Dómsvald í héraði
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram, bæði af hálfu frsm. og síðasta hv. ræðumanns. Auk hennar, Danfríðar Skarphéðinsdóttur, skrifum við Salome Þorkelsdóttir undir nál. með fyrirvara. Hann byggist að sjálfsögðu að mestu á því sem þegar hefur fram komið. Ég mundi nú segja að það sé meira en að orkað hafi tvímælis að þetta frv. var flutt svo skömmu áður en þing kom saman að nýju. Það var á ystu nöf að það væri innan ákvæða stjórnarskrár. Það eina sem réttlætir þetta er að kannski væri hægt að benda á önnur dæmi, a.m.k. að því er tímasetninguna varðar, en ekki að hinu leytinu að það væri svo brýnt að þessi skipan kæmist á vikunni fyrr en ella hefði orðið.
    Hitt er a.m.k. ekki alls kostar rétt að við í nefndinni höfum verið sammála um þá skipan sem upp var tekin með setningu þessara bráðabirgðalaga, a.m.k. ekki ég. Það finnst mér líka orka mjög tvímælis hvort það er rétt skipan. En hitt væri kannski að fara úr öskunni í eldinn að breyta aftur í fyrra form eða taka upp eitthvað annað í þeim ólgusjó sem bæði skipun dómstóla og margt annað í þessu þjóðfélagi okkar er. Þess vegna er ekki annað að gera en að sætta sig við orðinn hlut.
    En það var nauðsynlegt að hér kæmi fram og er þakkarvert að það skuli kma fram í raun og veru af hálfu fjögurra nefndarmanna, því að frsm. tók undir með okkur hinum sem skrifuðum undir með fyrirvara, að hér sé á ystu nöf farið að því er varðar ákvæði stjórnarskrárinnar um heimild til útgáfu bráðabirgðalaga.
    Það hefur færst mjög í aukana að menn séu að gefa út bráðabirgðalög um alla mögulega hluti og ómögulega og að mér læðist sá grunur að embættismennirnir hafi lúmskt gaman af því að gera grín að Alþingi með því að flytja svona frumvörp rétt áður en þing kemur saman. Ég sagði gera grín að Alþingi en ekki bara það heldur líka taka í rauninni fram fyrir hendur Alþingis, vera búnir að fullskapa löggjöfina áður en þingmenn fari eitthvað að fjalla um hana. Það gæti tafist svo og svo lengi ef þingmenn færu að kalla á einhverja og yfirheyra þá o.s.frv. Það væri ekki af því góða fyrir kerfið. Kerfið ætti að stjórna, það væri hið vitra afl í þjóðfélaginu og þess vegna ætti að fara þá leið að reyna að rýra það afl og koma skipaninni þannig á að hún væri svona eins og í kansellístíl og það væru tilskipanir frekar en að þvælast með löggjafarvald.
    En ég endurtek að það læðist að mér sá grunur, ég get ekki fullyrt að þetta sé rétt hjá mér en sá grunur læðist að mér.