Mannanöfn
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um mannanöfn. Má segja að það hafi verið lengi í undirbúningi. En lokaverkið að undirbúningi frv. vann nefnd sem ég skipaði 2. okt. 1989. Í henni áttu sæti dr. Guðrún Kvaran orðabókarritstjóri, formaður, dr. Ármann Snævarr, fyrrv. hæstaréttardómari, Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri og Svavar Sigmundsson dósent. Þá starfaði Skúli Guðmundsson, skrifstofustjóri Þjóðskrár, með nefndinni. Áður hafði fyrrv. menntmrh. falið þeim Ármanni Snævarr og Hallgrími Snorrasyni að endurskoða gildandi mannanafnalög en því verki höfðu þeir ekki að fullu lokið.
    Þessi mál komu til ítarlegrar meðferðar á Alþingi 1971. Þá var lagt fram frv. til laga sem var samið af nefnd sem var skipuð af menntmrh. 1967. Urðu miklar umræður um það frv. hér á hinu virðulega Alþingi. Má segja að frv. hafi dagað uppi og var vísað til ríkisstjórnarinnar í seinni lotunni sem gerð var að því hér á hv. Alþingi. Það frv. sem hér birtist byggist á þeirri reynslu sem fengin er frá því að gildandi lög um mannanöfn frá 27. júní 1925 voru sett. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að forræði þessa málaflokks flytjist frá menntmrh. til dómsmrh. ef frv. þetta verður að lögum.
    Þetta frv. byggist að talsverðu leyti á mannanafnafrv. frá 1971 en í ýmsum greinum er þó vikið frá því í veigamiklum atriðum. Þar má sérstaklega nefna að ekki er gert ráð fyrir að heimilt verði að taka upp ný ættarnöfn. Á hinn bóginn er í þessu frv. komið talsvert til móts við óskir um heimildir til notkunar ættarnafna á íslenskum börnum erlendra ríkisborgara sem búsettir eru hér á landi. Gert er ráð fyrir að ættarnöfn geti gengið jafnt í kvenlegg sem í karllegg og menn geti kennt sig jafnt til föður eða móður. Þá skal tekið fram að í frv. er enn fremur lagt til, eins og ég gat um áðan, að dómsmrn. fari
framvegis með mál sem snerta mannanöfn en ekki menntmrn. eins og nú háttar.
    Þetta frv. er mikið styttra en frv. frá 1971. Það stafar af því að færri ákvæði eru um ættarnöfn en voru í fyrra frv. og af því að ekki þykir nauðsynlegt að hafa ítarleg ákvæði í lögum um skráningu nafna á þjóðskrá enda er nú komin fastari skipan á þau mál en þegar fyrra frv. var samið og flutt hér á hv. Alþingi.
    Hér geri ég næst, herra forseti, grein fyrir helstu tillögum frv.
    I. kafli frv. fjallar um eiginnöfn. Þar er í upphafi haldið þeirri meginstefnu sem fram kemur í gildandi lögum, og einnig er í frv. frá 1971, að barni skuli gefið eitt eiginnafn eða tvö. Nafnið skal vera íslenskt, hafa unnið sér hefð í málinu og falla að íslensku málkerfi. Kveðið er á um skyldu til nafngjafar og mælt fyrir um að gefa skuli barni nafn innan hálfs árs frá fæðingu. Þá eru ákvæði um nafngjafir við skírn eða með tilkynningu til presta, forstöðumanna skráðra trúfélaga eða Þjóðskrár og um eftirlit þessara aðila með nafngjöfum. Þetta eftirlit byggist á þrennu fyrst

og fremst, þ.e. skrá um heimil nöfn sem mannanafnanefnd skal semja, á eftirliti presta, forstöðumanna skráðra trúfélaga og Þjóðskrár og málskoti til mannanafnanefndar í álitamálum um nafngjafir og loks á þeirri skyldu Þjóðskrár að taka ekki nafn til skráningar nema það sé á mannanafnaskrá eða samþykkt af mannanafnanefnd.
    Í gildandi lögum eru fyrirmæli um útgáfu skrár um þau mannanöfn sem bönnuð eru. Slík skrá hefur aldrei verið gefin út og eðli málsins samkvæmt er vandséð að slík skrá verði nokkurn tímann samin svo raunhæft sé. Í þessu frv., eins og í frv. frá 1971, er kveðið á um að samin verði skrá um þau eiginnöfn sem heimil teljast. Er þessi skrá talin ein helsta undirstaða þess að unnt verði að framfylgja lögunum auk þess sem hún verði öllum almenningi til leiðbeiningar við nafngjafir. Er lagt til að prestar, forstöðumenn skráðra trúfélaga og starfsfólk Þjóðskrár skuli ekki samþykkja nöfn, sem ekki eru á skránni, heldur skuli óskum um slíkar nafngjafir skotið til úrlausnar mannanafnanefndar. Skráin á því ekki að standa í vegi fyrir því að ný nöfn séu tekin upp auk þess sem hún hlýtur að breytast eftir því sem starfsemi mannanafnanefndar miðar.
    Rétt er að nefna eitt álitamál sérstaklega í tengslum við ákvæði I. kafla um eiginnöfn. Sem fyrr segir er lagt til í 2. gr. að eiginnöfn skuli vera íslensk, hafa unnið sér hefð í málinu og falla að íslensku málkerfi. Í 8. gr. er þó gert ráð fyrir að þessar skorður gildi ekki um nöfn erlendra barna fæddra hér á landi, þ.e. ef foreldrar skilgetins barns eða móðir óskilgetins barns hafa erlent ríkisfang. Í sömu grein er enn fremur lagt til að ákvæði 2. gr. gildi ekki að fullu um íslensk börn ef annað foreldra er erlendur ríkisborgari eða hafi verið það. Samkvæmt þessari tillögu yrði heimilt að gefa börnum af slíkum blönduðum uppruna tvö nöfn, annað íslenskt en hitt erlent. Þegar hefur verið vikið að því að í tilvikum sem þessum eru óskir um þess háttar nafngjafir mjög algengar. Enginn vafi er á að verði þær bannaðar munu lögin verða ákaflega erfið í framkvæmd. Hér er úr vöndu að ráða. Með því að veita til þess heimild í lögum að barni, sem á annað foreldrið íslenskt en hitt erlent, megi gefa erlent eiginnafn auk íslensks, er að nokkru grafið undan meginstefnu laganna. Auk þess verða réttindi slíkra foreldra til
nafngjafa ríkari en réttindi alíslenskra foreldra og því kynni að mega halda því fram að í þessu fælist mismunun. Á móti vegur að það sýnist sanngjart að mörgu leyti að barn af blönduðum uppruna fái, auk íslensks eiginnafns, að bera annað nafn sem er gjaldgengt í heimalandi hins erlenda foreldris þess. Hér er yfirleitt um mikið tilfinningamál að ræða og takmörk laganna að þessu leyti eru oft túlkuð sem skerðing á persónulegum réttindum manna og kunna að varða við mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland er aðili að. Að mati þeirra sem fjallað hafa um þessi mál á okkar vegum í menntmrn. vega þó þyngst þau rök að verði þessi heimild ekki veitt er hætt við að lögin verði óframkvæmanleg að þessu leyti. Þannig

yrði sífellt reynt að sniðganga þau, t.d. með því að gefa börnum nöfn erlendis, en á því hefur nokkuð borið að undanförnu.
    II. kafli frv. fjallar um kenninöfn. Á sama hátt og í frv. frá 1971 tekur hugtakið kenninafn í þessu frv. til hvers konar kenningar samkvæmt lögunum, þ.e. er menn kenna sig til eiginnafns föður eða móður í eignarfalli að viðbættu son eða dóttir og til ættarnafns. Sem fyrr segir er gert ráð fyrir að menn geti kennt sig jafnt til föður eða móður og að jafnt sé heimilt að láta ættarnöfn ganga í kvenlegg sem karllegg. Hins vegar er lagt til að mönnum sé aðeins heimilt að bera eitt kenninafn. Í þessu sambandi skal bent á að svo virðist sem vaxandi tilhneigingar gæti til þess að menn vilji bera tvö kenninöfn. Dæmi um þetta er að konur, sem giftast mönnum er bera ættarnafn, óska stundum eftir því að taka upp ættarnafn eiginmannsins án þess að fella niður eigið kenninafn, hvort sem það er ættarnafn eða hefðbundið föður- eða móðurnafn. Sú nefnd sem samdi þetta frv. er andvíg því að þetta verði heimilað, bæði vegna þess að hér er ekki um íslenska málvenju að ræða og vegna hins að með þessu sýnist hætta á að hér geti sótt í sama far og í nágrannalöndum og leitt til ásóknar til tvöfaldra eftirnafna með bandstriki. Loks má geta þess að dæmi eru um að foreldrar vilji kenna börn sín til eiginnafna beggja og færa gjarnan fram jafnréttisrök í því sambandi. Þetta samrýmist hins vegar ekki íslenskri nafnvenju og þykir rétt að það verði látið nægja að menn geti valið um til hvors foreldranna barn sé kennt.
    Tillögur frv. um ættarnöfn eru um sumt svipaðar tillögum frv. frá 1971 en um sumt ólíkar. Á sama hátt og í frv. frá 1971 er nú gert ráð fyrir að hér á landi haldist tvöfalt kerfi kenninafna, þ.e. hið gamla kerfi föður- og móðurnafna og kerfi ættarnafna. Ekki þykir raunhæft að leggja niður ættarnöfn, sem ekki teljast lögleg í skilningi laga nr. 54/1925, og að þau verði afnumin. Telja má að í því fælist í mörgum tilvikum veruleg skerðing á mannréttindum þar sem slík ættarnöfn yrðu vafalaust talin hafa unnið sér hefð fyrir afskiptaleysi stjórnvalda. Því er gert ráð fyrir að þeir menn, sem nú bera ættarnöfn skv. þjóðskrá, megi bera þau áfram og sama gildi um niðja þeirra hvort heldur er í karllegg eða kvenlegg.
    Ólíkt því sem var í frv. frá 1971 er í þessu frv. ekki gert ráð fyrir að heimilt verði að taka upp ný ættarnöfn. Hér gætir þeirrar skoðunar að æskilegt sé að varðveita hið gamla kenninafnakerfi og því sé ekki æskilegt að veita heimildir til upptöku nýrra ættarnafna. Þetta er og í samræmi við afgreiðslu Alþingis á frv. 1971. Einn nefndarmanna sem undirbjó þetta frv., Ármann Snævarr, hefur þó tekið fram að hann hefði kosið að ganga lengra í þessum efnum og gera ráð fyrir að unnt væri að taka upp ný ættarnöfn með þeim hætti og þeirri gerð er greinir í II. kafla frv. 1971. Hann bendir í því sambandi á að ella fælist mismunun í því tvöfalda kerfi kenninafna sem gert er ráð fyrir í tillögum nefndarinnar.
    Að einu leyti gengur þetta frv. nokkru lengra en

hið fyrra hvað varðar ættarnöfn. Hér er um það að ræða að gert er ráð fyrir að barn erlends manns og íslenskrar konu megi bera ættarnafn föður síns. Með þessu er í reynd opnað fyrir notkun erlendra ættarnafna, a.m.k. miðað við það sem gert er ráð fyrir í gildandi lögum. Hins vegar felst í þessu viðurkenning á þeirri framkvæmd sem verið hefur, þ.e. að ekki hefur verið talið unnt að standa gegn notkun ættarnafna af þessu tagi. Er meðal annars talið vafasamt að bann við að börn erlends manns fái að bera ættarnafn hans fái staðist gagnvart mannréttindasáttmála Evrópu. Í frv. er til mótvægis þessu ákvæði í 11. gr. Þar er tekið fram að auk þess að kenna sig til ættarnafns föður megi barn erlends manns og íslenskrar konu kenna sig til móður sinnar eða hafa ættarnafn hennar ef til er. Þá er og heimilt samkvæmt sömu grein að barnið beri íslenskt kenninafn sem lagað er að hinu erlenda eiginnafni föðurins, enda hafi mannanafnanefnd samþykkt það.
    Auk þess, sem hér hefur verið rakið, er gert ráð fyrir því í frv. að manni sé ekki skylt að bera ættarnafn þótt hann hafi til þess rétt. Jafnframt er heimilað að menn felli niður ættarnöfn, sem þeir hafa borið, eða taki upp ættarnafn sem þeir hafa rétt til. Lagt er til að þó sé að öllu jöfnu einungis unnt að gera slíka nafnbreytingu einu sinni á ævi hvers manns.
    III. kafli frv. fjallar svo um mannanafnanefnd, skipan hennar og verkefni. Hlutverk nefndarinnar samkvæmt frv. er mjög áþekkt því sem gert var ráð fyrir í frv. frá 1971. Mannanafnanefnd er nefnd sérfræðinga samkvæmt frv. og er því
lagt til að tveir nefndarmenn verði skipaðir eftir tilnefningu heimspekideildar Háskólans en einn eftir tilnefningu lagadeildar. Ætlast er til þess að mannanafnanefnd gegni í aðalatriðum þríþættu hlutverki, þ.e. að semja skrá um þau eiginnöfn sem heimil teljast samkvæmt lögunum, að fella úrskurði og vera til ráðuneytis um nafngjafir. Af þessu leiðir að nefndin verður að starfa með reglubundnum hætti árið um kring og hafa fastan skrifstofutíma þannig að jafnan megi leita til hennar með skömmum fyrirvara. Óhjákvæmilegt er að nefndin hafi starfsmann og er gert ráð fyrir að hún hafi á að skipa sérfræðingi í hálfu starfi. Ætla má að hlutverk starfsmannsins verði að annast samskipti við þá sem fara með framkvæmd laganna og við almenning og að undirbúa úrskurði nefndarinnar. Þá gæti hann einnig tekið þátt í samningu mannanafnaskrár en það verkefni hlýtur þó að koma mest til kasta nefndarinnar. Í upphafi þarf mikið átak til að koma saman mannanafnaskránni en jafnframt er sýnt að samning slíkrar skrár er stöðugt verkefni þar sem skráin verður sífellt í mótun og endurskoðun. Um skipan nefndarinnar, verkefni og kostnað af starfsemi hennar er fjallað ítarlega í athugasemd með 17. og 18. gr. frv.
    Í IV. kafla frv. eru ýmis ákvæði um skráningu og notkun nafna. M.a. er kveðið á um gildistöku nafnbreytinga, um samræmingu í skráningu nafna á þjóðskrá og nafnnotkun manna. Til þess er ætlast að í skiptum við opinbera aðila, í lögskiptum og við

samningsgerð riti menn ævinlega nafn sitt eins og það er skráð í þjóðskrá. Flest ákvæði þessa kafla voru í frv. frá 1971 og um sum gilda hliðstæðar reglur í norrænum mannanafnalögum.
    V. kafli frv. geymir ákvæði til að hindra misnotkun nafns annars manns, ákvæði um viðurlög, heimild til setningar reglugerðar um gildistöku laganna og kynningu. Í ákvæðum þessa kafla felst m.a. að mál er snerta mannanöfn flytjast frá menntmrh. til dómsmrh.
    Loks eru í frv. tvö ákvæði til bráðabirgða. Hið fyrra lýtur að tafarlausri skipan mannanafnanefndar svo ekki verði dráttur á því að hún hefji störf og hið síðara segir til um hvernig fara skuli með álitamál um nafngjafir þar til mannanafnaskrá hefur verið gefin út.
    Að lokinni þessari framsögu, herra forseti, legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.