Fríhafnarsvæði við Keflavíkurflugvöll
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Það er ekki laust við að ég finni til innilokunarkenndar með svo marga þingmenn í salnum, en ég tala hér fyrir till. til þál. um fríhafnarsvæði við Keflavíkurflugvöll. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa lagafrumvarp um fríhafnarsvæði við Keflavíkurflugvöll undir vörugeymslur og fríiðnað. Frumvarpið skal lagt fram á Alþingi við upphaf þings haustið 1990.``
    Fríhafnarsvæði á Íslandi er gamall draumur. Honum hefur áður verið hreyft hér á Alþingi, þáltill. hefur verið samþykkt. Könnun hefur hins vegar farið fram á vegum forsrh. sem bar ekki þann árangur sem skyldi því að það var ekki talið æskilegt, a.m.k. á því stigi, að ráðast í þessar framkvæmdir, enda voru þær þá hugsaðar sem framkvæmdir á vegum ríkisins.
    Sú tillaga sem hér er lögð fram gerir hins vegar ráð fyrir því að fríhafnarrekstur verði í höndum einstaklinga og það eina sem ríkið gerir er að leggja fram lóðir á Keflavíkurflugvelli undir þennan rekstur. Ég vil leyfa mér að lesa hér úr grg.:
    ,,Íslenska kaupsýslumenn hefur löngum dreymt um fríhafnarsvæði á Íslandi:
    a. Til að geta flutt vörur á milli annarra viðskiptalanda með viðkomu hér á landi til umskipunar. Þannig yrði mögulegt fyrir íslenska innflytjendur að selja vörur frá t.d. Bandaríkjunum í löndum Evrópu eða öfugt og eiga birgðir af vörum jafnan til á Íslandi. Þessi hugmynd hefur oft verið kölluð vöruhótel og lýsir það nafn starfseminni betur en mörg orð.
    b. Til að framleiða eða fullvinna vörur hér á landi úr hráefni eða hlutum frá einu landi til þess að selja í öðru. Þannig gætu íslenskir iðnrekendur keypt t.d. ýmsan búnað frá Austurlöndum fjær og sett saman á Þýskalandi og selt á markaði í Evrópu eða Bandaríkjunum.
    c. Aðrar fríhafnir. Má þar nefna bæði tollvörugeymslur og vöruafgreiðslur skipa- og flugfélaga. Umskipunarhafnir fyrir vörur erlendra fyrirtækja á leið milli landa.``
    Kjarninn í þessu máli er sá að vörurnar yrðu geymdar eða unnar á Íslandi á sérstöku fríhafnarsvæði og kæmu aldrei inn í íslenskt efnahagslíf. Áfangastaður þessarar vöru er í öðrum löndum og því yrðu ekki innheimt nein gjöld af þeim í íslenskri efnahagslögsögu á sama hátt og gjöld eru innheimt af þeim vörum sem keyptar eru til notkunar og neyslu á Íslandi.
    Eins og ég sagði áðan eru þessar fríhafnir ekki hugsaðar sem opinber rekstur á neinn hátt. Hlutverk ríkisins er aðeins að heimila þennan rekstur með lögum og greina hann frá öðrum rekstri í landinu sem ekki nýtur sömu kjara og fríhafnir koma til með að gera.
    Ég hirði ekki um, virðulegi forseti, að lesa mikið úr grg. en vil þó drepa niður á nokkrum stöðum og ég legg til að í fyrsta stað verði Keflavíkurflugvöllur

fyrir valinu. Þó að margir staðir á Íslandi séu vel til þess fallnir að hafa þar fríhafnir, ekki síður í Reykjavík, þá er Keflavík það vel í sveit sett, nálægt helsta athafnasvæði landsins hér á Reykjanesi og á Suðvesturlandi. Keflavík er alþjóðleg flughöfn. Það hefur geysilega mikil flugumferð verið um völlinn sem er snar þáttur í rekstri á borð við fríhafnir.
    Ísland liggur það vel við alþjóðlegri flugumferð að möguleikarnir eiga að vera miklir og eru þegar orðnir því að umferð um völlinn samkvæmt fylgiskjölum sem hér eru lögð fram er gífurlega mikil. Vil ég í því sambandi lesa upp frá árinu 1989. Þá lenda flugvélar 5708 sinnum á Keflavíkurflugvelli. Farþegar eru samtals 658.096. Vörur í tonnum eru samtals 25.173 og póstur er 1.874 tonn. Þetta er mikil umferð og hún er í rauninni grunnur undir það að hægt sé að reka á Keflavíkurflugvelli fríhöfn í þeim dúr sem hér er rætt um.
    Flugvallaryfirvöld hafa skipulagt sérstakt svæði á flugvellinum undir fríhöfn í nágrenni við flugstöðina þannig að ekki yrði flutningskostnaður innan lands til og frá flughafnarsvæði. Á sama hátt er verið að vinna að ýmsum öðrum endurbótum á flugvellinum eins og að koma upp stóru, nýju flugplani, birgðastöð fyrir olíufélögin og fleira sem getur þjónað aukinni flugumferð og starfsemi af þessu tagi.
    Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan hafa þessi mál áður verið rædd á Alþingi. M.a. hefur hv. alþm. Karl Steinar Guðnason beitt sér mjög fyrir þessu máli. Hann lagði fram þáltill. sem var samþykkt 22. maí 1984 og hann hefur ítrekað spurst fyrir um hvað liði framkvæmd þál. en ekkert hefur enn þá gerst. Forsrh. lagði fram skýrslu um fríiðnaðarsvæði á Alþingi á 109. löggjafarþingi 1986--1987. Niðurstöðurnar voru þær í stórum dráttum að stofna ætti hlutafélag um rekstur iðngarða með tollvörugeymslu rétt hjá sérstöku svæði við Keflavíkurflugvöll. Þetta félag mundi byrja á því að undirbúa lóðir fyrir byggingar og kynna hugmyndir innan lands og utan. Ekki veit ég til að þetta hafi verið gert, hins vegar eins og ég sagði áðan er málið komið það langt að sjálf flugvallaryfirvöldin á Keflavíkurflugvelli hafa þegar búið heilmikið landsvæði undir að taka á móti fríhafnarrekstri. M.a. eru þar tilbúnar allar lagnir og í rauninni ekkert því til fyrirstöðu að úthluta lóðum fyrir þá sem
vilja reka starfsemi af þessu tagi. Í niðurstöðum úr skýrslu forsrh. segir m.a.:
    ,,Iðnaður hefur þróast nokkuð hér á landi á síðustu árum og fjölbreytni í útflutningi aukist talsvert. Jafnframt hefur þýðing þjónustu farið vaxandi í útflutningi. Er þjónusta við varnarliðið og ferðamenn líklega orðin önnur mesta gjaldeyrisuppspretta þjóðarbúsins. Þótt vafalítið megi vinna meira úr sjávarafurðum okkar og auka ferðamannaþjónustu er nauðsynlegt að reyna nýjar leiðir og koma upp fleiri útflutningsgreinum sem búa við trausta markaði og jafnan vöxt. Slíkt verður best gert með því að styðja við bakið á nýjum útflutningsfyrirtækjum, auka tengslin við mikilvægustu markaðssvæði okkar og fá erlend fyrirtæki til að fjárfesta hér mun meira en verið

hefur. Jafnframt er tímabært að gera átak í atvinnulífi á Suðurnesjum. Stofnun fríhafnarsvæðis sem miðast við sérstakar aðstæður hér er athyglisverð leið að þessu marki.``
    Undir þetta tek ég. Okkar atvinnulíf er því miður allt of einhæft. Við þurfum að skjóta undir það fleiri stoðum og þessi rekstur gæti tvímælalaust eflt atvinnulífið ekki bara á Suðurnesjum heldur um allt land. Þess vegna hef ég lagt fram þessa tillögu vegna þess að aðstæður hafa nokkuð breyst frá því að skýrslan kom út bæði vegna þess að viðskipti út um allan heim eru stöðugt að aukast á fríhafnarsvæðum. Þeim fjölgar. Nútíminn er að ganga í garð. Fríhafnir eru hluti af þeirri þróun og flugvallaryfirvöld á Keflavíkurflugvelli hafa búið sig undir að taka á móti rekstri af þessu tagi.
    Að svo mæltu, forseti, mæli ég með því að þessi tillaga fari til seinni umræðu og hv. atvmn.