Lánasýsla ríkisins
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það eru einkum þrjú atriði í ræðu hæstv. fjmrh. sem ég hlýt að gera að umræðuefni.
    Í fyrsta lagi lýsi ég sérstakri ánægju minni yfir því að orð hæstv. fjmrh. féllu á þann veg að hann gaf fyrirheit um það að þegar þing kæmi aftur saman á hausti komanda mundi liggja fyrir frv. frá ríkisstjórninni sem lagfærir þau ranglátu ákvæði sem nú gilda varðandi skattlagningu hlutabréfa og arðs af hlutabréfum. Ég vænti þess að samhliða verði lagt fram frv. um aðrar nauðsynlegar breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt og raunar varðandi launaskatt einnig og önnur þau atriði sem nauðsynlegt er að lagfæra vegna þess að við færumst nær Evrópumarkaðnum ef marka má orð hæstv. fjmrh. og vegna þeirra breytinga sem verða í þeim málum á árinu 1992.
    Hæstv. fjmrh. mat það svo að efnahagskerfi okkar Íslendinga hljóti óhjákvæmilega á næstu árum að verða háðara Evrópubandalaginu en áður sem aftur vekur upp spurningar um það hvort Alþb. hafi kúvent í þessum efnum. Hvort nú sé svo komið að Alþb. sé orðið talsmaður þess að Íslendingar sæki um fulla aðild að Evrópubandalaginu, hvort Alþb. geri þetta í heild eða hvort þetta er kannski eingöngu skoðun Nýs vettvangs sem maður sér að er að bjóða fram til borgarstjórnar Reykjavíkur og líka raunar á Seltjarnarnesi. Er fróðlegt að sjá í blöðunum hvers konar fólk það er sem býður sig fram fyrir þennan Nýja vettvang. Þannig kom fram í prófkjörinu á Seltjarnarnesi að dóttir viðskrh. væri krati en eiginkona fjmrh. alþýðubandalagsmaður en báðar samt á Nýjum vettvangi.
    Nú væri auðvitað gaman að heyra meira um hugmyndir hæstv. fjmrh. í sambandi við Evrópubandalagið og þær skoðanir sem hann hefur á því en ég skal ekki gera það að umræðuefni.
    Í annan stað er það rétt sem hæstv. fjmrh. sagði áðan að ríkið hefur verið mjög áberandi á íslenskum fjármagnsmarkaði á sl. ári og það sem af er þessu ári og haldið uppi háum raunvöxtum á hinum frjálsa peningamarkaði. Það má rifja það upp þegar Þorsteinn Pálsson var fjmrh. Hann gerði þá samkomulag við bankana um það að ríkið drægi sig til baka á hinum almenna peningamarkaði sem umsvifalaust hafði í för með sér lækkun á raunvöxtum. Það liggur á hinn bóginn alveg ljóst fyrir að sú stefna sem núv. hæstv. fjmrh. hefur fylgt í sambandi við framboð á ríkispappírum hefur valdið því að raunvextir eru hærri hér á landi en ella mundi. Þetta sjónarmið kom m.a. fram á fundi með viðskrh. og bankaráði Búnaðarbankans nú í vikunni þegar hæstv. viðskrh. kom einmitt inn á það að með því að ríkið breytti þeim útboðsskilmálum sem það hefur á sínum pappírum mætti búast við að raunvextir hér á landi gætu lækkað. Þetta er líka nauðsynlegt að fram komi, viðurkenning hæstv. fjmrh. á því að ríkið hafi verið mjög fyrirferðarmikið á íslenskum peningamarkaði sem er auðvitað um leið viðurkenning á því að hið

háa raunvaxtastig sem hér hefur verið er ekki síst tilkomið vegna þess að lánsfjárþörf ríkisins hefur verið óseðjandi. Þetta liggur líka fyrir.
    Í þriðja lagi er óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við þau ummæli hæstv. fjmrh. að hér sé uppi einhver efnahagsstefna sem kjarasamningarnir tengjast. Það er misskilningur og raunar rangtúlkun af versta tagi að kjarasamningarnir nú í desembermánuði hafi verið í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar og að ríkisstjórnin hafi átt eitthvert frumkvæði að þeim samningum. Það er á hinn bóginn svo að báðir þessir ráðherrar sem eiga náinn ættingja sem er í prófkjöri á Seltjarnarnesi eru að reyna að láta líta svo út að þeir eigi einhvern sérstakan hlut í síðustu kjarasamningum, að aðilar vinnumarkaðarins hafi
fallist á þessi naumu kjör sem kjarasamningarnir bjóði upp á af því að þessir tveir ráðherrar sem báðir eru gullinkollar og bjart yfir þeim, a.m.k. í fjarlægð, að þeir hafi eitthvað sérstaklega komið þar við sögu en svo er nú ekki. Þessir kjarasamningar voru alls ekki einn liður í efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar. Kjarasamningarnir eru á hinn bóginn afleiðing af þeirri efnahagsstefnu sem fylgt hefur verið.
    Eins og ég sagði í minni ræðu áðan tekur viðskrh. sérstaklega fram í grein í Morgunblaðinu í gær að raungengi krónunnar hafi lækkað um 15--20% síðan 1988. Þetta þýðir á mæltu máli að kaupmátturinn í landinu hefur dregist saman um svipaða tölu. Skilgreiningin á raungengi er afskaplega nærri því að vera skilgreining á kaupmætti. Kjörin í landinu hafa með öðrum orðum rýrnað um 15--20%. Á sama tíma og menn hafa orðið að sætta sig við þetta hafa beinir skattar af launum hækkað verulega. Tekjuskatturinn er núna um 40% af launum manna en var 36% þegar sá maður varð fjmrh. sem lætur fara mikið fyrir sér þar. Á tveim árum hefur honum tekist að hækka staðgreiðsluna um tvisvar sinnum 2%, 4%. Það yrði lítið eftir ef hann ílentist í þessu embætti. Þá kæmi lítið í hlut þess sem á launaumslagið. 2% á ári er nokkuð mikið.
    Um síðustu áramót kom þessi síðari hækkun og um leið voru ýmsir aðrir skattar þyngdir og jafnframt var ákveðið að leggja fram frv. um að skattleggja
orkuneyslu heimilanna. Eins og ég hef gert grein fyrir í ræðustólnum var það mat bæði Rafmagnsveitna ríkisins og annarra sem að þeim málum komu að ef sá skattur yrði að veruleika mundi hann þýða um 30% hækkun á orkunotkun heimilanna. Hæstv. ráðherra er að reyna að afsaka sig með því að fjmrn. hafi reiknað vitlaust, að hann hafi ætlað að hækka orkunotkunina eitthvað minna. Það skiptir ekki máli hvort hæstv. fjmrh. hafi ætlað að hækka orkunotkunina um 500 kr. eða 1000 kr. á mánuði hjá venjulegri fjölskyldu. Aðalatriðið er að ráðherrann var önnum kafinn við að þyngja álögurnar. Þegar kjarasamningarnir voru gerðir voru þessi mál öll í deiglunni. Þá var hæstv. ráðherra að þyngja álögurnar, hann var önnum kafinn við þær af því að kjarasamningarnir gengu þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar.
    Við skulum aðeins rifja upp hvernig umhverfið er

hér á landi. Hvað gerðist haustið 1988 þegar þessi ríkisstjórn komst til valda? Í þeirri grein sem hæstv. iðnrh. skrifaði í Morgunblaðið í gær tekur hann fram að raungengi hafi verið verulega rangt þegar þessi ríkisstjórn settist að völdum haustið 1988. Hann tók jafnframt fram að ríkisstjórnin hefði af ráðnum hug haldið raungenginu skökku fram eftir sl. ári. Og hverjir eru það sem töpuðu á því að raungengið var skakkt ef við notum það hugtak, á hvaða atvinnuvegum bitnaði það? Það bitnaði auðvitað á útflutningsframleiðslunni, það bitnaði á samkeppnisiðnaðinum. Við sjáum t.d. fórnarlambið í Slippstöðinni á Akureyri. Við sjáum hvernig farið hefur fyrir ullariðnaði, niðursuðuiðnaði. Það er haldinn fundur í hverjum einasta mánuði í Byggðastofnun til að reyna að fjalla um einhver ný útflutningsfyrirtæki. Ríkisábyrgðasjóður er að gefa eftir vexti til þess að bjarga útflutningsfyrirtækjum. Fjmrh. beitti sér fyrir því að gefa nokkur hundruð millj. til eins fyrirtækis á Siglufirði um áramótin. Gjaldþrotunum fækkar ekki neitt. Fólk úti á landi sem missir atvinnuna kemur til Reykjavíkur, ungt fólk. Það stoppar lítið við hér heldur fer svo að segja beina leið upp í félmrn. til að leita eftir því hvort hægt sé að fá vinnu í nálægum löndum, helst Svíþjóð, vegna þess að það er enga vinnu að hafa hér á landi. Mikill fjöldi af ungu og glæsilegu fólki sem ekkert hefur hér að gera hefur farið þangað. Þessi útflutningur á ungu, íslensku fólki nemur orðið einhverjum þúsundum síðan þessi ríkisstjórn kom til valda. Samt er atvinnuleysið í febrúarmánuði mun meira en það hefur verið svo áratugum skiptir hér á landi, mun meira.
    Ef við horfum á einstakar greinar sem búið er að vera að hvetja fólk til að ganga út í, má minnast t.d. á loðdýrabændur. Þeir voru hvattir til að fara út í þessa atvinnu á sínum tíma. Það er búið að halda þeim við efnið með nýjum og nýjum nefndum, með nýjum og nýjum loforðum. Síðast 30. mars voru gefin hálfgildings loforð um að það ætti að gera svo og svo mikið fyrir þá. Síðast á fundi í Byggðastofnun nú í hádeginu bárust stjórn Byggðastofnunar skilaboð frá landbrh. um fóðurstöðina á Dalvík. Ég spurði hann hvort það væri kannski hugmyndin að Byggðastofnun tæki veð í skuldabréfum bænda sem ekki er búið að gefa út og síðan mundi Seðlabankinn endurgreiða Byggðastofnun þessa peninga til þess að hægt sé að koma fóðurstöðinni á Dalvík aftur í gagnið. Það kom í ljós að allir stjórnarsinnar sem þarna voru inni litu á þetta sem orðin tóm, tóku ekki mark á þessum skilaboðum, þessari dúsu sem loðdýrabændurnir fyrir norðan áttu að fá. Þetta fólk hefur verið að missa aleigu sína og vinir þess og fjölskyldumeðlimir hafa orðið að hlaupa undir bagga og tekið á sig ábyrgðir. Mikið af þessu fólki eru launþegar eftir að það hefur gefist upp. Og það hefur eitthvert fólk í kringum sig, vini og fjölskyldu sem hefur gengið í ábyrgð fyrir það. Hvernig á þetta fólk að geta greitt ábyrgðirnar þegar ekkert tillit er tekið til fjármagnskostnaðar, þegar ekkert tillit er tekið til tapa í skattkerfinu og þegar svo er komið að beinn staðgreiðsluskattur er

orðinn 40% og enga miskunn að fá neins staðar?
    Þetta er umhverfið sem við erum að tala um. Og það er við þessi ömurlegu skilyrði sem verkalýðshreyfingin gerði samkomulag við vinnuveitendur um það að semja til langs tíma, fram á næsta ár. Þó liggur það fyrir að verðbólgan á þessu ári verður meiri en þær launahækkanir sem fólkið fær í vasann, hæstv. fjmrh. Það verður áframhaldandi kjaraskerðing á þessu ári, hæstv. fjmrh. En hvernig er svo umhverfið þegar við tölum um áframhaldandi kjaraskerðingu þessa fólks, fólks sem búið er að missa 15--20% af tekjum sínum á tveimur árum svo að ég tali nú ekki um þetta aumingja fólk sem hefur talið sig vera í góðum störfum? Lítum t.d. á uppsagnir hjá traustu fyrirtæki eins og Kaupfélagi Eyfirðinga nú upp á síðkastið og þann mikla persónulega harmleik sem er í kringum slíkar uppsagnir.
    Í grein hæstv. viðskrh. í Morgunblaðinu í gær hrósar hann sér af þrem atriðum. Hann hrósar sér af því að viðskiptajöfnuður skuli vera betri nú en áður. Auðvitað er það eðlilegt að viðskiptajöfnuðurinn batni um leið og kaupmátturinn dregst svo verulega saman. Kaupmátturinn dregst í raun meira saman en þessar tölur sýna. 15--20% kaupmáttarskerðing hefur í för með sér enn þá meiri samdrátt í eftirspurn eftir innfluttum vörum en þessar tölur gefa
tilefni til. Auðvitað er það eðlilegt við slík skilyrði að viðskiptajöfnuður eigi að vera hagstæður.
    Hæstv. viðskrh. hrósaði sér líka af því að einhver fyrirtæki sem höfðu áður nokkuð góða stöðu væru enn að hressast og mér skildist á hæstv. fjmrh. áðan að hann væri að gefa eitthvað slíkt í skyn. Höfum við ekki margfalda reynslu af því ef kaupið dregst saman um 15--20% að einhver fyrirtæki gangi ögn betur? Skárra væri það. En um leið og við tölum um þetta felst í því viðurkenning Alþb. á því að ósanngjarnar og mjög miklar launahækkanir geti ráðið úrslitum um það hvort jafnvægi náist í efnahagslífinu eða ekki. Um þetta er þess vegna ekki ágreiningur. Þegar búið er að skerða launin um 15--20% hlýtur auðvitað staða atvinnulífsins að batna. Um það er ekki ágreiningur.
    En það er annað sem vekur mikla athygli. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan að kjarasamningarnir yrðu að halda. Það hefur komið fram hjá forsrh. að það séu þrjú ráð: Í fyrsta lagi að taka í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, í öðru lagi að hækka vexti og í þriðja lagi að þyngja skatta til þess að halda niðri kaupmættinum.
    Hvernig er umhverfið? Í heild hafa viðskiptakjörin batnað. Það er talað um að í þýðingarmiklum útflutningsgreinum sjávarútvegs hafi hækkun orðið 10%. Hæstv. iðnrh. hrósar sér af því að samningur um byggingu álvers hér á landi sé í hendi nú. Hann talar um að álverið verði kannski við Reyðarfjörð, á Akureyri, kannski nálægt Hornafirði eða Keflavík, kannski nálægt Akranesi. Þetta eru miklir kratabæir, Akureyri, Akranes, Keflavík og Hafnarfjörður og er kannski vissara að slá því ekki föstu hvar álverið verði fyrr en 31. maí til þess að kratar geti haldið sína kosningabaráttu á öllum þessum stöðum og sagt

að álverið verði nálægt sér. ( KP: En hvað með Ísafjörð?) Það hefur ekki verið lofað neinu um það. ( KP: En hefur hinu verið lofað?) Þannig að ef þetta gengur fram þýðir það auðvitað verulegar gjaldeyristekjur fyrir okkur og nýja eftirspurn eftir vinnuafli. Með öðrum orðum horfum við núna fram á það vegna þess að viðskiptakjörin eru batnandi, vegna þess að við fáum meira fyrir sjávarafla en á síðasta ári, að afrakstur þjóðarbúsins er orðinn meiri en menn bjuggust við.
    Samt hafa ráðherrarnir áhyggjur. Og hverjar eru áhyggjurnar núna? Að eitthvað af þessu góðæri í atvinnulífinu fari í launaumslögin. Að eitthvað af góðærinu hjá fyrirtækjunum fari í launaumslögin. Auðvitað liggur það ljóst fyrir að það hafa skapast skilyrði fyrir því að bjóða upp á betri lífskjör en um var samið í kjarasamningunum. Auðvitað hefur þessi mikli bati sem við sjáum nú vegna ytri skilyrða í sumum greinum atvinnulífsins það í för með sér að einfaldasta leiðin er sú að ríkið mæti aukinni veltu af þeim sökum með því að draga úr beinni skattheimtu og færi tekjuskattinn niður í t.d. 38% og komi þannig til móts við launafólk. Ef þessi ríkisstjórn sem vill kenna sig við félagshyggju vill á annað borð láta almenning í landinu njóta góðærisins sem er að koma. En því miður er það ekki þannig. Því miður er það á hinn veginn, að ráðherrarnir með góðum stuðningi þingmanna sem ríkisstjórnina vilja styðja og undanskil ég að sjálfsögðu þm. Vestf., Karvel Pálmason. Mér virðast aðrir stjórnarsinnar sömu skoðunar og ríkisstjórnin, að ef hér má vænta einhvers góðæris fyrir þjóðina í heild skuli það helst vera ríkissjóður einn sem þess fær að njóta.