Ferðamál
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Frsm. meiri hl. samgn. (Egill Jónsson):
    Herra forseti. Það er ekki tilefni til mikilla svara af minni hendi. Sérstaklega vegna þess að tveir þm. Vesturl., hv. þm. Skúli Alexandersson og Danfríður Skarphéðinsdóttir, hafa fjallað um málið og skýrt það enn betur en ég gerði. Og í rauninni fólst æðimikil niðurstaða í því sem hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir sagði, að hér væri um að ræða jákvætt mál, jákvætt innlegg í umræðuna um ferðamálin og e.t.v. líka aðgerðir í þeim efnum.
    Ég ætla hins vegar að fara örfáum orðum um þær athugasemdir sem einkum hafa komið fram í ræðum þeirra hv. þm. sem eru hér helst til andsvara.
    Þá er það í fyrsta lagi að í þeim efnum vitna menn gjarnan til umsagna um frv. frá þeim aðilum sem um það fjölluðu og hér hefur verið minnst á. Þar hefur m.a. komið fram að sveitarfélög hafi skipað ferðamálanefndir og þær séu að störfum. Þar sem slíkri skipan hafi ekki verið komið á geti menn að sjálfsögðu tekið þær ákvarðanir einhliða. Og hver skyldi nú andmæla þessum staðreyndum?
    Ég hygg að ekki sé sama hvort slíkar nefndir fái verkefni og verksvið á grundvelli íslenskra laga eða einungis sem kjörnar af sveitarstjórnum og með erindisbréf þá frá þeim. Ég minni sérstaklega á í þessu sambandi að víða í okkar stjórnkerfi eru til nefndir sem lög eða lagaákvæði fjalla um. Ég minni í þessu sambandi sérstaklega á jarðalögin og jarðanefndirnar. Auðvitað gætu sveitarfélög, búnaðarsambönd og sýslunefndir komið sér saman um skipan jarðanefnda. En ég hygg að þær væru ekki jafnvaldamiklar og áhrifamiklar og þær eru ef ekki fjallaði um þær nefndir sérstök löggjöf, jarðalögin. Enn fremur er vert að minnast á nefndir eins og gróðurverndarnefndir. Þær eru út af fyrir sig kannski ekki sérstaklega valdamiklar nefndir. Auðvitað væri hægt að velja í þær nefndir án tillits til þess að um þær fjölluðu sérstök lög, þ.e. lög um Landgræðslu Íslands. Sumar gróðurverndarnefndirnar vinna mjög
merkilegt starf og aðrar ekki. En þær hafa bæði skyldur og réttindi á grundvelli laga um Landgræðslu Íslands. Og ég hygg að á því sé verulegur munur hvort þær hafi þann starfsvettvang eða ekki. Ég minni á nefndir eins og t.d. fjallskilanefndir. Af hverju skyldu menn vera að kveða sérstaklega á um fjallskilanefndir í lögum um fjallskil og afréttarmálefni? Af hverju eru menn að setja lög um slíkar nefndir eða kveða sérstaklega á um valdsvið þeirra? Nefndarskipun sem þessi er reyndar miklu víðar. Ég minni t.d. á búfjárræktarlög, hinar ýmsu greinar þeirra laga, þar sem kveðið er á um ræktun búfjárins. Auðvitað er hægt að koma slíkum nefndum á fót þó þær séu ekki tilgreindar í lögum en þær fá sín verkefni þannig, sín völd þannig. Það er auðvitað nákvæmlega það sama sem er um ferðamálanefndirnar, nákvæmlega sama og allar hliðstæðar nefndir sem eru starfandi í okkar stjórnkerfi, að þeirra starfsemi og starfsvettvangur verður að sjálfsögðu miklu öflugri með því að þær hafi lagalegan bakgrunn. Þó hér sé

ekki gengið eins langt fram og menn hefðu gjarnan viljað er það alveg augljóst mál, eins og hefur komið fram í umræðunni, að hér er um að ræða jákvætt viðhorf.
    Annað atriði sem kom fram í umsögnunum sem andmæli var um gjaldheimtuna. Til þessa er tekið tillit í nál. og brtt. meiri hl. samgn. með því að fella það ákvæði út úr frv. Þá er það þriðja atriðið sem einkum sætir andmælum. Það er að nú fari fram mikil starfsemi um endurskoðun á ferðamálum og tillögugerð um ferðamálastefnu. Það vill svo til að einmitt núna um svipað leyti og ég var að ganga hér til þessa virðulega ræðustóls var útbýtt hér á Alþingi till. til þál. um ferðamálastefnu.
    Nú er það svo, og vitna ég þá m.a. til ræðu hv. þm. Danfríðar Skarphéðinsdóttur, að auðvitað spillir þessi tillögugerð á engan hátt hugmyndum um ferðamálastefnu í landinu. Eins og hefur komið fram í þessari umræðu er einmitt þessi till. til þál., sem berst hingað á mikilvægu augnabliki vegna þessarar umræðu, um ferðamálastefnu í mörgum og ítarlegum liðum með greinargerðum og fylgiskjölum. Ekki efa ég að hér er um vönduð vinnubrögð að ræða. Hér eru ekki á ferðinni tillögur um breytingar á lögum um ferðamál þó auðvitað sé hér um að ræða mikilvægar áherslur. Á bls. 3 vil ég vekja sérstaka athygli á kafla í sex liðum með yfirskriftinni: ,,Byggðaþróun og ferðaþjónusta.`` Ég geri ráð fyrir því að ýmislegt í þeim kafla gangi lengra en í þeim till. sem hér er verið að fjalla um. En mér þykir hins vegar ólíklegt að það fari mjög í aðrar áttir.
    Ég get á engan hátt fundið nokkur rök fyrir því að stöðva framgang þessa máls þó menn eigi von á og hafi reyndar þegar fengið í hendurnar till. til þál. um ferðamálastefnu. Það færi nú í verra með ýmsar afgreiðslur á Alþingi ef þær ættu ekki að ganga fram vegna þess að svo gæti farið að meiningar væru um að gera breytingar á þeim lögum sem þar væri sérstaklega um fjallað. Þessar umsagnir sem slíkar geta þess vegna ekki verið tilefni til að hindra framgang þeirra breytinga sem hér eru lagðar til. Einmitt vegna þess að í nál. og brtt. nefndarinnar sem hér eru ræddar hefur verið tekið tillit til þeirrar gagnrýni sem fram kemur í umsögnunum.
    Ég vil svo að lokum aðeins segja að það er fjarri því að hér sé á ferðinni mál sem skipti sköpum í byggðamálum. Mikið lifandi skelfing væri nú auðvelt að laga þau mál og koma þeim til betra horfs ef ekki þyrfti nema samþykkt eins frv., jafnvel þó það væri víðtækara en það sem hér er um fjallað. En margt smátt gerir eitt stórt og það er áreiðanlega miklu betra að ná fram árangri, þó hann sé ekki stór, en að hafast ekkert að.
    Út frá því sem fram kom í ræðu hv. 4. þm. Vestf. um þau orð sem ég lét sérstaklega falla, að hér væri um að ræða valddreifingu og markvissari áherslur í ferðamálum, vil ég vekja athygli á því að fjallað er um fleira en aðeins nefndaskipanina sem slíka. Í þeim efnum vil ég sérstaklega undirstrika að samkvæmt frv., ef að lögum verður, ber Ferðamálaráði að leita

samráðs við ferðamálanefndir í héraði. Það eru ekki svo lítil völd sem felast í því. Ég hygg að það væri t.d. erfitt fyrir Ferðamálaráð að ganga í gegn skoðunum og tillögum ferðamálanefndar. Í þessu felst vald. Það eru líka skýrari ákvæði um réttindi ferðamálanefnda og sveitarfélaga að því er varðar opinberan fjárhagsstuðning. Þegar farið er yfir þessi mál í samhengi er hér um að ræða umtalsverða áhrifabreytingu á þann veg sem ég sagði, þegar ég mælti fyrir þessu máli í fyrri ræðu minni, um aukna valddreifingu og markvissari áherslur. Ekki skal standa á mér að samþykkja stærri skref í þessum efnum þegar tillögur koma fram um það. Þeim miðar sem taka lítil skref en þeir færast ekkert sem taka engin skref, þeir standa kyrrir.