Þjóðleikhús Íslendinga
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni langar mig að vitna í skýrslu byggingarnefndar Þjóðleikhússins í framhaldi af því sem ég sagði áðan að þessar aðgerðir, þessi viðgerð og breytingar væru aðeins Trójuhestur stærri og meiri framkvæmda. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Til þess að ná þeim framtíðaráformum sem hér eru sett fram er nauðsynlegt að ríkissjóður kaupi lóðir og fasteignir austan við Þjóðleikhúsið. Það er brýnt að falast verði eftir kaupunum sem fyrst meðan þar eru enn hlutfallslega lítil verðmæti í mannvirkjum.`` Hér stendur ,,sem fyrst``, ekki seinna, eftir fimm ár, tíu ár, 50 ár eða 100 ár, heldur sem fyrst.
    Í framhaldi af því, hæstv. forseti, vil ég leyfa mér að halda áfram að vitna í þessa skýrslu. Þar stendur: ,,Af framansögðu ætti að vera ljóst mikilvægi þess að skilgreina verkefnið í heild, greina þarfir Þjóðleikhússins og aðrar umbætur áður en hafist er handa við framkvæmdir. Þá aðeins er tryggt að ávallt sé unnið í rétta átt að stærra markmiði þó svo að verkinu sé skipt í verkþætti sem dreifast yfir langt tímabil. Húsnæðisvandi Þjóðleikhússins verður ekki endanlega leystur fyrr en öll starfsemi þess er komin undir eitt þak.``
    Hér stendur þetta í skýrslunni, þetta er texti hennar. Þaðan hef ég þann fróðleik, þaðan hef ég þá framtíðarsýn sem ég hef lýst, þar sem kaupa þarf sem fyrst þær eignir sem ég fjallaði um hér áðan. Þetta er úr þeirri skýrslu, forseti. Ég þakka gott hljóð.