Grunnskóli
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Pétur Bjarnason:
    Herra forseti. Fyrir setningu grunnskólalaga 1974 hafði farið fram gífurlega mikil vinna í undirbúning og kynningu. Fundir voru haldnir með skólamönnum um land allt og leitað álits hjá fjöldamörgum aðilum. Þau lög sem síðan hafa gilt að mestu óbreytt til síðustu áramóta voru að flestu leyti góð lög og hafa gefist vel.
    Eitt og annað kemur þó upp þegar farið er að vinna eftir nýjum lögum sem þarfnast endurskoðunar. Svo var og um þessi. Þó nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til þess að setja upp ný grunnskólalög en ekki orðið árangur af þeim. Þetta frv. er í veigamiklum atriðum árangur af þeim tilraunum þar sem farið hefur verið yfir allar brtt. og það tekið inn í frv. sem talið er gott. Þetta er því í meginatriðum gott frv. sem gera þarf að lögum hið fyrsta. Vafalaust hafa breytingum verið gerð skil í framsöguræðu menntmrh. sem ég gat ekki hlýtt á fremur en aðrar ræður í fyrsta hluta 1. umr. Ég kom hér inn í lok ræðu hv. 2. þm. Reykv. og heyrði mál hv. 18. þm. Reykv. sem flutti hér langt mál. Af þeim sökum verður það kannski helst við mál hans sem ég mun gera nokkrar athugasemdir. Mér þótti það skína í gegnum málflutning hv. þm. að í rauninni var margt sem mér virtist hann taka undir og frekar sneru athugasemdirnar að orðalagsbreytingum og smávægilegum atriðum. Það tel ég sýna að hér er margt gott á ferðinni sem þarf að fá framgang.
    Skoðanir þessara tveggja þingmanna á anda laganna fóru ekki saman. Mér heyrðist í lok ræðu hv. 2. þm. Reykv. að kostnaðarauki af þessum lögum væri visst áhyggjuefni, hv. 18. þm. Reykv. taldi aftur á móti of skammt farið. Ég held að við endurskoðun laga sé það brýnt að saman fari bókstafur laganna og möguleikar á því að standa við þann bókstaf eins framarlega og unnt er, en slá þá varnagla ella og orða hlutina sem skýrast. Þar sem hv. 18. þm. Reykv. sagði að lítill metnaður fylgdi þessu frv. þá held ég að metnaður sem fæli í sér
útgjöld sem útilokað væri að framkvæma væri markleysa og mundi ekki ná þeim tilgangi sem með lagasetningunni er stefnt að. Þess vegna er aðlögun sú sem gert er ráð fyrir í þessum lögum mjög eðlileg, mismunandi löng eftir ýmsum ákvæðum en hlýtur að vera nauðsynleg til þess að ná megi fram þeim miklu breytingum sem hérna er á margan hátt stefnt að.
    Hv. þm. gat þess að 30 ár væri langur tími í lífi þjóðar og það er alveg rétt. 30 ár er auðvitað tími sem ekki rúmast í lífi eins barns. Þá dettur manni í hug bóndinn gamli sem rak lömbin sín á fjall. Hann var að reka þau á fjall í þrítugasta sinn og furðaði sig á því hvernig stæði á því að þau ætluðu aldrei að rata þetta þó þau færu alltaf sama veginn. Þetta er kannski það sem við sem höfum starfað við uppeldi barna megum svolítið passa okkur á, að við gerum ekki viðhorf sögunnar að okkar því þá erum við farin að staðna æðimikið. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það eru alltaf ný börn.
    Ég ætla aðeins að staldra við þessi tímamörk, 30

ár, af því að þingmaðurinn sagði að árið 2000 væru börn hennar búin að vera í skóla í 30 ár. Það vill svo til að á þessu ári eru nákvæmlega 30 ár síðan ég hóf kennaranám þannig að ég hef 30 ára viðmiðun líka til þess að velta fyrir mér. Ég staldraði aðeins við og leit til baka þegar ég heyrði þessi orð og þessi tímamörk sérstaklega sett. Það kann að vera að þriggja, fimm og tíu ára aðlögunartími sé langur tími fyrir þann sem er að útskrifa síðasta barnið sitt úr skóla. En við skulum ekki gleyma því að skólinn í dag er langt frá því að vera óhæfur þannig að ekki er víst að öllu sé tapað. Á þessu tíu ára bili sem fram undan er með þessu frumvarpi mun mjög verulega stefna í rétta átt.
    Þegar ég lít til baka um þessi 30 ár frá því að ég hóf kennaranám, þá er ekki vafi í mínum huga að margt hefur áunnist og margt hefur breyst. Þegar ég hóf kennslu var aðbúnaður skólabarna, t.d. í Reykjavík þar sem ég hóf mitt starf, verulega lakari en hann er nú. Þá ætla ég ekki að tala um hvernig hann var þegar ég flutti síðan út á land og bar saman eða ber saman núna það sem nú er þar og það sem þá var. Á þessu 30 ára tímabili, þessum langa tíma, hefur heilmikið áunnist. Þess vegna held ég að þó ákveðin tímamörk séu sett þarna til þess að ná fram þessum markmiðum, þá sé það nauðsyn, ill nauðsyn. Tíu ár eru kannski langur tími en hann er þó skemmri en 30 og hann er ekki svo langur tími í lífi þjóðar að við getum látið það ógert að samþykkja breytingar sem eru til bóta, jafnvel þó að taki frá þremur og upp í tíu ár að koma þeim á.
    Hér var aðeins getið um orðið heildstæður skóli. Það er nú svo með málfar í skólakerfinu að þar hefur margt slæmt komið inn og ég get alveg tekið undir það. En þetta orð er langt frá því að vera nýtt og ég held að þarna sé um að ræða viðleitni til að finna orð fyrir hugtakið sem í þessu felst. Við gætum líka orðað það þannig að þetta væri skóli frá forskóla upp í níunda bekk eða frá fyrsta og upp í tíunda bekk en það er óþjálla. Ég held að hérna sé frekar jákvæð viðleitni til að búa til nýtt orð sem stenst nokkurn veginn skoðun. En auðvitað þarf að kynna þessi orð. Þau eru þegar orðin þjál í skólakerfinu og hafa verið það um margra ára skeið. Ég vona að einmitt með þessum lögum og vaxandi foreldrasamstarfi og vaxandi kynningu á málefnum skólans muni
annmarkar eins og þessi með ýmis orð sem eru kannski frosin í skólakerfinu, notuð af skólafólki og virka sem einhvers konar furðuverk fyrir hina, þá muni þau ná kynningu, ná fótfestu og verða góð og gild íslenska svo framarlega sem þau falla að málinu eins og þetta orð gerir vissulega.
    Mig langar aðeins að fara nokkrum orðum um einstakar greinar, alls ekki allar, heldur að drepa á fáein atriði sem mér finnst rétt að komi fram hér í umræðunni. Tíu ára skóli í stað níu áður. Með því er verið að koma til móts við gildandi fyrirkomulag þar sem þorri forskólabarna nýtur nú skólagöngu og einnig í vaxandi mæli í dreifbýli. Þetta hefur batnað ár frá ári og ég held að það sé einmitt tímabært núna að gera hlut forskólabarna jafnan öðrum

skólanemendum með þessu móti. Það er til bóta að takmarka nemendafjölda við 650. Menn hafa staldrað svolítið við þessa tölu. Fyrri ræðumaður ræddi um aðra tölu við skóla með færri nemendum. Þá get ég komið með annað orð sem hefur líka verið notað í skólakerfinu lengi og menn þekkja lítið. Það er ,,hliðstæða``, þ.e. með þremur bekkjardeildum í hverjum árgangi. Miðað er við að sé skólinn heildstæður þá séu að jafnaði þrjár bekkjardeildir í hverjum árgangi hans. Með sama hætti mundi skóli sem væri með skemmri tíma vera fámennari.
    Hv. 18. þm. Reykv. ræddi nokkuð um grunnskólaráð og tengsl þess við fræðsluráð. Nú er það svo að fræðsluráð hefur sitt ákveðna hlutverk samkvæmt þessum lögum, raunar hið sama og var í fyrri lögum. Það er að mestu bundið við sitt eigið skólahérað, sitt eigið umdæmi og störf þess varða málefni sem þar eru. Ég get vel tekið undir orð þingmannsins um fundi og ráðstefnur og gagn þeirra og gildi. Það er vafalaust afar misjafnt hversu mikið fæst út úr því skrafi sem þar á sér stað. Ég held að allt velti á því varðandi skipan þessa grunnskólaráðs hvernig reglur því verði settar. E.t.v. getur grunnskólaráð náð tilgangi sínum með því að vera eins konar samráðs- eða ráðgjafaraðili í einstökum málum sem varða þá landið allt en ekki einstök fræðsluumdæmi, því að þar ættu fræðsluráðin að vera. Almennt talað er ég ekki mjög hlynntur fjölmennum ráðum sem koma saman, tala langt mál og e.t.v. flækja málin frekar en greiða þau. En ég held að þarna velti fyrst og fremst á því hvernig til tekst um þær reglur sem setja skal um grunnskólaráðið.
    Í 4. gr. er talað um að óheimilt sé að láta börn yngri en tíu ára dvelja í heimavist nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi að mati fræðslustjóra. Hér er verið að koma til móts við álit nefndar eða starfshóps um samskipti heimila og skóla og ég held að þetta sé til bóta. Þó er rétt að hafa í huga að aðstæður á einstöku stað á landinu eru mjög sérstakar þar sem ekki verður komið við að stofna útibú og í rauninni ekki heldur hægt að senda börnin í heimavist svo ung sem þarna er talað um. Þá nefni ég t.d. eyjarnar í Djúpi og Breiðafjarðareyjar og vafalaust fleiri svæði á landinu. Það væri kannski til bóta að þarna væri viðbót: ,,Verði hvorugum kosti við komið skal fræðslustjóri hlutast til um lausn.``
    Vík ég þá aðeins að 16. gr. Í 16. gr. er kveðið á um að sveitarfélög sem reki tvo eða fleiri grunnskóla skuli skiptast í fleiri skólahverfi og fleiri skólanefndir fari með málefni þeirra. Ég held einmitt að reynslan, sérstaklega héðan úr Reykjavík, hafi sýnt fram á að það er nauðsynlegt og æskilegt að þeir sem ráða málefnum síns hverfisskóla séu kunnugir staðháttum og starfsemi skólans. Þar eru einmitt foreldrar úr því hverfi og e.t.v. fulltrúar skólanna líka mun betur til þess fallnir. Við höfum svo fjölmörg dæmi fyrir okkur að um það þarf ekki að fjölyrða mikið. Þannig að þetta held ég að sé til verulega mikilla bóta.
    Í 19. gr. er sérstaklega hnykkt á um það að jafnan sé fyrir hendi fullnægjandi húsnæði og annar

aðbúnaður, þar með taldar skólalóðir. Þarna er kveðið sterkar á en var í fyrri lögum. Það er fullkomin ástæða til þess því að skólalóðir víðs vegar út um land, sérstaklega við smærri skóla, eru ófullnægjandi og þar vantar gífurlega mikið á að yfirleitt sé áhugi fyrir að bæta um. Þarna held ég að sé mjög nauðsynlegt að kveðið sé svolítið sterkar að og það er gert hér.
    Hv. 18. þm. Reykv. spurði aðeins um 19. gr., hvernig skólanefnd ætti að sjá um að skólaskyld börn í skólahverfi njóti lögboðinnar fræðslu. Það er svo kveðið á í þessum lögum að fræðsluráð og fræðslustjóri í umboði menntmrn. eigi að sjá um þetta. Á því er í mínum huga enginn vafi hvar slíkt á að gerast. Hins vegar vil ég taka undir varnagla þingmannsins við þeirri grein, sem er reyndar óbreytt frá fyrri lögum, 22. gr. um setu nemenda á fundum skólastjóra og kennararáðs. Ég tel að þetta væri rétt að athuga betur. Þrátt fyrir ákvæði þessara laga veit ég ekki til að þetta sé almennt stundað og kann þó að vera, einkum í skólum með elstu bekki. Það er allt annað mál hvort þeir sitja á kennarafundum. En ég tek undir orð þingmannsins að á fundum skólastjóra og kennararáðs er fjallað um viðkvæm innri mál skóla, um kennara og ýmislegt sem ég held að nemendur eigi ekki endilega að hafa rétt til þess að fylgjast með hverju sinni.
    Í sambandi við 21. gr. nefndi hv. 18. þm. Reykv. þá hugmynd að lögfesta foreldrafélög. Það tel ég fráleitt því svo erfitt sem er að fá foreldrafélög til starfa held ég að það yrði enn þá erfiðara með lögþvingunum og væri ekki til neins. Það væru þá kannski félög sem væru stofnuð löglega og hefðu heiti en ekkert annað. Ef foreldrar sjálfir í hverju skólahverfi hafa ekki áhuga á að starfa með skólanum þá er fátt sem getur knúið þá til þess. Ég tel að það sem kemur fram í greininni, ,,starfsmönnum skóla er skylt að efla sem mest``, sé það næsta sem við komumst því að virkja foreldra. Að vísu þarf ekki alls staðar að gera það því víða eru foreldrar mjög virkir í starfi skóla, en hitt er þó því miður til.
    Það er ánægjulegt í 25. gr. að framkvæmdaáætlanir skuli miðast við einsetinn skóla. Reyndar er það víða þannig að það þarf ekki svo mjög mikið að breytast til þess að skóli verði einsetinn. Víða er það svo, þó annars staðar vanti verulega á húsnæði. En það hefur oft verið rætt um samfelldan skóla ekki síður en einsetinn. Ég fullyrði að í næstum öllum skólum er hægt að koma við samfelldri kennslu. Þar tala ég af reynslu af skólastjórn í stórum skóla þar sem var húsnæðisskortur en það er einungis um skipulagsmál að ræða sem hægt er að leysa nú þegar ef áhugi er fyrir hendi. Þar væri hægt að stíga stórt skref í rétta átt einmitt hér á höfuðborgarsvæðinu og hefur reyndar verið stigið þó nokkuð í þá áttina.
    Þá vil ég sömuleiðis lýsa ánægju minni með það að ákvæði skuli vera komið inn um að skólastjórar og fulltrúar kennara hvers skóla skuli vera með í ráðum við hönnun skólahúsnæðis. Við höfum fyrir okkur gífurlega mörg sorgleg mistök við hönnun

skólabygginga um allt land þar sem arkitektar hafa, að því er virðist, verið með tilraunastarfsemi til þess að kanna ýmsar hugmyndir sem þeir hafa fengið og sjá hvort þær gengju upp. Því miður hefur reynslan oft orðið sú að þær hafa alls ekki gengið upp. Og eftir stendur þetta minnismerki um þessar tilraunir þeirra. Sveitarstjórnir hafa oft á tíðum orðið að blæða
stórum fjárupphæðum og fengið skóla í staðinn sem var langt frá að uppfylla þeirra þarfir.
    Hér kom fram athugasemd um íþróttastarfsemi. Þetta held ég að sé greinilegt að getur ekki komið frá öðrum en fulltrúa Reykjavíkur vegna þess að æskulýðsstarfsemi og almenn félagsstarfsemi nær engan veginn yfir íþróttastarfsemi t.d. fullorðinna. Það sem ég held að sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir er að skóli, einkum og sér í lagi út um byggðir landsins, er miðstöð byggðarinnar, er hjarta samfélagsins. Þar sem íþróttasalir eru komnir við skóla fer fram blómleg starfsemi meginhlutann af sólarhringnum. Og einmitt íþróttastarfsemi fullorðinna, sem ég held að megi alls ekki draga út úr þessu, er af hinu góða og mjög æskileg. Ég vil undirstrika það að þessari athugasemd þingmannsins er ég ekki sammála og get ekki tekið undir.
    Varðandi valddreifingu sem felst í því að breyta ráðningarmálum þá er mikilvægt og gott atriði að hér skuli vera komið inn ,,ráðning`` í stað ,,setningar`` og ,,skipunar`` og ég heyri almennt hjá skólamönnum að þeir taka undir heilum hug. Það er af hinu góða. Ég geri ekki athugasemdir við það hvort aðstoðarskólastjóri heitir svo eða yfirkennari. Hins vegar var gerð tilraun fyrir fáeinum árum til að skilgreina starf yfirkennara og setja honum erindisbréf. Þar þyrfti að gera betur. Verkaskipting milli skólastjóra og yfirkennara er alls ekki nógu skýr. Út af fyrir sig held ég að aðstoðarskólastjóri sé meira í takt við það sem hefur gerst í framhaldsskólanum svo það er ekki óeðlileg breyting. En jafnhliða þessu þyrfti að huga að því í framhaldinu að skýra betur verkaskiptingu þessara tveggja starfsmanna skólans.
    Í 32. gr. segir svo: ,,Skólastjóri ræður kennara, námsráðgjafa og skólasafnverði í samráði við skólanefnd,,, síðan kemur seinna: ,,Menntmrn. staðfestir ráðningar kennara, námsráðgjafa og skólasafnvarða`` og menntmrn. ræður skólastjóra. Hérna er svolítið ósamræmi sem ég vil vekja athygli menntmrh. á í frv. sjálfu og í skýringum þar sem í athugasemdum er sagt frá því sem skýringu á þessari grein að ráðning stjórnenda yrði í höndum fræðslustjóra í umboði menntmrn. Þarna þætti mér eðlilegt að í stað ,,menntmrn.`` yrði sett í greinina: fræðslustjóri ræður skólastjóra í umboði menntmrn. Það er í samræmi við þær skýringar sem eru gefnar og í samræmi við þá framkvæmd sem fyrirhuguð er í þessum efnum.
    Í 33. gr. er ráðningum flýtt fram til 1. maí frá 1. júlí sem nú er. Það ákvæði er til mikilla bóta. Það hefur löngum staðið skólastarfi fyrir þrifum, var reyndar fyrir nokkrum árum flýtt frá 1. ágúst, reyndar 1. sept. upphaflega. Það er nauðsynlegt að hver skóli

viti að vori nokkurn veginn hvaða starfsliði hann hefur á að skipa ef kennaramál þróast með þeim hætti, sem við vonum, að við fáum starfslið fyrir skólann eins og lög standa til. Það er reyndar ekki hægt að segja það um mitt umdæmi sem nær ekki einu sinni að uppfylla það að hálfu, en annars staðar hefur þetta batnað og ég vona að það sé fyrirboði þess að svo muni verða í næstu framtíð. Árganga- og fagstjórn er
þegar orðið staðreynd og er farin að skila árangri og á eftir að skila enn betri árangri.
    Sérstakri ánægju vil ég lýsa yfir með 41. gr. Ég held að það sé einmitt ástæða til að undirstrika það að nokkuð hefur verið óttast að þeir sem koma úr dreifbýlinu væru á móti ákvæði um það að reglulegur starfstími grunnskóla skuli vera níu mánuðir. Og vissulega heyrir maður enn þá andóf gegn þessu í sveitunum. Það fer þó minnkandi og ber margt til. Börn eru ekki jafnalgildur vinnukraftur í sveitum eins og áður var. Helstu rök sem færð eru fram eru kannski sauðburðurinn á vorin en þetta hefur þá verið leyst með því að gera undanþágur að einhverju leyti þar sem aðstæður eru þannig en það eru færri og færri staðir sem á því þurfa að halda. Ég held að þetta sé eitt af þýðingarmeiri atriðunum í þessu frv., að við förum að samræma skólahald á Íslandi hvar sem er á landinu og búum ekki við það eins og verið hefur um áratuga skeið að þeir nemendur sem koma úr þéttbýlinu fái á annað ár og jafnvel meiri skólagöngu á sínum grunnskólatíma en þeir sem búa aftur í dreifðustu byggðunum. Þetta er eitt af meginatriðum sem ég held að skipti máli þarna.
    Þá vildi ég aðeins víkja nokkrum orðum að 42. gr. og athugasemd sem kom frá hv. 18. þm. Reykv. um orð sem þarna er inni, um leikræna og listræna tjáningu. Ég vil vekja sérstaka athygli þingmannsins á að það er þó nýtt að fá þetta inn í frv. Og þar er þó skref í þessa átt að mínu mati.
    Ég get ekki búist við því að neinar horfur séu á því á næstunni að við fáum leikara inn í skólana til þess að sinna leikrænni og listrænni tjáningu. Ég get heldur ekki séð að það sé nauðsynlegt vegna þess að leikræn og listræn tjáning er notuð til annars en að fullmennta leikara. Hún hefur verið notuð um árabil í kennaranámi, á námskeiðum Kennaraháskólans og er núna talin ómissandi og nauðsynlegur þáttur í kennslu, bæði yngri barna og ekki síður þeirra eldri. Ég ætla ekki að vanmeta leikara og það nám sem þeir hafa að baki og kannski ekki síst það sem þeir skila út í dreifbýlið með því að halda námskeið. Þeir kynna sína grein með því að kenna þetta einmitt kennurum til þess að þeir geti nýtt þetta. Ég vil ekki vanmeta það eða vanþakka því það er okkur mikils virði. Og ég tel að það að hafa fengið leikræna og listræna tjáningu inn í grunnskólafrumvarpið sé mjög veigamikið spor í rétta átt. Ég vildi geta um þetta því að það komu fram athugasemdir um það áðan.
    Hins vegar vildi ég beina um það spurningu til ráðherra hvernig standi á því að út hefur fallið --- eða það er að finna annars staðar og mér hafi sést yfir

það --- það sem var í fyrri lögum um ávana- og fíkniefni. Í þeim lögum sem tóku gildi um áramót er vísað til neðanmálsgreinar. Það er f-liður, fræðsla um áhrif af neyslu áfengis og annarra ávana- og fíkniefna. Þar er vísað til neðanmálsgreinar þar sem segir að þetta sé vegna laga nr. 23/1983 og kemur þess vegna inn í lögin um síðustu áramót. Ég vildi að þetta væri athugað. Ég tel að þarna sé um svo þýðingarmikið atriði að ræða að það megi ekki falla út. Hafi það verið vegna vangár eða annars þá vildi ég mælast til að úr því yrði bætt eða þá skýrt fyrir mér hvar þetta væri annars staðar. Reyndar tel ég að þetta eigi ekki að vera með öðru, þetta eigi að vera ákveðið og sérstaklega svo þýðingarmikið sem þetta er og svo mikill þáttur sem þetta er í samfélagi okkar og mikil nauðsyn að vinna gegn þessu. Skólarnir mega ekki bregðast sínu hlutverki í því.
    Ég get ekki fallist á að markmið 44. gr. séu metnaðarlítil, að gera þetta á þennan hátt. Þetta hlýtur að taka tíma, svo miklum fjármunum sem þarf til að kosta. En ég er líka þeirrar skoðunar að þeim fjármunum þurfum við að kosta til. Það er alveg rétt sem bent var á að í 7. bekk, sem var 6. áður, er þetta óbreytt og í 8., 9. og 10. bekk er þetta lágmarkið, það er alveg rétt. Hins vegar mundi maður ætla að þegar aukningin hefur orðið fyrir neðan, sem er meiri en þessu nemur, hljóti að hafa náðst þó nokkur jöfnuður á. Og það er reyndar svo með nemendur í eldri bekkjum að þá er komið býsna margt annað sem þeir eru að starfa. Þetta er fólk sem er í tónlistarnámi, þetta er fólk sem stundar íþróttir, þetta er fólk sem stundar félagsstörf og það er oft feikilega mikið vinnuálag á fólki einmitt á þessum aldri. Ég er því ekki viss um að þessi jöfnun og aukning sé slæm. Það er alveg rétt að 25 stundir er kannski ekki það sem við stefnum að enn þá en það er líka stefnt að því að auka það með tímanum.
    Talað er um jólaleyfi nemenda í 45. gr. Ég held að ekki sé verið að setja lög um að skikka kennara til að vinna í leyfum þó e.t.v. væri ástæða til þess, ég veit það ekki, heldur sé fyrst og fremst verið að setja inn í lögin að nemendurnir eru það sem þessi lög snúast um frekar en kennarar. Hins vegar er það svo í núgildandi kjarasamningum kennara að þeir vinna allmargir úti á landi í átta mánaða skóla. Þeim er gert skylt, ef þess er krafist, að mæta níu mánuði til vinnu. Þeim er óvíða gert að gera þetta þó það sé vaxandi að skólastjórar þessara skóla noti sér að einhverju leyti þessa heimild fyrir og eftir skóla. Það sem hefur leitt síðan af því er að kennarar sjá sér einfaldlega hag í því að skólatími verði lengdur. Það hefur tekið langan tíma
að þetta ákvæði í kjarasamningunum komist til framkvæmda. Það er smátt og smátt að vinna á og það verður til þess að auðvelda ákvæðin sem áður var getið um, níu mánaða skóla, sem ég held að við ættum að stefna að. Reyndar hafa fræðslustjórar unnið markvisst að því undanfarin ár eins og sést á þeirri töflu sem vísað var til áður. Við eigum ekki að sætta okkur við neitt minna en að þetta verði lögleitt um

allt land, að sami skólatími verði alls staðar. Síðan er svo annað mál hvort sérstakar aðstæður geta gefið tilefni til undanþágu. Þá verða líka að vera gild rök fyrir því og þær munu ekki verða svo margar.
    Þá vil ég vekja athygli á a-lið í 47. gr. Þar segir að nemendur í bekkjardeild verði ekki fleiri en hér segir: 10 nemendur ef aldursflokkar eru fimm til sjö. Í fyrri lögum var það svo að ef skólinn samanstóð af fjórum nemendum þá var það mat bæði kennarans sem starfaði þar og fræðslustjóra að hann gæti sinnt þeim í einu lagi í einni deild. Ef einn nemandinn var hugsanlega 8 ára, annar 10, þriðji 11 og fjórði 12, þá sögðu lögin að skylt væri að kenna þeim í tveimur deildum með fullri stundaskrá. Þetta er ekki hagkvæmt, þetta er ekki nauðsynlegt. Og það er ekki gengið á rétt barna þó að þarna sé lagað til í lögunum. Þess vegna er það, eins og ég gat um í upphafi, að margt í þessum lögum tekur mið af langri reynslu og hvernig framkvæmdin hefur verið. Þá er jafnan reynt í tillögum og umsögnum þeirra sem fjallað hafa um málið, þetta er byggt á býsna mörgum álitum sem komið hafa, þá er jafnan reynt að gæta þess við hagræðingu að réttur nemandans sé ekki fyrir borð borinn. Ég held að þau ákvæði sem eru um nemendur séu yfirleitt til bóta. Það getur vel verið að það hefði mátt fara neðar og hafa enn þá færri nemendur í bekk en hér er einmitt gerður greinarmunur á því hvort við erum að tala um eldri bekki í grunnskóla eða yngri bekki. Og það held ég að sé til bóta. Það hefur löngum verið svo að yngri bekkir grunnskóla hafa verið taldir heldur ómerkilegri bekkir. Almenningur hefur því miður oft litið svo á. Hins vegar höfum við sem störfum við skólana litið svo á að þýðingarmesta kennslan væri á fyrstu tveimur til þremur skólaárunum. Ég held að það sé orðinn almennur skilningur flestra nú að þar mæði hvað mest á hæfileikum, reynslu og getu kennarans.
    Ýmis ákvæði sem eru að koma inn í skólann eru hérna fest, eins og námsráðgjafi. Þróunarsjóður er þegar tekinn til starfa, farinn að úthluta til margra merkra verkefna og ég held að þetta sé mjög til bóta. Ég vil sérstaklega fagna því að heimilt er að reka kennslugagnamiðstöð og veita þar sérfræðilega ráðgjöf og þjónustu. Þetta er einmitt í samræmi við skýrslu nefndar sem skipuð var af Birgi Ísl. Gunnarsyni 1988, ef ég man rétt, og skilaði áliti í maí 1989. Hún lagði til að kennslugagnamiðstöðvum yrði komið upp við allar fræðsluskrifstofur utan Reykjavíkur þar sem reiknað var með að Námsgagnastofnun og kennslumiðstöð hennar mundi sinna því hlutverki. Þessu er mikil ástæða til að fagna sérstaklega.
    Mig furðar nokkuð á þeirri pólitísku andstöðu sem hefur verið við grunnskólafrumvörp á þingi. Þá er ég ekki bara að ræða um þetta eina grunnskólafrv. heldur að í hvert skipti sem reynt hefur verið að koma fram með frv. til breytinga, og þá bóta oftast nær, á grunnskólalögum hefur það ævinlega mætt andstöðu og það gerir það hér líka núna. Eins og ég gat um þá gat ég ekki séð annað en að hv. 18. þm. Reykv. tæki undir velflest það sem er í þessu frv. Enda held ég að

mjög margt sem þarna kemur fram sé í góðum takti við það sem Kvennalistinn hefur verið að berjast fyrir, þ.e. að fá betri skóla fyrir landsmenn. Þetta var minn skilningur á flestu því sem hún sagði þó að minni háttar agnúar væru. Og það tek ég undir, það eru auðvitað agnúar á þessu. En ég tel þá vera minni háttar. Ég sé ekkert í þessu frv. núna sem réttlæti það að menn fari að hnotabítast pólitískt um það, jafnvel þó þeir hafi ekki meiri áhuga á þessu frv. en svo að það eru örfáir hér í salnum. Ég held það sé ekki áhugi á grunnskólamálum sem veldur þessu andófi heldur eitthvert pólitískt metnaðarmál. Og ég verð að segja það, hafandi starfað við skóla í 30 ár, að mér finnst það ansi mikil léttúð af alþingismönnum að leyfa sér þetta. Að leyfa sér að hindra framgang bóta og breytinga á lögum um grunnskólann sem er þýðingarmesta stofnun okkar þjóðfélags. Þetta vil ég endilega að komi skýrt fram vegna þess, og ég endurtek, mér þykir þetta léttúð og mér þykir ámælisvert að þetta skuli vera gert. Þetta er ekki í fyrsta skipti núna heldur í hvert skipti sem þetta hefur komið fram. Það er ekki við einn flokk að sakast, þetta eru þingmenn í heild. Svona á ekki að vinna á þingi að mínu mati. Það á ekki að vinna þannig að kæfa vegna pólitískra hagsmuna mál sem geta og þurfa að ná framgangi. Mál sem varða þjóðfélag okkar og grunninn að því. Mér finnst ekki rétt á málum haldið hér.
    Mér finnst um þá agnúa sem eru á þessu frv. að þeir séu smávægilegir. Þá má sníða af í nefnd með mjög lítilli fyrirhöfn. Fyrst og fremst er þetta frv. aðlögun að sjálfri framkvæmdinni, að því sem orðið hefur og því sem við viljum
gera. Og ég tek undir það sem við viljum gera í þessu. Ég vil líka ítreka það aftur að hér er ekki um að ræða frv. sem menntmrh. er að smíða og henda inn í
þingið. Hér er um að ræða frv. sem byggt er á öllum þeim tilraunum sem gerðar hafa verið frá 1974, á allri þeirri framkvæmd sem hefur verið á lögunum síðan. Það er verið að draga saman reynslu þessara ára til úrbóta og það er verið að draga saman þær tillögur sem gerðar hafa verið af öllum þingflokkum hér á Alþingi til þess að gera eitt gott frv. Þess vegna vona ég að þetta frv. fái góðan byr og fái gott brautargengi hér í þinginu og vona að það verði að lögum hið fyrsta.