Frsm. iðnn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. iðnn. um frv. til laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Nál. er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund til viðræðna um það Árna Þ. Árnason, skrifstofustjóra í iðnaðarráðuneytinu, Jón B. Jónasson, skrifstofustjóra í sjávarútvegsráðuneytinu, Halldór Þ. Kristjánsson, skrifstofustjóra í iðnaðarráðuneytinu, Guðmund Eiríksson, þjóðréttarfræðing í utanríkisráðuneytinu, Guðmund Pálmason frá Orkustofnun og Jón Arnalds borgardómara.
    Eftir ítarlega umfjöllun um málið og viðræður við fyrrgreinda menn mælir nefndin með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Flestar breytingarnar miða að því að gera ákvæði frumvarpsins skýrari en meginefnisbreytingin er sú að hugtakið ,,auðlind`` í merkingu frumvarpsins er bundið við allar lífrænar og ólífrænar auðlindir hafsbotnsins aðrar en lifandi verur. Nefndin vill þó leggja áherslu á að hún telur nauðsynlegt að hugað verði að sérstöku frumvarpi er fjalli um réttindi til rannsókna og hagnýtingar á sjávargróðri og verum sem lifandi eru á, í og undir hafsbotninum eða í tengslum við hann.``
    Undir þetta rita allir nefndarmenn í hv. iðnn., þar af með fyrirvara Friðrik Sophusson og Birgir Ísl. Gunnarsson.