Grunnskóli
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. menntmrh. þau svör sem hann veitti hér við spurningum þó vissulega hafi hann ekki svarað nærri öllum þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Vonandi fást svör við þeim á seinni stigum í meðförum þessa máls. En ég get ekki stillt mig um að minnast aðeins á orð hv. þm. Péturs Bjarnasonar. Nú háttaði svo til þegar hann flutti mál sitt að sú sem hér stendur var eini þingmaðurinn í salnum. Að auki voru hér staddir hæstv. menntmrh. og virðulegur forseti. Hann fjölyrti nokkuð um að grunnskólalög væru gerð að pólitísku bitbeini og atyrti menn fyrir það háttalag. Í máli mínu tel ég að ég hafi aftur og aftur lýst yfir ánægju minni með þetta frv. að mjög mörgu leyti. ( PB: Ég sagði það skoðun mína.) Ég skildi orð þingmannsins þannig að hann væri að atyrða okkur hin fyrir að líta ekki málefnalega á hlutina heldur láta einhverjar pólitískar línur ráða skoðunum. Ég vil bara ítreka það að mér finnst flest í þessu frv. til bóta og horfa í jákvæða átt þó að vissulega megi sníða af ýmsa agnúa og er sjálfsagt að nefna þá. Mitt aðalumkvörtunarefni var að ekki skyldu vera uppi áætlanir um að hraða þessum markmiðum eða hraða því að þeim yrði náð meir en gert er ráð fyrir í frv. Og með þá skoðun sný ég ekki aftur.
    Einn smámisskilning langar mig til þess að leiðrétta í máli hv. þm. Það var þegar hann virtist hafa skilið orð mín svo að sérmenntað fólk ætti að annast kennslu í leikrænni tjáningu í skólunum. Það er alls ekki með það að markmiði að mennta alla nemendur sem leikara fremur en það er markmið tónmenntakennslu að gera alla að tónlistarfólki eða myndlistarkennsla að gera alla að myndlistarmönnum. En þetta er nú einu sinni sérfag eins og svo margt annað og mundi auðvitað nýtast nemendum í öðrum námsgreinum. Ekki hef ég á móti því að hinir almennu kennarar læri eitthvað til þessara hluta en ég álít að grunninn þurfi fagfólk að leggja. (Gripið fram í.) Já, að orðið sjálft skuli komið inn
en ég spyr um framkvæmd þess. Þar sem þetta er ekki námsgrein sem er tilgreind sérstaklega þá hefur mér vitanlega aldrei verið ráðið sérmenntað fólk til þessara starfa. Ég veit reyndar ekki hvort það stendur til því það er vissulega svo að sérstaklega íslenskukennarar hafa mjög oft haft það á orði að þeir séu fullfærir til þessarar kennslu. Ég er fyrst og fremst að vekja athygli á því að þeir eins og aðrir geta vissulega sinnt hluta af þessari kennslu og tileinkað sér eitthvað af þessu fagi. En ef þarna á að vera um alvarlega og markvissa kennslu að ræða þá verður auðvitað að koma til sérmenntað fólk í þessu eins og öðrum greinum.