Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Aðeins örstutt. Það er rétt sem kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv. að málið er nýlega fram komið og þess vegna hefur ekki gefist langur tími til þess að kynna sér það en það er heldur ekki mjög flókið. Þetta er nokkuð skýrt og liggur vel fyrir í þessu stutta frv.
    Við höfum að sjálfsögðu haft nokkurt samráð við forsvarsmenn skólanna, ég segi nokkurt fyrir það að ekki voru fulltrúar allra skólanna með í nefndarstarfinu sem fór fram á milli ráðuneytanna og það voru starfsmenn heilbr.- og trmrn. annars vegar og starfsmenn menntmrn. hins vegar sem fjölluðu um málið. En þegar samkomulag lá fyrir milli ráðuneytanna þá var málið að sjálfsögðu kynnt fyrir forsvarsmönnum hlutaðeigandi skóla.
    Eins og fram hefur komið er reyndar svo að nám í Sjúkraliðaskólanum er að leggjast niður og hefur þegar verið flutt að verulegu leyti inn í fjölbrautaskólana svoleiðis að það er þróun sem er í gangi.
    Það er auðvitað líka rétt hjá hv. þm. að það er eðlilegt að reyna að samræma sem best þessar námsbrautir og reyndar gerð grein fyrir því í grg. frv. að menntmrn. hefur þegar hafið athugun á því hvernig koma megi ljósmæðranámi fyrir og fella það að hjúkrunarfræðináminu án þess þó að ljósmóðurnám og starf sé fellt niður og ég get verið sammála hv. þm. um það.
    Ég held að það sé ekki ástæða til að fara um þetta fleiri orðum, herra forseti. Það voru ekki beint spurningar sem hér voru lagðar fram en ég ítreka að ég óska eftir því, þó svo mér sé ljóst að nefndin auðvitað bæði þurfi og vilji kynna sér málið vel, að hún hraði störfum sínum þannig að þetta geti orðið að lögum á þessu þingi.