Breytt röð dagskrármála
Mánudaginn 09. apríl 1990


    Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Nú stendur svo á að þegar hefur eitt mál verið tekið út af dagskrá að beiðni málflytjenda. Tvö næstu mál er ekki mögulegt að taka til umræðu vegna þess að hv. 1. flm. eru ekki viðstaddir. Gengið verður nú til dagskrár um 13. dagskrármál, en þetta kann að vera að ástæðan fyrir því hvernig forseti orðaði beiðni sína til þingmanna um að koma til starfa rétt áðan. Ég skal taka þau orð aftur til þess að geðjast hv. 3. þm. Reykv. þar sem forseta er vitaskuld fullkunnugt um að menn sitja hér að störfum. En það er satt að segja erfitt á þessum síðustu dögum þingsins, þar sem ljóst er að þrír næstu þingfundir í Sþ. falla niður af eðlilegum ástæðum, að ekki skuli vera hægt að halda hér eðlilegri dagskrá í dag án þess að forseta væri það kunnugt fyrir fram.
    Ég vil þó taka fram að vel kann að vera að hv. 4. þm. Austurl. verði kominn áður en þessum fundi lýkur og geti flutt sitt mál. Hann mun vera á leiðinni.