Skoðunarferðir um Hótel Borg
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Í hólfum hv. alþingismanna, væntanlega allra, mun vera bréf frá skrifstofu Alþingis, það er bréfhausinn. Í gamla daga hét þetta bara Alþingi með góðu og fallegu letri. Hér er kominn nýr bréfahaus sem ég kannast nú ekki við, en látum það gott heita. Bréfið er dagsett 6. apríl og er svohljóðandi:
    ,,Skoðunarferðir um Hótel Borg.
    Ákveðið hefur verið að bjóða þingmönnum að skoða fasteignina Pósthússtræti 11, Hótel Borg, undir leiðsögn Gunnars Ingibergssonar. Gengið verður um húsið mánudaginn 9. apríl og þriðjudaginn 10. apríl kl. 12 og 13 hvorn dag. Gunnar tekur á móti skoðunarmönnum í anddyri á þeim tíma.
    Allir þingmenn sem ekki hafa þegar skoðað húsið með kaup í huga`` --- ég endurtek: með kaup í huga --- ,,eru sérstaklega hvattir til að koma og skoða það.``
    Karl Kristjánsson skrifar undir bréfið, en hann mun vera fjármálastjóri Alþingis, tiltölulega nýráðinn. Nú langar mig að spyrja hæstv. forseta hverju þetta sæti. Hvers vegna fáum við bréf frá starfsmanni Alþingis, sjálfsagt ágætis manni? Ég hef nú ekki séð hann nema einu sinni en látum það gott heita. Það er búið að ráða heilmikið af nýju fólki hér og allt hefur það reynst mér vel sem ég hef þurft að leita til, ágætis fólk. En hvers vegna fáum við nú bréf um það að við eigum að skoða Hótel Borg með kaup í huga? Hverjir hér inni hafa kaup á Hótel Borg í huga? Ef þeir eru einhverjir ættu þeir að geta skoðað húsið hjálparlaust. Ég hef skoðað það margsinnis og að sjálfsögðu aldrei dottið í hug að Alþingi keypti það. Það er algjörlega fráleitt. En að efna til einhverrar skoðunarferðar fyrir þingmenn og bara þá sem hafi endilega viljað kaupa húsið, ekki hina sem hafi þá skoðun að ekki eigi að kaupa það. Menn geta þess vegna náttúrlega farið og sannfærst um það enn þá frekar að það er fáránlegt að kaupa þetta hús fyrir Alþingi.
    Ég verð að vekja athygli á þessu bréfi og spyrja hæstv. forseta hverju þetta sæti.