Ræktun íslenska fjárhundsins
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Ég fagna mjög þessari tillögu og að það skuli vera áhugi fyrir því að varðveita íslenskan hundastofn. Og sérstaklega fagna ég því að það skuli koma frá alþingismanni fyrir dreifbýlið, fyrir sveitahérað því að mér hefur einhvern veginn fundist að þessi elsti landnemi og elsti bandamaður mannkynsins á Íslandi hafi einkum átt undir högg að sækja á meðal þeirra sem búa utan við þéttbýlið.
    Hundurinn hefur í rauninni verið eini íbúi landsins sem hefur haldið tryggð við mannskepnuna frá því að við námum þetta land. Hundurinn hefur verið hennar tryggi bandamaður, hann hefur verið hennar vinnudýr og félagi. Því miður er hundurinn fyrst og fremst metinn í því ljósi í dag hvað hann getur lagt mikið af mörkum í sveitum við að elta búsmala eða sem björgunarhundur, leitarhundur og eitthvað slíkt. En oftast gleymist þessi þýðingarmikli þáttur sem er félagsskapurinn, hversu mikill félagi hundurinn er fólki, sérstaklega í borgum. Hér í Reykjavík hefur hundurinn átt undir högg að sækja áratugum saman. Hundahald var bannað. ( Gripið fram í: Fjandsamleg borgarstjórn.) Fjandsamleg borgarstjórn. En í dag er það þó leyft með ákveðnum reglum sem hafa mælst mjög vel fyrir. Og það er fyrir hönd þeirra hunda sem leggja ekkert af mörkum til þjóðfélagsins, hvorki að elta búsmala um fjöll eða leita uppi týnt fólk eða þefa af hassi í farangri, það er fyrir hönd þeirra hunda sem ég kem hér upp. Vegna þess að það eru þeir hundar sem veita fólki ekkert annað en ánægju bara með því að vera til. Þess vegna fagna ég mjög að það skuli koma frumkvæði utan af landi um að viðhalda og rækta íslenska hundastofninn.
    Í því sambandi er ekki hægt annað en minnast Mark Watson, þess merka Íslandsvinar sem gaf okkur ekki bara hinar frægu Collingwood-myndir, lagði stórfé til þess að endurreisa byggðasafnið að Glaumbæ í Skagafirði, heldur gaf okkur líka eitt stykki dýraspítala vegna þess að Mark Watson hugsaði með sér: Íslendingar geta aldrei tekið hundinn í sátt, þeir geta ekki leyft hundahald fyrr en þeir búa svo vel að hundinum að það sé a.m.k. hægt að lækna hann eins og aðra þegna landsins, því smádýralækningar hafa mjög átt undir högg að sækja vegna þess að smádýr og gæludýr hafa aldrei gefið af sér pening. Þau eru bara til ánægju fyrir fólkið. Þess vegna fagna ég þessu máli mjög og tek undir það með hv. flm.