Meðferð opinberra mála
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svör hans. Ég fagna því að hann skuli komast að sömu niðurstöðu og ég um afgreiðslu málsins. Það þarf auðvitað að vanda mjög til allrar málsmeðferðar þar sem verið er að leggja fram svona yfirgripsmikið frv. sem lögð hefur verið mikil vinna í og alveg sjálfsagt að vinna það vandlega í nefnd. Þó ég sé ekki sammála niðurstöðum þeim sem koma fram í svörum réttarfarsnefndar við þeim fsp. sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra fagna ég því samt að þingnefnd skuli gefast kostur á að hugleiða málið og kalla til sín þá sem t.d. störfuðu í nauðgunarmálanefnd, ekki síst lögfræðinga, til þess að fræðast um það sem þeim finnst í þessum málum. Ég ætla aðeins lítillega að fara yfir þau svör sem hæstv. ráðherra góðfúslega gaf hér og komu frá réttarfarsnefnd.
    Ég sagði áðan að ég hefði ekki komist að sömu niðurstöðu og nefndin um það að hún hefði tekið verulegt tillit til þeirra tillagna sem nauðgunarmálanefnd lagði fram. Mér finnst hún í raun ekki hafa gert það nema að hluta og hefur alls ekki tekið á þeim atriðum sem ég álít vera veigamest. Að vísu varðandi a-liðinn, þ.e. um rétt til löglærðs talsmanns, þá mun verða tekið á því í öðru frv. sem á að leggja hér fram og fagna ég því og hlakka til að sjá það. Ég vona að það verði sem fyrst og kannski í dag því svo mun vera að þau þingmál sem lögð eru fram í dag verða væntanlega tekin fyrir en önnur þarf ekki endilega að taka fyrir á þessu þingi.
    Varðandi b-liðinn þá skildi ég alls ekki röksemdafærslu réttarfarsnefndar fyrir því að taka ekki þann lið upp í frv. og þarf að biðja um betri útskýringar á því. c-liðnum hefur verið sinnt að mestu leyti eins og ég gat um áðan. Og ég sé að í 8. gr. bætist við réttur brotaþola á því að um mál hennar eða hans verði fjallað fyrir luktum dyrum sem ég tel til verulegra bóta.
Einnig er sjálfsagt að taka undir það að hægt verði að nýta myndbandsupptökur, sérstaklega hvað varðar börn í yfirheyrslum. Hefur það verið notað víða erlendis, einmitt til þess að hlífa börnum og vernda þau gegn skaðlegum áhrifum frá málsmeðferðinni.
    Og svo kemur að e-liðnum sem ég taldi annan af mikilvægustu liðunum í þeim brtt. sem komu frá nauðgunarmálanefnd, þ.e. að konu verði tryggð greiðsla þeirra bóta sem dómstólar dæma henni. Réttarfarsnefnd telur að þetta eigi ekki heima í þessu frv. Þá er bara að finna því stað einhvers staðar annars staðar þar sem það á heima til að tryggja brotaþola þennan rétt sem sannarlega er verðskuldaður að mati nauðgunarmálanefndar.
    Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans og vona að þessar breytingar komist þá að í störfum þingnefndar sem mun hafa góðan tíma til að fjalla um málið.