Jöfnun orkukostnaðar
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Flm. (Friðjón Þórðarson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. alþm. sem hafa tekið mjög vinsamlega undir þessa tillögu, nú síðast hv. 2. þm. Vestf. Ég gat þess í upphafi að þetta mál væri ekki nýtt. Og hv. 2. þm. Austurl. gat þess réttilega að því hefði verið hreyft svo til árlega og að ekki hefði endilega verið stefnt að fullu réttlæti þegar í stað heldur að leiðréttingu á sem skemmstum tíma. Mér þótti sérstaklega vænt um ummæli hv. 12. þm. Reykv. sem taldi réttilega að þetta mál væri ekki einungis mál þeirra sem byggju utan höfuðborgarsvæðisins heldur mál allra landsmanna.
    Hér hefur verið bent á nokkrar leiðir sem fara mætti í þessu máli. M.a. nefndi hv. 1. þm. Vesturl. að breyta þyrfti lögum um Landsvirkjun. Hv. 4. þm. Vestf. sagði að þessi tillaga væri hvorki betri né lakari en aðrar um þessi efni og það er rétt. Það var ekki að því stefnt að flytja tillögu sem fengi sérstök fegurðarverðlaun eða viðurkenningu af því tagi, en aðeins að hreyfa máli sem ég tel að okkur öllum alþingismönnum sé bæði rétt og skylt að ræða og leita lausnar á. Ég vek sérstaka athygli á því að þetta er till. allra þingmanna Vesturl. sem reyna þó að standa saman um góð mál.
    Nú skora ég á alla hv. alþm. að reyna að finna leiðir sem gætu stefnt í rétta átt sem fara mætti í þessu máli. Ég minni á það sem hv. 1. þm. Vestf. sagði, að þetta mál er bæði gamalt og nýtt og það verður það þangað til lausn fæst á því sem menn geta við unað.