Þjóðleikhús Íslendinga
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. flm. þessa máls kærlega. Þetta er ákveðin viðurkenning, finnst mér, á því sem ég hef haldið fram. Ég þakka liðveisluna, það veitir ekki af henni. Við þurfum á öllum vopnfærum mönnum að halda í þessu sambandi. Ég tek undir kjarnann í málflutningi hv. síðasta ræðumanns. Þjóðleikhús er ekki hús, ekki ein bygging í mínum huga heldur er það leiklist sem þjóðin nýtur öll til jafns. Í Þjóðleikhúsið í dag á þjóðin ekki öll jafnan aðgang, þjóðin á ekki jafnan aðgang að leika þar, þjóðin á ekki jafnan aðgang að sækja leiksýningar eða njóta annarrar sviðslistar vegna þess að Reykvíkingar eru þar betur settir en aðrir. Það sem tengir húsið mest við þjóðina er að þjóðin borgar öll kostnaðinn af húsinu. Hún á húsið og þá starfsemi sem þar fer fram.
    Ég vil taka undir þau sjónarmið að þjóðleikhús eigi að vera styrkur eða peningum eigi að veita til leikhópa hvort sem það er um landið eða hér í Reykjavíkurborg. Við eigum núna mjög öflugt og glæsilegt leikhús hér í borginni sem á að þjóna og getur þjónað sviðslistinni mjög vel. Ég sé ekki þörfina fyrir annað sambærilegt hús. Þess vegna finnst mér að ekki eigi að breyta Þjóðleikhúsinu. Þjóðleikhúsið, eða þeir sem því ráða og stjórna, eiga ekki að keppast við að vera jafnstórir og Borgarleikhúsið vegna þess að það er nóg að hafa eitt glæsilegt leikhús í borginni. Við skulum halda Þjóðleikhúsinu eins og það er, ekki bara frá sjónarmiði leiklistar og arkitektúrs heldur líka fyrir borgarana. Við skulum nota Þjóðleikhúsið eins og tíðkast um mörg önnur leikhús í öðrum löndum. Þar geta allir fengið inni, fleiri leikhópar en fastráðnir starfsmenn, að það verði opið fyrir þá leikhópa sem uppfylla þau faglegu skilyrði að geta flutt frambærileg sviðsverk. Við skulum leigja þeim hópum húsið á hóflegu verði. Þannig erum við farnir að nálgast það hlutverk að Þjóðleikhúsið sé þjóðleikhús í öðrum skilningi en að
þjóðin borgi brúsann. Þá eiga fleiri leikarar og fleiri listamenn aðgang að húsinu. Þannig tíðkast í hinum virðulegustu leikhúsum í öðrum löndum sem ég veit að hv. áheyrendur, hvort sem eru á þingpöllum eða í sal, vita mætavel um.
    Þær breytingar sem núna eru teiknaðar og komnar á lokastig að öðru leyti en ekki hefur fengist samþykki til að hrinda í framkvæmd eru því miður ekki einu breytingarnar sem eru fyrirhugaðar á þessum stað. Byggingarnefnd hússins hefur lagt fram áætlun sem er engin smásmíði. Þar er gert ráð fyrir að byggja hús á stærð við Borgarleikhúsið utan á Þjóðleikhúsinu, hvorki meira né minna, og með öllum þeim búnaði sem í Borgarleikhúsinu er. Með leyfi forseta vil ég lesa aðeins úr þessari byggingarskýrslu: ,,Við hliðina á sjálfu Þjóðleikhúsinu er gert ráð fyrir smíðaverkstæði, geymslum, skrifstofu, litlu sviði, vörulyftu, búningsherbergi, vörumóttöku, aðstöðu fyrir leikara, mötuneyti, saumastofu, geymslum, leiktjaldamálun, æfingasviði, skrifstofum og skálum.`` Og til þess að hrinda þessari framtíðarsýn í

framkvæmd bendir byggingarnefndin á það í skýrslu sinni að þegar í stað skuli hefjast handa við að kaupa lóðir í næsta nágrenni við húsið og það strax á meðan eignir þar eru í tiltölulega lágu verði. Það eru húseignirnar á þeim skika sem er austan við Þjóðleikhúsið, á milli Hverfisgötu og Lindargötu og að Smiðjustíg. Mér telst til að það séu átta lóðir og sjö fasteignir sem þurfi að kaupa. Og ekki nóg með það, heldur gerir byggingarnefndin í bók sinni og áætlun ráð fyrir að setja upp sérstakt Indriðasvið handan við Hverfisgötuna. Þar þarf líka að kaupa upp fjölmargar húseignir, m.a. Laugaveg 5, svo hægt sé að gera tröppur út á Laugaveg.
    Þetta er sú áætlun sem byggingarnefnd Þjóðleikhússins hefur gefið út í grænni bók. Menn geta komið hér upp hver á fætur öðrum og þvegið hendur sínar af þessari áætlun en hún er til og þessa bók á ég og hef lesið. Það er þetta sem ég óttast, að þegar kappsamir menn taka til óspilltra málanna þá sjáum við ekki fyrir endann á þeim framkvæmdum. Þessar breytingar eru aðeins Trójuhestur inn í miklu stærri og viðameiri breytingar sem er alveg vonlaust að þjóðin ráði við. Í fyrsta lagi af því við erum ekki nema 250 þúsund, við erum ekki 25 milljónir til þess að borga þetta verk. Svona framtíðardraumar verða að bíða. Við erum með fullboðlegt Borgarleikhús og það hlýtur að duga þessari litlu þjóð. Við megum heldur ekki misþyrma arkitektúr á þennan hátt. Hérna handan við götuna erum við með hróplegt stílbrot þar sem húsið sem Gallerí Borg er í er á milli tveggja gamalla húsa. Aðeins lengra erum við með annað stílbrot þar sem búið er að byggja utan á gamalt hús Landsbankans og aðeins utar í Austurstræti er þriðja stílbrotið þar sem búið er að eyðileggja gamalt og fallegt hús Útvegsbankans eða Íslandsbanka.
    Virðulegi forseti. Ég tek undir þetta mál af heilum hug og ég vænti þess að þingheimur haldi vöku sinni í þessu máli áður en unninn verður sá skaði og lagt af stað út í einhver ævintýri sem við sjáum ekki fyrir endann á.