Beiðni um skýrslu um nýtt álver
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Hinn 19. febr. sl. skrifuðu nokkrir hv. alþm. bréf til forseta Sþ. og báðu um skýrslu frá hæstv. iðnrh. um nokkur atriði er varða nýtt álver. Þess er getið í skýrslubeiðninni að þess sé óskað að í þessari skýrslu verði gerð grein fyrir nokkrum atriðum.
    Í fyrsta lagi er spurt hvenær gert sé ráð fyrir að frv. um heimild til að semja við erlend álfyrirtæki um byggingu Atlantal-álversins verði lagt fram, í öðru lagi hvert sé meginefni þess frv., í þriðja lagi hvort ríkisstjórnin hafi mótað afstöðu sína til einstakra atriða málsins og loks um staðsetningu álvers.
    Ég átti von á því, virðulegur forseti, að hæstv. iðnrh. yrði hér staddur í dag en mér varð það ljóst nú við upphaf þessa fundar að hæstv. iðnrh. hefur leyfi. Ég hef spurst fyrir um það í ráðuneyti hæstv. ráðherra og hann mun vera erlendis í opinberum erindum og kemur ekki aftur fyrr en 12. þessa mánaðar. Þetta mun þýða það að komi skýrslan ekki núna í dag eða á morgun mun líða meira en tveir mánuðir frá því að þetta bréf var sent og þar til viðkomandi skýrsla verður lögð á borð hv. þm.
    Öllum er ljóst að hér er fjallað um mál sem hefur verið til umfjöllunar í hæstv. ríkisstjórn og ætla mætti að tiltölulega auðvelt væri fyrir hæstv. ráðherra að láta þau atriði koma fram sem spurt er um í skýrslubeiðninni. Nú virðist hins vegar vera svo, þar sem hæstv. ráðherra er fjarverandi, sem ekki sé von á skýrslunni fyrr en í fyrsta lagi eftir páska. Þetta er að mínu áliti nokkuð óviðfelldið, sérstaklega í ljósi þeirra umræðna sem hafa átt sér stað í fjölmiðlum að undanförnu þar sem nokkuð nákvæmlega hefur verið greint frá þeim ágreiningi sem á sér stað innan hæstv. ríkisstjórnar og í stjórnarflokkunum um þetta mál. Mig langar, virðulegur forseti, þess vegna til að fara þess á leit að eftir því verði gengið að þessi skýrsla verði lögð fram hið allra fyrsta og beini þeim tilmælum jafnframt til starfandi iðnrh. sem væntanlega er hæstv. utanrrh. að hægt verði að ræða þessa skýrslu sem allra fyrst.
    Þótt ekki séu bein ákvæði um það í þingsköpum Alþingis að skýrslur skuli leggja fram innan tiltekinna tímamarka hlýtur það að liggja í augum uppi að hæstv. ráðherra ber að skila slíkri skýrslu við fyrsta tækifæri. Nú eru brátt liðnir tveir mánuðir frá því að beðið var um þessa skýrslu og ljóst er af umfjöllun fjölmiðla að hæstv. ríkisstjórn hefur fjallað um flest þeirra atriða sem beðið var um að svarað yrði í þeirri skýrslubeiðni sem ég hef margoft vitnað til. Það er því beiðni mín, virðulegur forseti, bæði til hæstv. forseta og eins til hæstv. starfandi iðnrh., að þeir beiti sér fyrir því að undinn verði bráður bugur að því að skila þessari skýrslu til Alþingis þannig að hægt verði að taka hana upp til umræðu og umfjöllunar eins og lög gera ráð fyrir.