða ekki var það þó viðleitni til að fá lögum breytt til styrktar félögunum en ekki til að veikja þau.