Jöfnun orkukostnaðar
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram um þessa tillögu okkar Vestlendinga. En það verður náttúrlega að segja eins og er að það er mjög slæmt að hæstv. iðnrh. skyldi ekki geta verið hér við þessar umræður. Ég man að þegar hann svaraði fsp. frá mér á sl. hausti um þessi mál hafði hann ýmis orð um að þetta væri allt á réttri leið og verið væri að leggja grunn að verulegu átaki til lagfæringar. Sama kom fram í svari hans við fsp. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar nokkru áður.
    Hér er náttúrlega um að ræða mál sem er varla hægt fyrir okkur þingmenn úr dreifbýlinu að þola öllu lengur. Við erum búnir að gera, eins og hér hefur komið fram í ræðu hv. frsm., allt sem í okkar valdi stendur til þess að fá samstöðu um það hér á hv. Alþingi, bæði í umræðum og tillögum, í stjórnarmyndunarviðræðum og hvað eina. En allt kemur fyrir ekki. Allir eru sammála um þörfina en niðurstaðan er engin eða svo til. Þó eitthvað hafi verið lagfært er það alveg rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér áðan, ástandið er óbreytt frá 1985. Fjöldi fólks á landsbyggðinni er að gefast upp vegna þessa aðstöðumunar. Ég ætla ekki að eyða tíma í að sýna mismuninn á þessu reikningslega. Það liggur í augum uppi og er löngu búið að sanna það hve þessi mismunur er gífurlegur, ekki aðeins í upphitum heldur er þetta líka aðstöðumunur í atvinnurekstri.
    Ég hef alltaf haldið því fram og held því fram enn að eina leiðin til þess að þoka þessu nokkuð áleiðis sé Landsvirkjun. En því miður hafa síðustu viðbrögð Landsvirkjunar verið mjög neikvæð og er raunar alveg ótrúlegt að Landsvirkjun skuli voga sér að ætla að leggja til að taka til baka 90 millj. í sambandi við þann jöfnuð sem löngu er búið að ákveða sem sjálfsagðan hlut, bara af því að hægt sé að finna flöt á því að olíuverð og raforkuverð sé í einhverju jafnvægi, eins og kallað er.
    Ég get alveg tekið undir það sem hv. 4. þm. Vestf. sagði hér áðan að það er náttúrlega ljóst núna og ætti að vera kærkomið tækifæri fyrir þá sem eru að berjast fyrir þessu máli að hægt er að verðleggja ójöfnuðinn á 2,2 milljarða kr. Það liggur alveg skýrt fyrir í öllum gögnum að þetta er ójöfnuðurinn í tölum talið, 2,2 milljarðar í óréttlæti í orkusölu í landinu sem eykur á ójöfnuð eftir því hvar menn búa í landinu. Og þetta ætti auðvitað að vera atriði nr. 1. Þetta verður að lagfæra.
    Ég er með þriðju leiðina, hv. 4. þm. Vestf. Hún er sú að við verðum bara að takast á við það að breyta lögum um Landsvirkjun. Það er ekki um annað að ræða. Þetta er fyrirtæki sem sannarlega tekur miklu meira til sín en eðlilegt er meðan við erum að ná jöfnun í landinu um orkudreifingu og orkusölu. Það skal enginn fá mig til að trúa því að þetta fyrirtæki þurfi svona miklar afskriftir á svo stuttum tíma eins og þeir leggja til. Við erum að byggja þarna til framtíðar. Og sem betur fer eyðast þessi orkufyrirtæki ekki upp eða eyðileggjast á tveimur tugum ára, það

tekur miklu, miklu lengri tíma. Ég held að ekki sé um annað að ræða en að krefjast þess að Landsvirkjun, annaðhvort með breyttum lögum eða vilja þeirra, komi inn í þetta dæmi til þess að breyta þessum ójöfnuði að einhverju leyti í jöfnuð á styttri tíma. Hins vegar tek ég undir tillögur hv. 4. þm. Vestf., að það er um tvö mikilvæg atriði að ræða í sambandi við þessa verðjöfnun, hvernig sem hún er tekin. En ég vil bæta þriðja atriðinu við vegna þess að ég hygg að það væri fljótvirkast í stöðunni.
    Ég vil aðeins vitna í skýrsluna sem hv. frsm. vitnaði til frá orkustjóranum á Vesturlandi. Í hugleiðingum hans, sem er merkilegt innlegg í þetta mál og má lesa í aths. með frv., segir:
    ,,Í þessum hugleiðingum er ég fyrst og fremst að benda á þá stefnu Landsvirkjunar í verðlagningu á raforku sem er allt of frjálsleg, kröfurnar um arðsemi fjármagns þjónustufyrirtækja allra landsmanna of miklar og áherslur þeirra í markaðsmálum rangar. Ekki er hægt að finna tryggari markað en rafhitunarmarkað um allt land, t.d. selja Rafmagnsveitur ríkisins um 60% allrar raforkunnar til húshitunar, en eins og menn eflaust vita keypti RARIK um 18,5% framleiðslu Landsvirkjunar árið 1988 en Landsvirkjun hafði um 28% tekna sinna frá viðskiptum við RARIK það árið.`` Þetta er áreiðanlega mjög merkilegt innlegg í þessar umræður.
    En hvað sem öllu þessu líður, virðulegi forseti, ég skal ekki tefja þetta lengur, þá tel ég að bæði þessi tillaga sem við leggjum hér fram og enn fremur það sem hefur komið fram á þessu yfirstandandi þingi og áður leiði huga okkar að því að við megum ekki láta lengur gera grín að okkur í sambandi við meðferð þessa máls. Fólkið í landinu hættir að treysta og trúa því að þingmenn séu nokkurs megnugir í sambandi við þetta mál. Það er örugglega nægur meiri hluti hér á Alþingi til að snúa þessari þróun við og ég skora á hv. þm. að taka nú höndum saman og láta ekki lengur kúga okkur í þessu máli. Við erum búnir að reyna það á öllum sviðum áður, en það hefur alltaf strandað á samtakamætti, ef svo má segja, bæði í gegnum ríkisstjórnir og hér á hv. Alþingi. Nú er tækifærið. Við verðum að snúa þessari þróun við.