Lánasýsla ríkisins
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki misnota það að fá gera stutta athugasemd þó að það hefði verið freistandi að svara nokkrum orðum og halda áfram með þá upprifjun sem hv. 3. þm. Vestf. kom með í sambandi við kjaramálin og kjaraskerðingar. Ég ætla ekki að fara að rifja það upp að kjör höfðu verið skert 14 sinnum í þeirri ríkisstjórn sem sat að völdum þegar Alþb. var í ríkisstjórn næst á undan þeirri sem nú situr.
    En ég lagði nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra áðan og fékk ekki svör við því sem ég spurði um. Ég var ekki að leggja faglegt mat á hvort starfsmenn hefðu unnið verk sín, hvort það hefði verið ástæða til að ráða þetta fólk. Ég var að spyrja um heimildirnar. Ég var að spyrja um með hvaða hætti starfsfólkið hefði verið ráðið og ég var að spyrja um hver mundi bera kostnað af ráðningu þessa starfsfólks fram að þeim tíma að lögin tækju gildi eða hvort lögin ættu að verka aftur fyrir sig. Ég spyr að þessu að gefnu tilefni vegna þess að núv. hæstv. fjmrh. hefur lagt á það mikla áherslu að hann ætli ekki að stunda það sem forverar hans í embættum hafi gert. Hann ætlaði að reka ríkissjóð með hagnaði. Það vita allir hvernig það hefur gengið. Hann ætlaði eins og félagi hans, hæstv. menntmrh., að skrúbba, skúra og bóna og taka til eftir forvera sína í embættum en eftir stendur það hvort hann hafi gert það og þetta er eitt dæmi þess að svo hefur ekki verið gert. Það er það sem stendur eftir. Hér hefur verið sett á laggirnar deild í fjmrn. sem ekki er heimild fyrir, sem ekki stenst lög. Það er nú fyrst verið að leggja fram frv. til þess að staðfesta þessa þjónustumiðstöð og eftir stendur að þetta er gert án heimilda til ráðningar í þessar stöður.