Breyting á fundartíma o.fl.
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég hef áður gert athugasemd við það að það er óþolandi þegar verið er að flýta fundum um klukkutíma, í samráði við hverja og hvernig sem það er gert. Það hlýtur að vera hægt að standa við það af forsetum þingsins að þingfundir hefjist kl. 2 á venjulegum dögum. Menn eru að binda sig með löngum fyrirvara, fjöldi þingmanna situr á fundum í hádeginu. Menn hafa verið að tínast hingað inn í þingsalinn eftir kl. 1. Þetta er einfaldlega óþolandi.
    Ég skal svo ekki ræða stjórn þingsins að öðru leyti. En ég get þó rifjað eitt upp að þingnefndir t.d. hafa sent forsetum bréf um að fá aðgang að eðlilegum upplýsingum í sambandi við sín störf. Slíkum bréfum nefnda er ekki svarað af forsetum þingsins. Nú er ég að tala um bréf frá sjútvn. Ég get kannski líka bent á það að ég vakti athygli á því á fundi með forsetum um daginn að eðlilegt væri að nefndafundir hæfust ekki fyrr en kl. 10 á mánudögum vegna þess að menn kynnu að fara heim til sín eða í sín kjördæmi um helgar. Þá var lofað að athuga það. Sú athugun hefur farið fram og kemur í ljós að betra var að hafa þau orð ósögð á forsetafundi en hitt að halda að eftir þeim hafi verið tekið. Það gengur auðvitað ekki í fyrsta lagi að geta ekki staðið við venjulegan fundatíma í deildum, í öðru lagi að forsetar svari ekki bréfum nefnda og í þriðja lagi að ekki sé hægt að komast að sæmilegu samkomulagi um það hvernig þingmönnum gefist kostur á því að komast í kjördæmi sín um helgar.