Jöfnun orkukostnaðar
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Einar Kr. Guðfinnsson:
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu mál sem er í senn bæði gamalt og nýtt. Gamalt að því leytinu sem fram kom í máli hv. 1. flm. þáltill. að um þetta mál hefur verið mikið fjallað hér á hinu háa Alþingi. Það hefur verið mikið rætt í fjölmiðlum, á þingum, á fundum hagsmunasamtaka, landshlutasamtaka og orkufyrirtækjanna í landinu. En það er nýtt að því leytinu að ekki eru komnar þær lyktir í þetta mál sem ég hygg að við margir kjósum að sjá fyrr en síðar. Sannleikurinn er nefnilega sá að þrátt fyrir að vilji mjög margra hafi staðið til þess að stíga þetta mikilvæga skref til fulls, að jafna orkuverðið í landinu, þá hefur allt of hægt miðað.
    Ég ætla ekki að fara að gera lítið úr þeim ávinningi sem hefur orðið á síðustu árum. Tölur sýna að raunverulega hefur orðið nokkur jöfnun á orkuverði þegar litið er yfir lengri tíma. Hins vegar er það ljóst þegar skoðuð er sú skýrsla sem hv. 1. flm. gerði að umtalsefni og kom frá hæstv. iðnrh. um þróun orkuverðsins, ég hygg það sé á bls. 18 í þeirri skýrslu, að ef borið er saman annars vegar orkuverð til húshitunar á RARIK-svæðinu og hins vegar orkuverð frá Hitaveitu Reykjavíkur þá er ljóst að þetta hlutfall hefur verið sem næst óbreytt allt frá árinu 1985. Með öðrum orðum, þrátt fyrir allar þær tillögur sem hér hafa verið raktar og hafa verið ræddar á hinu háa Alþingi, þrátt fyrir allt þetta, þrátt fyrir endalausar ítrekanir hagsmunasamtaka fólksins á landsbyggðinni hefur nákvæmlega ekkert miðað á þessum fimm árum. Við erum í sömu sporunum hvað það snertir.
    Vakin var á því athygli í tengslum við aðalfund Landsvirkjunar að Landsvirkjun hefur núna uppi hótanir, liggur mér við að segja, fyrirætlanir í það minnsta um að lækka um helming afsláttinn sem hefur verið á taxta á rafmagni sem selt er frá Landsvirkjun til húshitunar í landinu. Skýringin sem er gefin er sú að nú sé ekki lengur þörf á því að veita
þennan afslátt þar sem olíuverð og rafmagnsverð sé orðið svo viðlíka og því sé ekki lengur ástæða fyrir Landsvirkjun til að greiða niður eða gefa afslátt á sínum rafmagnstöxtum. Hér skýtur óneitanlega mjög skökku við.
    Í fyrsta lagi skulum við hafa það í huga hvaða stöðu Landsvirkjun hefur í okkar landi. Þetta er það fyrirtæki sem hefur haft hvað rýmstan aðgang að orkubúskapnum í landinu, hefur einkaleyfi á því að selja raforku til mjög stórra notenda í landinu og hefur alveg einstaka aðstöðu til þess að skammta sér sína taxta. Þetta fyrirtæki er líka að því leytinu sérstakt að í gegnum tíðina hafa því verið búin þau rekstrarskilyrði, sem eru auðvitað eðlileg, að það hefur hagnast gífurlega og er eitt auðugasta fyrirtæki í landinu. Bara á síðasta ári var hagnaðurinn fyrir afskriftir, eftir því sem kom fram í fjölmiðlum, tæpir 3 milljarðar kr. Afskriftirnar sem fyrirtækið síðan nýtti sér á sl. ári voru um það bil tveir milljarðar sem, svo að ég taki nú dæmi sem ég þekki, er nálægt kaupverði á fjórum myndarlegum, fínum

nýtískutogurum. Með öðrum orðum, afskriftirnar sem Landsvirkjun taldi sér nauðsynlegt að nota eru sem svarar til kaupvirðis fjögurra nýtískutogara í landinu. Eftir afskriftir er síðan hagnaður Landsvirkjunar um 700 millj. Það var jafnframt upplýst í fjölmiðlum að þessi niðurgreiðsla, þessi afsláttur sem Landsvirkjun væri að tala um, væri um það bil 90 millj., þ.e. nokkur prósent af hagnaðinum á síðasta ári.
    Nú er það næsta undarlegt í þeirri umræðu sem fram fer um byggðamál í landinu að fyrirtæki á borð við Landsvirkjun skuli telja þetta stund og stað til þess að vega að hagsmunum landsbyggðarinnar með því að lækka svo þennan afslátt sem fréttir herma að sé fyrirhugað.
    Bæjarstjórinn í Ólafsvík vakti réttilega athygli á því að Landsvirkjun er kannski með þessum hætti, með litlum hætti að grafa undan eigin starfsemi. Það er nefnilega athyglisvert að á sama tíma og uppi eru fyrirætlanir um þetta hjá Landsvirkjun er stórkostlegur fólksflótti frá landsbyggðinni. Tölur frá Byggðastofnun segja að fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu fram til aldamóta verði eitthvað um 28 þúsund manns á meðan á landsbyggðinni, á því svæði þar sem Landsvirkjun m.a. selur rafmagn sitt til húshitunar, fækki fólkinu um 1500--1600 manns þrátt fyrir náttúrlega fólksfjölgun. Þetta er auðvitað undarleg stefnumörkun hjá fyrirtækinu og verður að gjalda mjög varhug við því. A.m.k. er það ljóst að þetta er ekki stefnumörkun í anda þeirra samþykkta sem gerðar hafa verið hér á hinu háa Alþingi.
    Það er alveg ljóst, eins og kom fram í máli hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, að kostnaðurinn við að jafna orkuverðið er gífurlegur, er á þriðja milljarð kr. eftir því sem hann upplýsti. Það er alveg ljóst að hin ýmsu orkudreifingarfyrirtæki á landsbyggðinni, hvort sem um er að ræða RARIK, Orkubú Vestfjarða eða einhver önnur fyrirtæki, eru ekki í stakk búin til að taka þessa jöfnun á sig. Það hefur að vísu verið stigið mikilvægt skref með því að aflétta skuldum af þessum fyrirtækjum en hitt er alveg ljóst að þau eru ekki í neinum færum til að taka á sig þann kostnað sem er nauðsynlegur til að jafna þetta verð. Það verður þess vegna að liggja fyrir og þetta þarf auðvitað
að vera pólitísk ákvörðun sem er verið að taka með opnum augum og menn verða að átta sig á að henni fylgir mikill kostnaður.
    En ég ítreka það sem ég hef sagt hér áður að það vekur auðvitað athygli og spurningar við lestur þeirrar skýrslu sem hæstv. iðnrh. hefur dreift hér á Alþingi að ekki hefur verið um að ræða jöfnun orkuverðs, frekari jöfnun orkuverðs, á þessu fimm ára tímabili frá árinu 1985 þegar borinn er saman annars vegar húshitunartaxtinn hjá RARIK og taxti Hitaveitu Reykjavíkur. Ég tel þess vegna fulla ástæðu til að lýsa stuðningi við þessa till. til þál. um jöfnun orkukostnaðar. Ég vona að örlög hennar verði ekki þau að daga hér uppi, heldur verði hún til þess að hvetja menn í því skyni að jafna orkuverðið og leggja þannig sitt af mörkunum til þess að koma í veg fyrir

þann stórhættulega og þjóðhættulega fólksflótta sem er nú á sér stað á landsbyggðinni og á eftir fyrr en síðar, ef ekki verður að gert, að valda meiri usla og óþægindum á Íslandi en dæmi eru til um.