Þjóðleikhús Íslendinga
Fimmtudaginn 05. apríl 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég get ekki setið undir ræðum ýmissa stjórnarþingmanna, og ég nenni því ekki heldur, þar sem þeir eru að tala um óþarfa fjárveitingar til framdráttar íslenskri leiklist. Þeir hv. þm. sem standa að baki þeirri hæstv. ríkisstjórn sem nú situr að völdum hafa sjálfir tekið þátt í þvílíku dæmalausu sukki og eyðslu á fjármunum þjóðarinnar að annað eins þekkist ekki í sögu hins háa Alþingis. ( Gri pið fram í: Samanber flugstöðina.) Þeir reikningar, hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson, verða gerðir upp í næstu kosningum af þjóðinni sjálfri, þannig að ég þarf ekki að munnhöggvast við einstaka stjórnarþingmenn hér. Ég minni á þetta vegna þeirrar umræðu og þeirra orða sem hv. þm. hafa látið falla varðandi Þjóðleikhúsið.
    Hv. 3. þm. Vesturl. Eiður Guðnason vitnaði í fjárlög og talaði m.a. um óvissu í rekstri Þjóðleikhússins. Hann talaði margsinnis og endurtók að verið væri að byggja nýtt hús inni í Þjóðleikhúsinu. (Gripið fram í.) Fyrirhugað væri, já, að byggja nýtt hús inni í Þjóðleikhúsnu. Ég spyr hv. þm.: Var hann ekki sjáandi þegar hann ásamt okkur fleirum skoðaði Þjóðleikhúsið sl. mánudag? Skildi hann ekki þær teikningar sem þar lágu fyrir eða það líkan af breytingum sem þar var sýnt? Áður en ég vík að þeim breytingum sem okkur voru kynntar vil ég minna á eftirfarandi sem ekki hefur verið talað um nægilega hér í þessari umræðu.
    Þjóðleikhúsið er í niðurníðslu og í þvílíkri niðurníðslu að það hefði átt að loka því þess vegna fyrir mörgum árum. Starfsskilyrði leikara, búningsklefar, gangar og annar aðbúnaður er gersamlega ófullnægjandi og til skammar. Ég segi fyrir mitt leyti, og hef ég skoðað marga vinnustaði um ævina sem fyrrverandi formaður í stéttarfélagi, að ég hefði ekki trúað því, ef ég hefði ekki séð þann aðbúnað eða réttara sagt þann skort á aðbúnaði sem er að baki sviðsins, ef einhver hefði sagt mér frá því. Sviðið er þess eðlis að ég hugsa að það mundi vera í
öðrum salarkynnum dæmt óhæft og hættulegt, sérstaklega með tilliti til þess að eldhætta er þar til staðar eins og allt umhverfið sýndi manni þegar maður stóð á sviðinu. Ef við lítum á sætin í salnum þá er ástand þeirra þannig að þau eru fyrir löngu ónýt. Það vita þeir sem hafa stundað Þjóðleikhúsið.
    Svalirnar, þá vík ég nokkrum orðum að svölunum. Þriðju svalirnar eru beinlínis hættulegar. Þær hafa aldrei þjónað því hlutverki sem þeim var ætlað. Raunverulega hefðu þessar þriðju svalir aldrei átt að vera í húsinu. Í stuttu máli sagt er allt ástand hússins innan húss þess eðlis að annaðhvort er að endurnýja húsið og gera nauðsynlegar breytingar, eins og hér hefur verið haldið fram af þeim sem styðja breytingar, eða loka Þjóðleikhúsinu.
    Þá vil ég víkja að því sem snýr að því að endurnýja og bæta. Það eitt er ekki nauðsynlegt í nútímaheimi. Það þarf líka að breyta og menn verða

bara að þora að viðurkenna það. Það er talað um það og hv. þm. Eiður Guðnason vildi vitna í ræðu hv. 18. þm. Reykv. og tala um það og lagði út af því að hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir hefði verið að tala um ,,vont hús``. Það gerði hún aldrei í sinni ræðu. En það hentaði hv. 3. þm. Vesturl. að leggja það þannig út í sinni lokaræðu hér, sem mér fannst afar óviðeigandi og óþinglegt.
    Ég vil, virðulegi forseti, síðan víkja hér að Þjóðleikhúsinu sem slíku. Við erum öll sammála um það að Þjóðleikhúsið er hús menningar og lista. Við Íslendingar höfum notið þess allt frá opnun Þjóðleikhússins árið 1950. Þegar Þjóðleikhúsið var hannað og byggt var hugsað stórt. Þeir sem þá lifðu og stóðu að því að byggja þetta hús skynjuðu kröfu tímans fyrir hálfri öld. Þeir vildu skapa leiklistinni góð og betri skilyrði. Það var byggt í samræmi við ríkjandi viðhorf þeirra ára þegar húsið var byggt og þegar það tók til starfa í kringum 1950. En síðan eru liðin 40 ár.
    Ég vil leyfa mér að fullyrða, virðulegi forseti, að kröfur nútíma Íslendinga eru þess eðlis að þær breytingar sem á að gera, sérstaklega í sal, eru þannig að þær munu svara kröfu nútímafólks, þeirra kynslóða sem koma til með að njóta hússins í framtíðinni. Við sem erum eldri eigum ekki að miða allt við fortíðina. Ef við gerðum það yrði engin framþróun né framfarir.
    Það hefur verið upplýst hér, virðulegi forseti, að stærsti hluti kostnaðar er vegna nauðsynlegrar endurnýjunar. Minnstur hlutinn er vegna formbreytinga. Ég lít þannig á að þessar formbreytingar innan húss séu til stórbóta og í samræmi við kröfur nútímans. Ég fullyrði það vegna þess að ég hef kynnst fleiri nútímaleikhúsum en Borgarleikhúsinu sem menn hafa vísað til í ræðum. Ég hef stundað leikhús erlendis og séð hvernig innréttingum er háttað í nútímaleikhúsum. Því miður var Þjóðleikhúsið, hvað sætaskipan áhrærir, þegar árið 1950 ekki í samræmi við nútímakröfur um útfærslu leiklistar. Ég ætla þess vegna ekki að fjalla hér mikið um húsfriðunaratriði umfram það sem ég hef þegar sagt, virðulegi forseti, en ég tel að í þessum efnum sé ekki verið að ræða um húsfriðunaratriði. Það hefur verið undirstrikað af þeim sem hafa betri þekkingu á þessum málum en ég að Þjóðleikhúsið mun halda sínum ytri formum og
einnig innri formum í meginatriðum. Sú eina grundvallarbreyting sem á sér stað er breyting á svölum og sætaniðurröðun sem er til bóta.
    Síðan vil ég, virðulegi forseti, segja þetta að lokum: Andi leikhúss skapast ekki nema að takmörkuðu leyti vegna ytri skilyrða. En ytri skilyrði verða að fullnægja kröfum tímans og vera þess eðlis að listamennirnir og þeir sem eiga að njóta listarinnar fái notið sín sameiginlega, framkalla þá list sem Íslendingar gera kröfu til. Þess vegna er það mín skoðun, virðulegi forseti, að það verði að endurnýja Þjóðleikhúsið. Þjóðleikhúsið verður að svara kröfum tímans. Listin verður að fá að njóta sín með eðlilegum nútímahætti í Þjóðleikhúsinu. Þröngsýni og úrtölur

hæfa ekki í þessu máli og hæfa ekki kröfum framtíðarinnar.