Fríhafnarsvæði við Keflavíkurflugvöll
Mánudaginn 09. apríl 1990


     Karl Steinar Guðnason:
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er rætt er gott mál eins og þar segir. Það hefur reyndar verið til umfjöllunar á Alþingi og flutti ég tillögu á fimm þingum um að gerð yrði könnun um hagkvæmni fríiðnaðarsvæðis á Keflavíkurflugvelli eða annars staðar, t.d. í Straumsvík. Þó er grg. og annað miðað sérstaklega við Keflavíkurflugvöll eins og reyndar er gert í þessari tillögu einnig. Eftir að tillagan hafði verið samþykkt spurðist ég fyrir um hvað málinu liði á þinginu 1984--1985 og síðan kom skýrslan sem Byggðastofnun hafði gert árið 1987.
    Í skýrslunni er fjallað um fríiðnaðarsvæði almennt og bent á það hvernig þetta hefur reynst annars staðar. Það kemur reyndar fram að víðast hvar hefur þetta fyrirkomulag reynst mjög vel og varð til þess á þeim stöðum að fjölga mjög störfum og auka tækniþekkingu og efla viðskipti.
    Í grg. þeirri sem ég flutti á sínum tíma sótti ég heimildir aðallega til Shannon á Írlandi en þar var alvarlegt atvinnuleysi áður fyrr. Reyndar er þar enn atvinnuleysi en svo vel tókst til um fríiðnaðarsvæðið þar að þau störf sem unnin voru innan marka fríiðnaðarsvæðisins urðu með betur launuðum störfum þar í landi þrátt fyrir spár um annað. Hitt er annað mál að írska ríkið þurfti að láta þeim fyrirtækjum sem þarna settu sig niður margvísleg fríðindi í té en Írar töldu að það hefði komið margfalt til baka í aukinni atvinnu og auknu umfangi verslunar á svæðinu.
    Síðan þessi athugun var gerð hefur vissulega ýmislegt breyst í heiminum og þá sérstaklega hvað varðar viðskipti. Þá var ekki svo mjög farið að tala um tollabandalögin sem við erum á kafi í að tala um núna og samkeppni á fríiðnaðarsvæði og samkeppni milli þessara svæða hefur orðið öllu grimmari en áður var. Ég bendi á að til eru lóðir fyrir slíka starfsemi. Þær hafa verið skipulagðar í nágrenni við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og sé ég ekki annað en hægt væri að sækja um slíkar lóðir strax í dag, en það vanti frumkvæði einstaklinga eða fyrirtækja er sýni þessu máli áhuga.
    Það hefur valdið mér vonbrigðum hve lítinn áhuga íslensk fyrirtæki hafa sýnt þessum málum. Ég tel að hér sé gott mál á ferðinni og sjálfsagt að athuga það vandlega, en það er spurning hvort það er rétt að gera lagafrv. um þessa þætti fyrr en fyrirtæki hér innan lands sýna þessu áhuga. Ég held að frumkvæðið verði að koma þaðan og síðan verði það mótað með hvaða skilyrðum slík fyrirtæki komi til með að starfa. Ég tel að það sé alveg ljóst að eigi af þessu að verða þurfi að veita ákveðin fríðindi sem ekki eru veitt annars staðar og þarf að taka þar til hver þau eigi að vera og hafa nokkra samvinnu við þá sem hugsanlega vildu standa að þessu.
    Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta mál nú en bendi enn á ný á það að hér er gott mál á ferðinni sem er ástæða til að skoða en ég tel nauðsynlegt að frumkvæði einstaklinga komi til svo að hægt sé í góðri samvinnu við þá að móta það hvernig að

þessum málum yrði staðið. Hvort tímabært er að semja frv. um það fyrr læt ég ósagt en tel þó eðlilegt að frumkvæðið verði að koma fyrst.