Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Við kvennalistakonur erum í megindráttum sammála því frv. sem liggur hér fyrir, enda áttum við fulltrúa í þeirri nefnd sem undirbjó það. Eins og lýst er hér í fskj. I við frv. var fulltrúi okkar í hópi þeirra sem lýstu sig hlynnta verðjöfnun í anda frv. með fyrirvara um einstök atriði.
    Þegar hefur verið tíundað hér hverjar voru helstu ástæður fyrir samningu þessa frv. og sú óánægja sem var með fyrri tilhögun. Í fyrsta lagi, eins og hæstv. sjútvrh. ræddi hér áðan, að kerfið er mjög seinvirkt og því illa fallið til þeirra verkefna sem því er ætlað og skilar niðurstöðum of seint. Í öðru lagi að stjórnvöld hafa getað hlutast til um þessi málefni meira en góðu hófi gegnir með lántökum sjóðsins. Og í þriðja lagi, og það sem mestu skiptir, að þær breytingar eru gerðar að framleiðendur eiga nú sjálfir þær innstæður í sjóðnum og þeir einir geta fengið greiðslu sem til hans hafa lagt.
    Þó eru nokkur atriði hér sem mig langar að minnast á. Það er í fyrsta lagi 2. gr. frv. þar sem segir að sjútvrh. skipi sjóðnum fimm manna stjórn. Nú þykir eflaust mörgum nóg um vald sjútvrh. í flestum þeim atriðum sem varða málefni sjávarútvegsins. Það hefur verið haft á orði að eðlilegt væri að hagsmunaaðilar hefðu aðild að sjóðnum. Það er kannski ekki eins einfalt og það kann að virðast. Hagsmunaaðilar eru ákaflega missterkir og vægi orða þeirra er hreint ekki hið sama eftir því hvaðan þeir koma. Því kann að vera nokkrum erfiðleikum háð að finna hvernig þeim málum væri rétt skipað. Ég vil í þessu sambandi minna á að í umfjöllun um frv. um stjórn fiskveiða kemur mjög greinilega í ljós að það er hreint ekki sama hvaða sjónarmið hagsmunaaðilar færa fram og vega þar sumir sýnu meir en aðrir. Sífellt fleiri hafa lýst stuðningi við byggðakvóta með einum eða öðrum hætti en sá fjölmenni kór hefur þó ekki náð eyrum hæstv. sjútvrh. og greinilegt að þeir hagsmunaaðilar sem vilja viðhalda ríkjandi kerfi ná eyrum hans miklu greiðlegar en aðrir. Því efast ég satt að segja um að auðvelt væri að finna þá sjóðsstjórn sem ekki væri, eins og málum er nú háttað, hæstv. sjútvrh. þóknanleg. Þó finnst mér ekki gott að una við þetta fyrirkomulag og finnst sjálfsagt að í meðförum sjútvn. verði þetta atriði athugað rækilega.
    Sama er að segja um 3. gr. frv. þar sem í rauninni er skilið eftir opið hvernig þetta skuli framkvæmt og deildaskipting ekki verið ákveðin. En tekið er fram í greininni að sjútvrh. taki ákvörðun um deildaskiptingu sjóðsins, samkvæmt tillögum sjóðsstjórnar, sem hann skipar sjálfur. Það skiptir auðvitað verulegu máli hvernig til tekst um þessa frmkvæmd, hvernig þessi deildaskipting er og ekki æskilegt að skilja það vald eftir í höndum hæstv. ráðherra eins og hér er lagt til. Því er þetta annað atriði sem verður að koma til rækilegrar meðferðar í nefndinni. Vonandi, þó mikið liggi á afgreiðslu þessa máls, gefst tími til þess að gaumgæfa vel þessar tvær greinar.
    Sama má segja um ákvæði til bráðabirgða þar sem

vissulega þarf að kanna nánar hvernig á í rauninni að framkvæma þessa breytingu, þ.e. að breyta Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins eða leggja hann niður og taka upp í staðinn þennan sem hér er lagður til. Það er vissulega möguleiki að nota sömu aðferð við greiðslur úr þeim sjóði áfram eins og lagt er til með því fyrirkomulagi sem hér er boðað í frv. Annar möguleiki er að reikna út innstæður hvers og eins og flytja yfir á reikninga í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins. Hvort það er heppilegasta aðferðin skal ósagt látið á þessu stigi málsins en vissulega koma nokkrar leiðir til álita sem vert er að athuga betur.
    Varðandi þau orð sem hér hafa fallið um að grípa fram fyrir hendur einstakra atvinnurekenda, taka frá þeim ábyrgð, eða eins og hv. 11. þm. Reykn. orðaði það, að samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir eigi að halda í hönd hvers og eins vegna þess að hann geti ekki bjargað sér sjálfur. E.t.v. mætti frekar orða þetta þannig að menn hafi ekki kunnað fótum sínum forráð. Það gildir ekki einungis um aðila í sjávarútvegi sem hafa oft gerst allt of eyðslu- og fjárfestingarglaðir heldur gildir það um miklu fleiri. Hafa verður í huga að sjávarútvegurinn og afkoma hans snertir þjóðina alla og afkomu hennar og því miklu meira í húfi en sjálfsforræði einstakra atvinnurekenda. Sú aðferð til sveiflujöfnunar sem hér er lögð til tekur tillit til þjóðfélagsins alls. Hún er virkt hagstjórnartæki í því skyni að verja þjóðarskútuna alla of miklum áföllum og sveiflum, hvernig sem kann að viðra, bæði varðandi afla og verð á erlendum mörkuðum. Ég held að miklu mikilvægara sé að viðhafa aðferðir sem ekki eru lagðar í hendur einstaklinga eða einstakra fyrirtækja heldur með þessu fyrirkomulagi hér sem mun, ef vel tekst til, taka tillit til heildarinnar.