Skoðunarferðir um Hótel Borg
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Í 11. gr. þingskapalaga segir svo í 3. mgr.:
    ,,Forsetar fara sameiginlega með framkvæmdastjórn Alþingis. Þeir hafa umsjón með eignum þess og fjárreiðum.``
    Forsetar Alþingis eru hæstv. forsetar Ed. og Nd. og forseti sameinaðs Alþingis. Engar ákvarðanir eru teknar um, mér er nær að segja hin smæstu mál nema það sé gert af öllum þremur forsetum þingsins, og hingað til hefur enginn kvartað yfir því að fram hjá þessu þríeina valdi þingsins væri gengið. Það er því að sjálfsögðu sameiginleg ákvörðun okkar þriggja að þingmenn skoði húsið. (Gripið fram í.) Ég þykist ekki þurfa að segja hv. 8. þm. Reykv. að engar ákvarðanir verða teknar um þáltill. sem er í nefnd fyrr en hún kemur úr nefndinni og til meðferðar þingsins og því held ég að hér sé ekki verið að ganga á nokkurs manns rétt nema ef vera kynni að deila megi um þetta orðalag sem ég satt að segja skal játa að ég hygg að ekkert okkar hafi tekið eftir.