Háskóli Íslands
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir um breytingu á lögum um Háskóla Íslands hefur þegar sætt meðferð í hv. efri deild og var þar samþykkt samhljóða óbreytt eins og það kom frá ríkisstjórninni.
    Frv. gerir ráð fyrir breytingum á stjórnkerfi Háskólans. Tilgangurinn er í fyrsta lagi sá að auka valddreifingu og sjálfstæði rekstrareininga innan Háskólans.
    Í öðru lagi miða tillögurnar að því að starfsmenn Háskólans, hvort sem þeir sinna fyrst og fremst kennslu og rannsóknum eða stjórnsýslustörfum, vinni saman að stefnumótun og framkvæmd málefna Háskólans.
    Í þriðja lagi er lögð áhersla á að eðlilegri verkaskiptingu og sérhæfingu verði komið á innan hinnar sameiginlegu stjórnsýslu þannig að skyld verkefni falli undir sömu stjórnunareiningu.
    Í fjórða lagi miða tillögurnar að því að treysta sjálfstæði Háskólans með lýðræðislegu stjórnskipulagi.
    Þar sem frv. þetta var afgreitt samhljóða í hv. efri deild og um það virðist vera rík samstaða á hinu virðulega Alþingi tel ég ástæðulaust, herra forseti, að fara frekari orðum um málið hér í síðari deild og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.