Sjómannalög
Föstudaginn 06. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir hönd hæstv. samgrh. fyrir frv. til laga um breytingu á sjómannalögum en frv. hefur þegar sætt meðferð í hv. efri deild.
    81. gr. sjómannalaganna hljóðar nú svo: ,,Ef skipverji rís upp á móti skipstjóra eða þeim manni sem er í skipstjóra stað eða skorast undan hlýðni við þá en beitir þó eigi ofbeldi eða ógnar með því sætir hann sektum eða varðhaldi ef sakir eru miklar. Hið sama gildir ef skipverji óhlýðnast réttmætum fyrirmælum hvers þess yfirmanns sem segja má honum fyrir verkum.`` Þetta ákvæði byggðist fyrst og fremst á ríkjandi viðhorfi í íslensku þjóðfélagi til að tryggja öryggi sjófarenda svo sem unnt væri. Árið 1960 fullgilti Ísland alþjóðasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um afnám nauðungarvinnu. Það er talið að þetta ákvæði sjómannalaga stangist á við aðild Íslands að þessari alþjóðasamþykkt.
    Nefndin sem fjallaði um málið í efri deild, hv. samgn., lagði til að frv. yrði samþykkt með samhljóða atkvæðum og svo var einnig gert í deildinni.
    Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.