Jöfnun orkukostnaðar
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Vesturl. sagði að ég hefði sagt í ræðu minni áðan að þessi tillaga væri hvorki lakari eða betri en ýmsar aðrar. Ekki neita ég því að ég hafi sagt þetta. En mér fannst kannski að það bryddaði á því hjá hv. þm. að þetta hefði verið mælt af einhverri lítilsvirðingu eða vanmati á tillögunni. Það var nú eitthvað annað því að ég stóð upp til að hæla þessari tillögu og lýsa fylgi mínu við hana. Þetta orðalag átti við það að ég var að draga fram þá staðreynd að við höfum svo oft talað um þessi mál án nokkurs árangurs, bæði ég og ýmsir aðrir hv. þm., ég ætla líka hv. 2. þm. Vesturl.
    Landsvirkjun hefur komið sérstaklega til umræðu og er ekkert óeðlilegt við það. Ég nefndi tvö grundvallaratriði sem um væri að ræða ef við ættum að koma á umtalsverðri verðjöfnun í orkugeiranum. Hv. 1. þm. Vesturl. nefndi þriðju leiðina, sem hann orðaði svo, breytingu á lögum um Landsvirkjun. Ég hef ekkert móti því að breyta lögum um Landvirkjun ef það er hægt og sjálfsagt er hægt að gera eitthvað sem horfir til bóta í því efni, ég efast ekki um það. En það breytir ekki því grundvallaratriði sem ég vildi draga fram að einhvers staðar verður að taka fjármuni til þess að vinna þetta verk sem við erum að tala um.
    Hér var af einhverjum, ég held af frummælanda, 1. flm., vísað í tímarit Sambands ísl. rafveitna, Raforku, og í grein eftir Kristján Haraldsson orkubússtjóra. Þetta er gagnmerk grein og hann setur fram hugmyndir um hvernig eigi að koma á verðjöfnun. Það er í fjórum punktum. Fyrsti punkturinn hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Landsvirkjun selji orku til rafhitunar á verði sem jafngildir langtímajaðarkostnaði. Það verð er nú um 60% af gjaldskrárverði.``
    Það sem hér er átt við er að þær virkjanir sem Landsvirkjun á eftir að stofna til geti, vegna hagkvæmni hjá þeim, selt orkuna á 60% lægra verði en hún er seld í dag. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta en þetta er stórkostlegur hlutur. Það gefur til kynna að ekki hafi nú allt verið með felldu hjá Landsvirkjun, fyrst þetta er inni í dæminu. Ég vil ekkert draga úr því sem hv. 1. þm. Vesturl. og fleiri komu inn á, að breyta lögum Landsvirkjunar. En það haggar ekki því sem ég tel að sé aðalatriði þessa máls og ég hef áður greint frá.
    Þá var réttilega fundið að því af 1. þm. Vestf., 1. þm. Vesturl. og e.t.v. fleirum að Landsvirkjun hefði eða ætlaði, eins og hv. 1. þm. Vestf. sagði, að draga úr niðurgreiðslum til upphitunar. Ég vil taka það fram að hér er ekkert að ætla eða fyrirhuga í þessu efni. Landsvirkjun hefur gert þetta þegar. Landsvirkjun hefur skorið niður sitt framlag til niðurgreiðslu til húshitunar um helming, hefur gert það. Það er alvarlegt mál. En mér er ljúft og ánægja að láta þess getið hér að þessu var mætt í því orkufyrirtæki sem ég þekki einna best, Orkubúi Vestfjarða, með því að Orkubúið tók á sig sjálft að greiða þann hluta sem Landsvirkjun féll frá. Sýnir það hve mikil áhersla þar

á bæ er lögð á að halda orkuverði niðri með öllum mögulegum hætti.
    Það er rétt sem hér hefur verið tekið fram af ræðumönnum yfirleitt. Við náum ekki árangri í þessu máli nema standa saman. Hér hafa fulltrúar landsbyggðarinnar lýst sínum skoðunum og ásetningi og vilja í þessu efni. Það verður ekki betur gert en hefur verið í þessari umræðu þó að ekki sé ýkja löng. En það sem var sérstaklega ánægjulegt var að heyra hvað hv. 12. þm. Reykv. sagði um þetta mál. Það er einmitt slík afstaða fulltrúa þéttbýlisins og þess fólks sem býr við bestan kost núna sem gefur vonir og fyrirheit um að við getum tekið með skynsemi á þessu máli og komið til leiðar því réttlæti sem við erum að berjast fyrir í þessum efnum.