Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins.
    Hinn 20. nóv. sl. skipaði ég nefnd samkvæmt þál. sem samþykkt var hér á Alþingi í lok síðasta þings til að endurskoða lög um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra þingflokka og helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi en formaður nefndarinnar var Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar.
    Nefndin skilaði áliti hinn 3. þessa mánaðar og er frv. það sem hér er til umræðu ávöxtur af starfi nefndarinnar. Eins og lýst er í skilabréfi nefndarinnar sem er fylgiskjal með frv. voru allir nefndarmenn þó ekki sammála þeim tillögum er í frv. felast. Kemur það skýrt fram í skilabréfinu og ég vísa til þess.
    Íslenskt efnahagslíf er mjög sveiflukennt. Útflutningsframleiðsla okkar hefur löngum verið einhæf og hafa nálægt þrír fjórðu hlutar vöruútflutningsins á undanförnum árum verið sjávarafurðir. Helstu orsaka fyrir hagsveiflum hefur því oftast verið að leita í sveiflum í afla og verðlagi á sjávarafurðum. Það hlýtur að vera markmið stjórnvalda á hverjum tíma að skapa jafnvægi og stöðugleika í efnahagslífinu og draga eftir föngum úr áhrifum breytinga á ytri aðstæðum. Dæmin sanna þó að hér er við ramman reip að draga. Allar
efnahagsaðgerðir til að minnka þessar sveiflur miðast við það að binda hluta af því fjármagni sem streymir inn í efnahagslífið á uppgangstíma til að draga úr þenslunni og leggja fjármuni til hliðar til að mæta mögru árunum er á eftir fylgja. Í þessu skyni er beitt ýmsum almennum efnahagsaðgerðum á sviði ríkisfjármála, peningamála og gengismála.
    Margt mælir þó með því að ráðast að rótum vandans og takast á við sveiflur sem eiga upptök sín í sjávarútvegi með aðgerðum er beinast að greininni sérstaklega. Þetta var hugsunin að baki stofnunar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins er hann var stofnaður með lögum vorið 1969 en tilefni stofnunar hans var verulegt verðfall á frystum afurðum haustið 1967.
    Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins hefur nú starfað í rúm 20 ár. Ekki er að efa að sjóðurinn hefur á þessum árum almennt þjónað því hlutverki sem honum er ætlað að gegna og náð verulegum árangri í að jafna sveiflur í einstökum greinum sjávarútvegs, t.d. varðandi rækju, hörpudisk og saltfisk. Hann hefur hins vegar sýnt að með núverandi skipulagi megnar hann ekki nema að litlu leyti að milda áhrif hinna dýpri sveiflna í sjávarútvegi á hag sjávarútvegsfyrirtækja og þjóðarbúskaparins í heild. Á seinustu árum hefur gætt vaxandi óánægju með Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og hefur þeim skoðunum vaxið fylgi að leggja bæri sjóðinn niður eða gera verulegar breytingar á skipulagi hans. Þrjár stjórnskipaðar nefndir hafa síðustu fimm árin fjallað um starfsemi sjóðsins og komið með mismunandi tillögur um skipulag verðjöfnunar. Er það frv. sem hér er til umræðu ávöxtur af starfi hinnar síðustu af

þessum þremur nefndum eins og ég gat um í upphafi máls míns.
    Það eru einkum þrjú atriði sem valdið hafa óánægju með núverandi fyrirkomulag Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins.
    Í fyrsta lagi hefur óánægja beinst að fyrirkomulagi verðjöfnunar. Endanlegt uppgjör er mjög tímafrekt og krefst mikilla útreikninga. Það getur ekki átt sér stað fyrr en allar vörur sem framleiddar voru á viðkomandi verðjöfnunartímabili eru seldar. Eftir því sem framleiðsluvörur verða fjölbreyttari og viðskiptaferlar margbreytilegri, því flóknari og óábyggilegri verða verðjöfnunaruppgjörin. Endanlegt uppgjör liggur því oftast ekki fyrir fyrr en mörgum mánuðum eftir að verðjöfnunartímabili lýkur.
    Annað óánægjuefni varðandi Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins er að hann hafi ekki getað starfað eftir hlutlægum ákvörðunum á grundvelli þeirra almennu laga sem um hann gilda. Þannig hafa stjórnvöld oftar en einu sinni notað sjóðinn sem farveg til að koma fjármunum til skila til ákveðinna greina sjávarútvegsins en ekki annarra með því að fela sjóðnum að taka lán í því skyni. Hafa stjórnvöld fyrir vikið verið sökuð um misnotkun á sjóðnum. Eins eru þess dæmi að hinar teygjanlegu viðmiðanir sem stjórn sjóðsins hefur til ákvörðunar viðmiðunarverðs hafi verið nýttar til að ná fram verðjöfnun eða hlutleysi sjóðsins með þeim hætti að óánægju hefur valdið. Þessar ásakanir um misnotkun á sjóðnum hafa mjög orðið til að draga úr trausti manna á honum.
    Í þriðja lagi hafa framleiðendur í vaxandi mæli gagnrýnt að útborganir til einstakra fyrirtækja úr sjóðnum eru óháðar því hvort eða hversu mikið viðkomandi fyrirtæki hafa greitt í sjóðinn.
    Í því frv. sem hér er til umræðu er lagt til að byggt verði á þeim grunni sem skapaður hefur verið með Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins en þeir vankantar sem komið hafa í ljós á skipulagi og starfsháttum sjóðsins verði sniðnir af. Meginstarfsregla hins nýja Verðjöfnunarsjóðs er líkt og hins fyrri sú að innheimta skuli afgjöld af útflutningsframleiðslu sjávarafurða þegar markaðsverð er talið hátt en bæta upp verð afurðanna þegar verð er talið lágt.
Við framkvæmd þessarar reglu skal samkvæmt frv. taka mið af meðalverði síðustu fimm ára en á grundvelli þess meðalverðs skal svonefnt viðmiðunarverð ákveðið. Kringum viðmiðunarverðið skal samkvæmt frv. ákveða gjaldfrjálst bil, svonefnt verðbil, er skal víkja 3--5% frá viðmiðunarverðinu í báðar áttir en eins og áður sagði er viðmiðunarverð reiknað á grundvelli meðalverðs síðustu fimm árin.
    Víki markaðsverð meira en þessu verðbili nemur til hækkunar frá meðalverðum liðinna ára, eins og ég áður gat um, kemur til inngreiðslu í sjóðinn og skal þessi inngreiðsla nema 50% af því sem umfram er. Á sama hátt myndast útborgunartilefni ef markaðsverð víkur frá meðalverði til lækkunar umfram verðbilið.
    Í frv. er þannig lagt til að forsendur til ákvörðunar viðmiðunarverðsins verði lögbundnar, svo og afgjaldshlutfallið. Er þetta veruleg breyting frá

gildandi lögum þar sem ákvörðun viðmiðunarverðs er falin sjóðsstjórn sem hefur allmikið svigrúm við þá ákvörðun á grundvelli almennra leiðbeiningarreglna í lögunum. Þá gerir sjóðsstjórn tillögu til sjútvrh. um afgjaldshlutfallið samkvæmt gildandi lögum og má það vera allt að 75%. Í gildandi lögum er ákvörðun verðbils um viðmiðunarverðið einnig í höndum sjóðsstjórnar án þröngra lagatakmarkana.
    Í frv. felst því að hlutverk sjóðsstjórnar og ráðherra við ákvörðun verðjöfnunar er verulega takmarkað frá því sem nú er og að allir mikilvægustu þættir verðjöfnunar verða lögbundnir og sjálfvirkir. Það sem eftir stendur af ákvörðunarvaldi stjóðsstjórnar er að henni er falið að ákveða hvar á bilinu 3--5% hið svonefnda verðbil skuli liggja varðandi afurðir í hverri deild. Rökin að baki þessu svigrúmi eru fyrst og fremst að ástæða virðist til að hafa breiðara verðbil varðandi afurðir þar sem verðsveiflur eru miklar og tíðar, t.d. varðandi rækju og hörpudisk, en varðandi afurðir þar sem verðsveiflur eru minni. Með þessu ætti að vera tryggt að verðjöfnunin fylgi almennum og hlutlægum reglum.
    Í tengslum við þetta breytta hlutverk sjóðsstjórnar er í 2. gr. frv. lagt til að horfið verði frá því að fela hagsmunaaðilum í sjávarútvegi að tilnefna meiri hluta sjóðsstjórnar og að stjórn sjóðsins verði þess í stað skipuð af ráðherra án tilnefningar.
    Þá er í frv. gert ráð fyrir að greiðslur til Verðjöfnunarsjóðsins verði lagðar inn á sérstakan verðjöfnunarreikning í nafni viðkomandi framleiðanda og að enda þótt innstæðurnar teljist eign sjóðsins verði þær einungis notaðar til að greiða verðbætur vegna afurða þess framleiðanda er inneign myndaði. Með þessu er tryggt að þeir sem mynda Verðjöfnunarsjóð í góðæri njóti hans er harðara verður í ári í hlutfalli við framlög sín og aðrir ekki. Í samræmi við þetta er í 5. gr. frv. kveðið á um að enda þótt útgreiðslutilefni sé eftir almennum reglum sjóðsins skuli enginn framleiðandi þó fá meira úr sjóðnum en inni á hans verðjöfnunarreikningi er.
    Í 7. gr. frv. eru sérstök ákvæði um að verðjöfnunarreikningar geti fylgt félagi við sameiningu og breytingu á félagsformi og að verðjöfnunarreikningar einstaklinga geti fylgt við sölu rekstrar eða aðilaskipti að honum fyrir erfðir. Verðjöfnunarreikningar koma hins vegar aldrei til útgreiðslu samkvæmt frv. nema í formi verðbóta á grundvelli almennra reglna þess. Því er kveðið á um að sé rekstri á sviði sjávarvöruframleiðslu til útflutnings hætt um lengri tíma eða verði framleiðandi gjaldþrota skuli innstæða á viðkomandi verðjöfnunarreikningi ganga til óskipts reiknings sjóðsins.
    Þá eru í frv. gerðar tillögur um mikla einföldun á framkvæmd útreiknings verðjöfnunarinnar.
    Eins og ég vék að hér að framan miðast endanlegt uppgjör verðjöfnunar samkvæmt gildandi lögum við framleiðslutímabil og er bæði flókið og seinlegt. Samkvæmt frv. er lagt til að verðjöfnunin miðist við útflutningstímabil og fyrir liggi fyrir fram fyrir upphaf

hvers mánaðar hversu hátt hlutfall af andvirði útfluttra sjávarafurða í komandi mánuði skuli greitt í sjóðinn eða úr honum. Verðjöfnunin verður því framleiðendum fyrir fram ljós og kemur til endanlegs uppgjörs um leið og gjaldeyrisskil eiga sér stað vegna viðkomandi framleiðslu.
    Eins og áður sagði er stjórn sjóðsins ætlað mun minna hlutverk við verðjöfnunarákvarðanir en samkvæmt gildandi lögum. Henni er fyrst og fremst ætlað að taka mánaðarlega formlegar ákvarðanir um verðjöfnun á grundvelli reglna laganna og hafa yfirumsjón með daglegum rekstri sjóðsins og ávöxtun innstæðna hans. Er það lagt í vald stjórnar að taka ákvörðun um hvort hún ræður starfsfólk til að annast daglegan rekstur sjóðsins eða semur um það við fjármálastofnanir en núverandi Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins hefur, eins og kunnugt er, verið vistaður í Seðlabankanum.
    Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að ríkissjóður taki við skuldbindingum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins.
    Þá er lagt til að þær innstæður sem til kunna að verða í einstökum deildum sjóðsins eftir að uppgjöri hans lýkur renni inn á sérstaka reikninga í hinum
nýja sjóði og komi til útborgunar ef verðbótatilefni skapast vegna viðkomandi afurða samkvæmt almennum reglum hinna nýju laga.
    Herra forseti. Ég er þess fullviss að með frv. er lagður grunnur að virkri verðjöfnun á útfluttum sjávarafurðum. Með því er skapað tæki til að kljást við sveiflur í afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og þjóðarbúsins í heild og þar með að stuðla að auknum stöðugleika og jafnvægi í þjóðarbúinu.
    Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.