Lánasýsla ríkisins
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það er með þetta frv. eins og það sem hér var rætt á undan að við erum fyrst að sjá það nú á borðum okkar og höfum þess vegna ekki kynnt okkur það gaumgæfilega.
    Það er tvennt sem ég vildi aðeins víkja að í 1. umr. Nú sýnist mér að Lánasýslan eigi að taka yfir erlend lánamál og þá líklega gegna því hlutverki sem Seðlabankanum var ætlað í þessum efnum. Nú veit ég reyndar ekki að hve miklu leyti þarna er verið að endurvekja gamla Framkvæmdasjóð Íslands eða hlutverk það sem hann hafði. Hann var lagður niður á síðasta kjörtímabili ef ég man rétt og Seðlabankinn látinn taka við hlutverki hans. Nú sýnist mér að verið sé að endurvekja stofnun sem hefur þessa sýslu með höndum. Það kann að vera að þörf sé fyrir hana, ég get ekki metið það að svo stöddu. Við kynnum okkur það í nefndinni.
    Það kom fram í umræðum í fjh.- og viðskn. við afgreiðslu lánsfjárlaganna þegar forustumenn og fulltrúar hinna ýmsu sjóða og stofnana á vegum ríkisins komu á fund nefndarinnar að þeim fannst það mjög heftandi að þurfa að sækja um erlend lán í gegnum Seðlabankann svo að segja. Þeir vildu sjálfir fá að spreyta sig og fannst það óþarfi að leita ævinlega til Seðlabankans um slíkar lántökur og töldu sig jafnvel geta sjálfir náð hagstæðari lánum erlendis fyrir sínar stofnanir eða sjóði en Seðlabankinn gæti, hann hefði minna svigrúm. Nú veit ég ekki hvernig þetta er hugsað í tengslum við Lánasýsluna af því að við höfum augljóslega ekki haft nægilegan tíma til að kynna okkur það og mér fannst það ekki koma nógu ljóst fram í máli hæstv. ráðherra. Nú kann að vera að hér sé einhver óþarfa silkihúfa, það veit ég ekkert um. Ég reikna með að við fáum nógan og góðan tíma til að kynna okkur þetta nánar í nefndinni.