Lánasýsla ríkisins
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Hér er að mínu viti til umræðu nokkuð sérkennilegt mál. Ég tala nú ekki um á þeim tíma sem við upplifum þegar a.m.k. þeir sem ferðinni ráða í íslenskum stjórnmálum tala um sparnað, það eigi að draga saman og launafólk hefur tekið á sig æðimiklar byrðar til þess að gera enn eina tilraunina til lækkunar verðbólgu, til bættrar efnahagsstefnu fyrir þetta þjóðfélag. Það er út af fyrir sig mjög athygli verð sú hugmyndagleði sem hefur gripið hæstv. ráðherra suma hverja undangengið. Hér er dengt inn hverju frv. á fætur öðru sem kostar ekki milljónatugi heldur milljarða á sama tíma og þessir hæstv. ráðherrar reyna að telja launafólki með lágmarkslaun, um 50 þús. kr. á mánuði, trú um það að enn þurfi að herða sultarólina. Þetta er einkennileg afstaða að mínu viti hjá hæstv. ráðherrum í ríkisstjórn, en þó er hún breytileg milli stóla.
    Ég heyrði í fréttum í gær að ráðuneytið sem nefnt hefur verið umhverfisráðuneyti sem var ekki til á síðasta ári, mætti auðvitað kalla mengunarráðuneyti, að það hafi fengið nokkur hundruð þúsund úr ríkissjóði til ráðstöfunar, fyrirtæki sem ekki er til. Er þetta traustvekjandi fyrir það fólk sem leggur á sig mikla vinnu og harða til þess að reyna að koma til móts við þær óskir sem stjórnmálamenn í forustu hafa látið í ljósi, til þess að draga úr verðbólgu, bæta efnahagslífið en síðan eru foringjarnir með þessu marki brenndir. Ég er þeirrar skoðunar, og ég hygg að það sé skoðun þingflokks Alþfl., að eftir að þessi þjóðarsátt sem gerð var á sínum tíma náði fram að ganga hefði hæstv. ríkisstjórn átt að sjá sóma sinn í því að vera ekki að dengja inn hér frv. sem kosta hundruð milljóna eða milljarða kr. sem útgjaldaliðir fyrir ríkissjóð. En það er ekki hluturinn.
    Það kann vel að vera að þetta mál sem er til umræðu komi til með að skila einhverju til ríkissjóðs. Um það er kannski of snemmt að dæma. En hvað mun
þetta kosta, hæstv. ráðherra? ( Fjmrh.: Kostnaðarmat verður lagt fram í nefndinni.) Kostnaðarmat verður lagt fram í nefndinni. Það er nú einu sinni svo að samkvæmt áratuga reglu, nú orðið talað, á kostnaður að fylgja frumvörpum sem lögð eru fram á Alþingi, ég tala nú ekki um af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Hvað þýðir þetta mörg stöðugildi til viðbótar á sama tíma og menn eru að tala um að það eigi að fækka stöðugildum hjá ríkinu og búið að tala um í mörg ár, en þeim fjölgar alltaf? Hvað þýðir þessi stofnun, til að líta eftir hinum, mörg stöðugildi umfram það sem nú er í kerfinu?
    Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta afskaplega einkennilega að verki staðið og ég spyr: Er þetta það brýnasta sem þurfti að gera undir þessum kringumstæðum þegar aðilar vinnumarkaðarins keppast við það í sameiningu að reyna að ná niður verðbólgu með sem minnstum launahækkunum og sem minnstum verðhækkunum, að ríkið gangi síðan á undan í því að fara upp á við í kostnaðinum? Ég held að þetta sé

ekki svo brýnt verkefni að það hefði þurft að sýna á þessu stigi máls.
    Ég sé í greininni sem hv. þm. hafa verið að vitna í og hæstv. fjmrh. líka og taldi að því væri ekki haldið á lofti sem mestu máli skipti, grundvallaratriðinu, ég sé að í þessari grein stendur, með leyfi forseta:
    ,,Sumir þingmenn bera þó þann ugg í brjósti að með Láru`` --- það er líklega nafnið sem þetta á að fá --- ,,sé í uppsiglingu bákn sem með tíð og tíma verði fyllilega sambærilegt við sjálfan Seðlabankann.``
    Þá hafa menn það. Og þetta er úr Pressunni og menn vita hverju það blað er tengt. (Gripið fram í.) Ég sagði ekkert um það, hæstv. ráðherra hlýtur að vita það. En þetta er í grein úr því blaði. ( EG: Og hlýtur að vera satt.) Og hlýtur að vera satt, segir hv. þm. Eiður Guðnason, formaður þingflokks Alþfl. ( Fjmrh.: Einn góður maður sagði að Alþýðublaðið segði alltaf satt og það kæmi út alla daga vikunnar.) Já, hæstv. fjmrh., þetta tek ég ekki undir. ( Fjmrh.: Nei.)
    Auðvitað sýnist mönnum sitt hvað um svona hluti. Það er bara eðli málsins samkvæmt. En ég er þó þeirrar skoðunar að þetta sé ekki traustvekjandi í þeirri stöðu þar sem menn eru að reyna að ná saman höndum um að minnka verðbólgu, draga úr efnahagsvandanum en þenja síðan báknið út hjá ríkinu. Hafa menn t.d. tölur um það núna --- nú spyr ég hæstv. fjmrh. --- hvað stöðugildum hefur fækkað hjá ríkissjóði á árinu 1989? Eða kannski miklu frekar að spyrja, hvað hefur þeim fjölgað?
    Ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að fara að líta í eigin barm í þessum efnum. Það dugar ekki alltaf að pína aðra ef topparnir ætla að leika sér sjálfir. Það dugar ekki endalaust. Menn verða að líta í eigin barm. Og þó að hér kunni að vera á ferðinni mál sem er þess eðlis að skoða beri hygg ég að það eigi vart rétt á sér á þessum tíma. Og ég a.m.k. hef allan fyrirvara á um fylgni við þetta frv.