Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 887 er prentað nál. félmn. varðandi till. til þál. um viðskipti og menningarsamskipti við byggðir Vestur-Íslendinga í Kanada.
    ,,Tillagan gerir ráð fyrir að utanrrh. skipi nefnd er fái það hlutverk að kanna möguleika á að efla viðskipti og menningarsamskipti við byggðir Vestur-Íslendinga í Kanada.
    Nefndin hefur fjallað um tillöguna á nokkrum fundum. Umsagnir bárust frá samskiptanefnd utanrrn., Þjóðræknisfélagi Íslendinga, Ferðamálaráði Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Útflutningsráði Íslands.
    Samband íslenskra sveitarfélaga mælir með tillögunni.
    Stjórn Ferðamálaráðs óskar eftir að verði ákveðið að stofna nefnd um þetta verkefni verði fulltrúum frá Ferðamálaráði, Flugleiðum, Útflutningsráði, SÍS og SH í Bandaríkjunum falið að mynda starfshóp sem geri tillögur um aukin samskipti við Vestur-Íslendinga í Kanada.
    Útflutningsráð og Þjóðræknisfélagið telja ekki ástæðu til nefndarskipunar eins og tillagan gerir ráð fyrir. Stjórn Þjóðræknisfélagsins tekur fram að þess skuli freistað með öllum tiltækum ráðum að virkja Íslendinga erlendis, og Íslandsvini, til frekari samskipta við Ísland hvort heldur er á sviði menningar eða viðskipta. Segir stjórnin félagið vinna að því að skrá Íslendinga sem búsettir eru erlendis og félagið hafi á prjónunum áform um fjölmiðlun sem komið gæti að gagni við menningartengsl og viðskipti milli landa.
    Samskiptanefnd utanríkisráðuneytisins hefur starfað frá árinu 1976, skipuð af utanrrh. til fjögurra ára í senn. Var nefndin upphaflega skipuð í framhaldi
af því að Alþingi, löggjafarþingið 1974--75, samþykkti þingsályktun ,,í tilefni af aldarafmæli landnáms Íslendinga í Vesturheimi`` um að ríkisstjórnin skipi ,,þriggja manna nefnd til að gera um það tillögur til hennar á hvern hátt minnst verði aldarafmælis landnámsins af Íslendinga hálfu, svo og um aukin tengsl hins íslenska þjóðarbrots vestan hafs við heimalandið``. Ekki verður séð af þingsályktuninni að nefndin hafi átt að vera varanleg.
    Í umsögn samskiptanefndarinnar kemur m.a. fram: ,,Fjölmörg mál hafa verið til umfjöllunar sem fram koma í fundargerðum nefndarinnar þessi ár og hafa með ýmsum hætti stuðlað að hinum margvíslegustu gagnkvæmum samskiptum Íslendinga og landa þeirra í Vesturheimi. Fjárframlög til nefndarinnar hafa alla tíð verið mjög rýr og hefur það dregið úr ýmsu því sem ella hefði getað komist á dagskrá og til framkvæmda. Meðal annars hafa ekki verið tök á því að sinna viðskiptamálum sem annars hefði verið kostur. Þó er ætlunin að ræða þau mál ásamt öðrum málum á fyrirhuguðum aðalfundi Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi í Winnipeg í maí nk.`` Þess má geta að í greinargerð með þáltill. frá 1974 er

sérstaklega vikið að því ,,að ýmislegt bendir til þess að hægt verði að koma á auknum viðskiptum milli landanna og að Kanada sé að ýmsu leyti lítt kannaður akur fyrir íslenskar útflutningsvörur``.
    Þá kemur fram í umsögn samskiptanefndar að fjárframlag til ,,hinna ýmsu starfa nefndarinnar á þessu ári nemur 310.000 kr.`` og að nefndin sé ólaunuð. Bent er einnig á í umsögn samskiptanefndar að samgöngur á milli Íslands og Kanada eru afar takmarkaðar, t.d. eru nú engar beinar siglingar milli landanna og beinar flugsamgöngur engar enn sem komið er.
    Niðurstaða samskiptanefndar utanrrn. er ,,að vart sé ástæða til þess að stjórnvöld skipi aðra nefnd með sama hlutverk og sú er þegar starfar. Miklu nær væri að starfandi nefnd væri skapaður bættur starfsvettvangur með rýmri fjárveitingu``.
    Í samskiptanefnd eru nú eftirtaldir menn: Heimir Hannesson lögfræðingur, Bragi Friðriksson prófastur, Finnbogi Guðmundsson landsbókavörður, Haraldur Bessason rektor og Jón Ásgeirsson fréttastjóri.
    Félmn. bendir á að Alþingi hefur fyrir um 15 árum lýst vilja sínum í þessu efni og síðan hefur starfað stjórnskipuð nefnd, svokölluð samskiptanefnd, sem átt hefur að sinna tengslum við Íslendinga vestan hafs. Nefndin leggur ekki dóm á hversu til hefur tekist, en þó virðist hafa verið hljótt um störf samskiptanefndar. Eðlilegt verður að teljast að skipan slíkrar nefndar sé endurmetin að svo löngum tíma liðnum, ekki síst með nýjar áherslur, svo sem samskipti á sviði viðskipta og ferðaþjónustu, í huga. Félmn. telur rétt vegna málsins að stjórnvöld fari yfir þessi málefni í heild með það að markmiði ,,að efla viðskipti og menningarsamskipti við byggðir Vestur-Íslendinga í Kanada`` eins og fram kemur í þáltill. Með vísan til þessa leggur nefndin til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Nál. er undirritað af öllum fulltrúum í félmn.