Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur á nál. á þskj. 873 höfum við tveir nefndarmenn, hv. þm. Friðrik Sophusson og ég, ritað undir nál. með fyrirvara. Þykir mér rétt að gera grein fyrir þeim fyrirvara. Ég vil þó áður láta þess getið að hér er um mjög merka löggjöf að ræða. Ég sé ástæðu til að þakka hv. 2. þm. Austurl. fyrir hans forgöngu í þessu máli. Hann er 1. flm. að frv. og hefur verið formaður nefndarinnar og leitt starfið, en nefndin hefur unnið mjög ítarlega í þessu máli, haldið um það marga fundi og fengið hina færustu sérfræðinga á sinn fund.
    Þetta mál er búið að vera hér fyrir þinginu nokkrum sinnum. Til skýringar á fyrirvörum okkar þykir mér rétt að rifja upp að á árinu 1983 var frv., samhljóða því sem er á þskj. 144, flutt í Ed. Þá skilaði allshn. Ed. samhljóða nál. sem er birt sem fskj. með þessu frv. Ég sé ástæðu til að lesa það upp, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur rætt málið ítarlega og komist að raun um að hér sé um að ræða svo þýðingarmikið og vandmeðfarið mál að ógerlegt sé að afgreiða það efnislega án frekari athugunar. Ljóst er að í nánustu framtíð eru hafsbotnsréttindi Íslands á Reykjaneshrygg, neðansjávarhásléttunni sem kennd er við Rokkinn, og á Jan Mayen svæðinu fyrst og fremst tengd yfirborði hafsbotnsins. Samkvæmt 77. gr. hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna eigum við réttindi til þeirra lífvera sem á þessum hafsvæðum finnast og botnlægar eru. Yfirborð hafsbotnsins er einnig ótvíræð eign strandríkisins.
    Nefndin telur þess vegna að allri lagasetningu um hafsbotn þann, sem er utan 200 mílna efnahagslögsögunnar en tilheyrir Íslandi samkvæmt 76. gr., sbr. 83. gr. hafréttarsáttmálans, eigi að haga þannig að einkaréttur okkar sé sem best tryggður og allar veiðar útlendinga við botninn bannaðar. Hins vegar sé rétt að örva íslenska fiskimenn til að hagnýta þessi íslensku mið og bægja útlendingum af þeim í samræmi við alþjóðalög.
    Með hliðsjón af framansögðu telur nefndin eðlilegt að þau málefni, sem varða yfirborð landgrunnsins utan 200 mílnanna á Reykjaneshrygg, Jan Mayen svæðinu og Rockall-hásléttu, falli undir sjútvrn. en leggur áherslu á að skynsamleg skipan þessara mála verði fundin sem skjótast og málið lagt fyrir næsta þing. Því leggur hún til að því verði nú vísað til ríkisstjórnarinnar til skjótrar en ítarlegrar athugunar hæfustu sérfræðinga þar sem framangreind sjónarmið sitji í fyrirrúmi.``
    Undir þetta rita allir nefndarmenn en frsm. nefndarinnar var hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Þetta var árið 1983. Síðan hefur ekkert gerst í þessu máli af hálfu þeirra ríkisstjórna sem setið hafa. Ástæðan er sú að þarna er um að ræða vissan ágreining. Þetta mál snertir tvö ráðuneyti, þ.e. iðnrn. og sjútvrn. og ráðuneytin hafa þess vegna ekki getað gripið á þessu máli. Því kemur nú til kasta þingsins að skera úr.

    Niðurstaða hv. iðnn. varð sú að þrengja frv., þ.e. taka af öll tvímæli um að það taki aðeins til ólífrænna og lífrænna auðlinda á og í hafsbotninum en ekki til lifandi vera svo sem fiska, krabbadýra og annarra slíkra sem eðli málsins samkvæmt mundu þá heyra undir sjútvrn. Fyrirvari okkar, minn og hv. þm. Friðriks Sophussonar, er sá að við hefðum talið æskilegra að víkka frv. út þannig að það tæki bæði til ólífrænna og lífrænna auðlinda og efna, svo og til fiska og lifandi vera. Ég vil aðeins geta þessa hér, en við viljum á engan hátt leggja stein í götu þessa máls. Við styðjum það auðvitað heils hugar og teljum það mjög brýnt að slík lög séu sett, þó takmörkuð séu.
    Við teljum hins vegar mjög nauðsynlegt, eins og fram kemur í nál., að nú verði unnið að sérstöku frv. sem fjalli um réttindi til rannsókna og hagnýtingar á sjávargróðri og verum sem lifandi eru á, í og undir hafsbotninum eða í tengslum við hann.