Frsm. iðnn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Reykv. fyrir orð hans og stuðning við þetta mál og öllum nefndarmönnum. Eins og fram kom er þetta mjög þýðingarmikil löggjöf sem hér er verið að setja. Vegna fyrirvara sem hv. 2. þm. Reykv. kynnti hér vil ég að það komi fram af minni hálfu að ég tel mjög æskilegt og raunar brýnt að löggjöf af þeim toga sem hér um ræðir verði undirbúin og sett af Alþingi. Það er því enginn ágreiningur í raun okkar á milli um það og ég held að það sé hugur annarra í iðnn. eins og kemur fram í nefndaráliti.