Þjóðleikhús Íslendinga
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Flm. (Eiður Guðnason):
    Virðulegi forseti. Hér er flutt í allri hógværð þáltill. um framkvæmdir við Þjóðleikhús Íslendinga. Till. hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að hætt skuli við fyrirhugaðar stórbreytingar á svölum og sal Þjóðleikhússins sem fái að halda sér sem allra næst þeim hætti sem arkitekt hússins hugsaði sér.
    Alþingi felur menntamálaráðherra í samráði við fjárveitinganefnd Alþingis að sjá til þess að á næstu tveimur til þremur árum fari fram nauðsynlegt viðhald og viðgerðir á Þjóðleikhúsinu og aðgengi fyrir fatlaða verði bætt. Kappkostað verði að þessar aðgerðir hafi sem minnsta röskun í för með sér á starfsemi leikhússins.``
    Ég vil geta þess strax, virðulegi forseti, að um leið og sagt hafði verið frá þessari þáltill., að hún yrði flutt hér á hinu háa Alþingi, varð ég var við óskaplega sterk viðbrögð almennings úr mörgum stéttum og mörgum landshlutum gegn fyrirhuguðum breytingum á Þjóðleikhúsinu og til stuðnings þessari tillögu. Það er alveg ljóst að þær breytingar sem nú er rætt um að gera á Þjóðleikhúsinu mæta mjög mikilli andstöðu. Það er líka ljóst að viðhald þessa húss hefur verið vanrækt um langt árabil. Þar þarf mjög margt að endurbæta og lagfæra sem úr sér er gengið. Hins vegar ber svo að hafa það í huga að alveg eins og skólahúsnæði er ekki skóli þá er það húsrými sem leikhúsið er ekki leikhús. Leikhúsið er listin og skólinn er skólastarfið. Á það hefur verið bent að eftir því sem Borgarleikhúsinu miðaði fram og það var nær því að verða tilbúið þá elnaði Þjóðleikhúsinu sóttin og allt varð þar miklu verra.
    Tilgangur þessarar tillögu er að koma í veg fyrir að innan í Þjóðleikhúsinu verði byggt nýtt hús. Leikarahópur í Þjóðleikhúsinu, sem hefur mikinn áhuga á því að þessar breytingar nái fram að ganga, bauð hv. þm. í heimsókn í Þjóðleikhúsið sl. mánudagskvöld klukkan 18.30. Þar var staðfest mjög rækilega það sem ég hafði óttast og ýmsir fleiri, að ætlunin er að byggja algjörlega nýtt hús innan í hinu gamla Þjóðleikhúsi. Nær hefði verið, að mínu mati, að byrja á ytra byrðinu, lagfæra þær augljósu steypuskemmdir sem blasa við augum á Þjóðleikhúsinu sjálfu heldur en að gera þetta. Og ég spyr, vegna þess að við þeirri spurningu hefur ekki fengist neitt svar, hver var það sem bað um að byggt yrði nýtt leikhús, nýtt hús innan í gamla Þjóðleikhúsinu? Því hefur enginn viljað svara. Í rauninni hafa tillögurnar, bókin fræga, gormabókin, þar sem þessar tillögur eru tíundaðar, hún hefur ekki verið í allra höndum og hún hefur ekki verið fáanleg. Þetta allt hefur í rauninni farið mjög leynt, verið lítið kynnt og illa kynnt og er nánast ókynnt fyrir hv. þm., leyfi ég mér að fullyrða, þótt þeir sem sæti eiga í fjvn. hafi kannski haft eitthvað betri aðstöðu en ýmsir aðrir til að kynna sér málið.
    Nú segja menn sjálfsagt, og það hefur hæstv. menntmrh. raunar sagt, að hér séu menn nokkuð seint

á ferð með gagnrýni. Vel má það rétt vera að það sé nokkuð seint, en ekki of seint. Ég hygg að það sé svo um fleiri þingmenn en þann sem þetta mælir að menn héldu sig einfaldlega vera að veita fé til lagfæringa og endurbóta á leikhúsinu en ekki, og ég undirstrika ekki, til þess að byggja nýtt hús inni í gamla húsinu. Hver bað um það? Við því hafa ekki fengist svör.
    Um þetta mál og framgang þess allan hefur í rauninni verið heldur lítið rætt og ritað. Það er ekki fyrr en á síðustu vikum sem það almennt rennur upp fyrir fólki í landinu hvað það er sem á að fara að gera. Það á að rústa þessa byggingu að innanverðu og byggja þar algjörlega nýtt hús. Það á að blanda saman rekstri hússins og viðgerðum, sýnist mér, með ýmsum hætti. Og það er afar óheppilegt, að ekki sé meira sagt.
    Síðan þessi till. var lögð fram hefur það gerst að 122 íslenskir arkitektar hafa komið til forseta Sþ. og afhent forseta ávarp til alþingismanna. Það ávarp hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þjóðleikhúsið er einn hinna stóru varða í byggingarsögu þjóðarinnar. Almenningur hefur í áranna rás notið þar mikilfenglegrar leiklistar í fallegu og virðulegu umhverfi, leiklistarsýninga hinna ágætustu listamanna, íslenskra og erlendra. Húsið nýtur vinsælda alls þorra landsmanna sem fyllt hafa sal þess árum saman þegar leiklistin hefur blómstrað og stór afrek verið unnin í listinni. Höfundur hússins vann þetta verk sitt af mikilli alúð og valdi þá gerð salarins sem notast hefur með þeim ágætum og vinsældum sem kunn eru.
    Það er hlutverk íslenskra arkitekta að standa vörð um íslenska byggingarlist og einkum minnismerkin í byggingarsögu þjóðarinnar. Sérstaklega ber okkur að halda á loft minningunni um afrek Guðjóns Samúelssonar og annarra frumherja í arkitektastétt.
    Við undirritaðir arkitektar viljum með þessum hætti skora á alþingismenn að hlutast til um að varðveita Þjóðleikhúsið með því að samþykkja framkomna þingsályktunartillögu um varðveislu sýningarsalar og forsala og jafnframt leggja því lið að viðgerðum og endurbótum verði hraðað svo sem unnt er.``
    Það sem auðvitað vekur sérstaka athygli nú í þessu sambandi er að undir þetta ritar m.a. húsameistari ríkisins. En hann og hans embætti hafa að yfirvaldanna stranga boði, liggur mér við að segja, unnið að þessum breytingartillögum og því að gera tillögur um nýtt hús inni í gamla húsinu. Það finnst mér segja mikla sögu.
    Ég sagði áðan að ekki hefði farið fram mjög mikil umræða um þetta. Þó er skylt að geta nokkurra blaðagreina, t.d. í Morgunblaðinu fimmtudaginn 22. mars eftir Skúla H. Norðdahl arkitekt þar sem er opið bréf til Svavars Gestssonar menntmrh. Þar segir m.a. --- ég gæti vitnað til margs hér vegna þess að hér er margt mjög athyglisvert --- en í niðurstöðum Skúla Norðdahls arkitekts segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Opin, hlutlæg umræða var engin. T.d. var húsfriðunarnefnd tekin tvisvar á beinið til að fá hana til að breyta áliti sínu. Leikarar voru fældir frá að

ræða málin með ógnun um að ekkert yrði gert ef ekki yrði farið að tillögum nefndarinnar. Fundurinn í Þjóðleikhúsinu var staðfesting á því.
    Skýrsla byggingarnefndar ber ekki vott um úttektir og kannanir til að leita leiða til úrbóta, skýrslan er forsögn fyrir hönnuði til að endurhanna húsið frá grunni. Þar sem í skýrslunni eru ræddar tillögur um breytingar gestarýmis og áhorfendasalar kemur fram að allar tillögurnar gera salinn lakari en hann er í dag og framkvæmdir dýrari. Eftir stendur fullyrðing ein um betri sjónlínur og meiri nálægð áhorfenda við leikendur. Þetta er hvorki rökstutt né sannanlegt.
    Í fjórða lagi: Með tillögu sinni hefur nefndin afhjúpað algjört skilningsleysi sitt á grundvelli og eðli byggingarlistar og takmarkalaust virðingarleysi fyrir byggingarsögu þjóðarinnar.``
    Og síðan segir hér: ,,Að lokum skírskota ég til skynsemi þinnar, Svavar, að þú endurskoðir gerðir nefndarinnar og ákvörðun um breytingar á Þjóðleikhúsinu. Ég skírskota til ábyrgðar þinnar sem æðsta gæslumanns íslenskra menningarverðmæta, m.a. verndara íslenskrar byggingarsögu. Og mundu það, Svavar, að endurreisn Þjóðleikhússins byggist fyrst og fremst á góðri, áhugaverðri leiklist en ekki skilningslausu brölti við breytingar á húsinu breytinganna vegna.``
    Síðan kemur hér eftirskrift: ,,Eru til fullgerðir uppdrættir af Þjóðleikhúsinu breyttu? Hafa þeir verið lagðir fyrir byggingarnefnd og samþykktir? Í grein 3.4.1. í byggingarreglugerð segir: ,,Óheimilt er að hefja byggingarframkvæmdir, þar með talinn grunngröft eða breytingar á húsi, nema leyfi byggingarnefndar sé fyrir hendi``.``
    Í Morgunblaðinu 26. jan. skrifaði annar arkitekt, Hannes Kr. Davíðsson. Vissulega væri ástæða til að rekja grein hans í nokkuð ítarlegu máli en ég mun þó aðeins gera það í fáum orðum. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Húsafriðunarnefnd hefur ekki misst átta í málinu og ber að þakka það. Hún mátti því einnig þola snuprur ráðherra á fundinum. Þótt byggingarnefnd hússins hafi tengt þetta mál eingöngu ákvörðun menntamálaráðherra þá hlýtur hin siðferðilega ábyrgð á meðferð Þjóðleikhússins að hvíla á ríkisstjórninni allri. Í raun vekur það furðu að einn maður skuli ætla að axla þá ábyrgð á jafnveikum grunni.``
    Síðan segir hér, og á þeim orðum lýkur þessari ágætu grein: ,,Það er ekki hagur Þjóðleikhússins né íslenskrar menningar að rugla þessum sal sem við nú höfum, það er bara misskilningur og umkomuleysi andans.``
    Ég minni líka á grein í Morgunblaðinu 12. janúar eftir Hörð Bjarnason, fyrrv. húsameistara ríkisins. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Breytingartillögur byggingarnefndar þeirrar sem menntamálaráðherra hefur nú síðast skipað sér til ráðuneytis um ,,endurreisn leikhússbyggingarinnar``, einkum á áhorfendasal, gangarými og anddyri, virðast með öllu ónauðsynlegar og óraunhæfar.``
    Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að hvorki

hæstv. menntmrh., leikarar Þjóðleikhússins né svokölluð byggingarnefnd hafi leyfi til þess að gera það sem nú stendur til að gera. Einn af þeim fjölmörgu sem höfðu samband við mig þegar þessi tillaga var komin fram sagði: ,,Ef á að byggja nýtt hús innan í þessu húsi þá er það svona eins og að mála ofan í vatnslitamynd eftir Ásgrím.`` Það er óneitanlega töluvert til í því.
    Ég held því hiklaust fram að við höfum ekki leyfi til að rústa Þjóðleikhúsið að innan og gera þar nýtt hús. Við höfum ekki leyfi til þess gagnvart þeim sem á eftir koma. Þó tískan í leikhúsi kalli á einhvern veginn öðruvísi svið og öðruvísi umbúnað en nú er eigum við ekki að hlaupa eftir því.
    Var það ekki Sir Laurence Olivier sem sagði t.d. um hringsviðið, eða hið opna svið, í viðtali vegna þjóðleikhússins í London: ,,Now we see the open stage as a great step forward. It is and it isn't.`` Sem sagt, nú sjáum við opna sviðið sem stórt skref fram á við, það er það og það er það ekki. Og einhvers staðar minnti hann líka á það að leikarinn hefur ekki nema eina framhlið til þess að sýna þeim sem á hann horfa. Það skiptir líka máli í þessari umræðu allri.
    Það fólk sem hefur haft samband við mig út af þessu máli, sem er býsna margt, telur sig nefnilega eigendur þessa húss. Hvorki menntmrh., byggingarnefnd né leikarar Þjóðleikhússins eiga þetta hús. Þeir eiga jafnmikið í því og hver einasti Íslendingur. Og það hefur hver einasti Íslendingur rétt til þess að hafa skoðun á því sem þarna á að fara að gera, láta hana í ljós og það á að hlusta á hana. Við eigum öll hlut í þessu húsi og við eigum mörg minningar úr þessu húsi og við erum mörg sem viljum varðveita þetta hús.
    Virðulegi forseti. Ég skal fara að ljúka máli mínu. Hér hefur lítill hópur farið fram með sérskoðanir sem mæta mikilli andstöðu. Það hefur verið gert í skjóli ráðherra sem hér fer villur vegar, að mínum dómi, að ekki sé sterkar að orði kveðið. Hér hefur upplýsingum verið haldið frá almenningi. Hér hefur sagan aldrei öll verið sögð, hér hafa aldrei allar tölur verið nefndar heldur hafa hálfsannleikur og laumuspil ráðið ferðinni. Spurningin sem menn þurfa að svara hér á Alþingi gagnvart þessari tillögu er sú: Vilja menn byggja nýtt hús innan í Þjóðleikhúsinu? Ég vil það ekki og því flyt ég þessa tillögu. Ég hygg að svo sé um mjög marga fleiri.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að að þessari umræðu lokinni verði tillögunni vísað til hv. allshn. og síðari umræðu.