Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og ýmsar þær ábendingar sem hafa komið í þessu máli. Auðvitað er með þetta mál eins og öll önnur að það eru ýmis álitamál sem sjálfsagt er að meta við meðferð málsins í nefnd.
    Hér hafa einkum komið fram athugasemdir við 2. og 3. gr. Það er talið óeðlilegt að sjútvrh. skipi þá stjórn sem á að fara með málefni þessa sjóðs, ef frv. þetta verður að lögum. Ég held að það sé alveg ljóst að sjútvrh. verður að skipa þá stjórn en álitamálið hlýtur að snúast um það hvort rétt sé að einhverjir aðilar tilnefni til þeirrar stjórnar. Svo hefur verið að því er varðar núverandi Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Ég held að það hafi oft og tíðum verið slæmt að hagsmunaaðilar hafa getað myndað þar meiri hluta sem ég tel að í sumum tilvikum hafi verið í andstöðu við anda þeirrar löggjafar.
    Nú er það alveg rétt sem hv. 1. þm. Vestf. tók fram að um verulega breytingu á sjóðnum er að ræða og því sé það ekki jafnþýðingarmikið hverjir eru í stjórn þessa sjóðs. Er sjálfsagt að taka það til umfjöllunar en ljóst er að sjútvrh. á hverjum tíma verður að skipa stjórnina, jafnvel þótt einhverjir fulltrúar til hennar yrðu tilnefndir.
    Að því er varðar 3. gr. er eðlilegt að um það sé rætt hvort nauðsynlegt sé að hafa deildaskiptingu í sjóðnum eða ekki. Auðvitað er þessi deildaskipting ekki jafnmikilvæg þegar það hefur verið ákveðið að innstæðunni skuli skipt á viðkomandi framleiðendur og viðkomandi fyrirtæki. En þetta er haft með þessum hætti vegna þess að hér kunni að koma upp álitamál og nauðsynlegt að hafa möguleika til að gera hér breytingar á ef upp kemur. Þannig er það að sjálfsögðu í allri löggjöf að ráðherrar hafa vald til þess að gera a.m.k. takmarkaðar breytingar innan ramma laganna ef upp koma aðstæður sem kalla á slíkt.
    Það kemur mér mjög á óvart í endurtekinni umræðu hér á Alþingi að það þyki óeðlilegt að ráðherrar eigi að ákveða hluti sem þessa. Því er oft haldið fram að sjútvrh. hafi svo mikið vald að ekki sé á það bætandi. Þetta er að verða það sem unglingarnir kalla frasa hér í þinginu. Ég hef ávallt staðið í þeirri meiningu að íslenska stjórnkerfið væri þannig byggt upp að framkvæmdarvaldið sækti vald sitt til löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldið bæri ábyrgð gagnvart löggjafarvaldinu og gagnvart þjóðinni og ekki væri hægt að breyta mikið út frá þessum sið samkvæmt okkar stjórnarskrá. Að sjálfsögðu yrði að sækja viðkomandi ráðherra til ábyrgðar í þeim málaflokkum sem þeir fjalla um. Þess vegna tel ég við yfirlestur á þessu frv., og tek fram að því hefur í engu verið breytt síðan viðkomandi nefnd skilaði því af sér, að það komi t.d. fram í 4. gr. að sjóðsstjórn ákveður fyrir hverja deild hvar 3--5% verðbilið er hverju sinni. Og til að taka þarna af öll tvímæli væri e.t.v. nauðsynlegt að sjútvrh. á hverjum tíma staðfesti a.m.k. þessa ákvörðun því ekki er heimilt að framselja

t.d. skattlagningarvald til utanaðkomandi aðila. Því hefur alltaf þótt varlegra í öllum svona tilvikum að viðkomandi ráðherra staðfesti slíka ákvörðun.
    Þetta eru hinar almennu reglur en mér finnst stundum þegar ég hlusta á umræður á Alþingi að menn vilji helst bregða út af þessu grundvallaratriði í hinni íslensku stjórnsýslu. Ég held það fari að verða undarlegt ef menn vilja framselja þetta vald til aðila utan framkvæmdarvaldsins. Hitt er svo annað mál að það er að sjálfsögðu góð regla og nauðsynleg að hafa lög það skýrt afmörkuð að ekki sé vafi á hvað við er átt. Þó er það svo í mjög mörgum atriðum að nauðsynlegt er að hafa nokkurt svigrúm til þess að gera reglugerðarbreytingar, nema menn vilji taka upp þann sið í íslenskri stjórnsýslu að nánast engar breytingar sé hægt að gera á einu né neinu nema fram fari breytingar á lögum á Alþingi. Ég hélt satt best að segja að menn væru almennt frekar þeirrar skoðunar að það sé of mikið af lagafrumvörpum hér inni á þinginu. Er það í sjálfu sér ekkert nýtt og hefur orðið hálfgerð lenska í okkar samfélagi að vera alla tíð að eyða tíma í að breyta lögum eins og nánast sé ekkert hægt að gera án þess að vera alltaf að setja ný lög. Þetta vildi ég taka fram en með því er ég á engan hátt að andmæla því að breytingar geti átt sér stað á 2. og 3. gr. ef betra orðalag finnst á þessum greinum. Ég tek undir með hv. 1. þm. Vestf. sem sagði að auðvitað væri ekki jafnrík ástæða til að hafa þessa skiptingu eftir að fjármagninu hefur verið skipt upp á fyrirtæki.
    Það eru nokkur önnur atriði sem hafa verið gagnrýnd. M.a. gagnrýndi hv. 1. þm. Vestf. einkum ákvæði til bráðabirgða, þ.e. það ákvæði að þeim eignum sem í Verðjöfnunarsjóðnum eru í dag skuli ekki skipt upp á einstaka aðila. Ég tel þetta réttmæta gagnrýni og get í sjálfu sér tekið undir það með honum að mun æskilegra hefði verið að skipta þessari eign með sambærilegum hætti og annarri eign í framtíðinni. Ræddi ég það nokkuð við formann nefndarinnar á sínum tíma. Hann taldi hins vegar ýmis vandkvæði á því. En ef hægt er að finna framkvæmdarreglu sem er ásættanleg í því máli þá get ég tekið undir það að ég vildi heldur sjá þennan sjóð uppskiptan í upphafi ef hægt er að koma því við.
Hins vegar eru um þetta eins og annað, eins og reyndar hv. þm. tók fram, ýmis álitamál sem eru viðkvæm í sambandi við skiptinguna.
    Hv. 1. þm. Reykv. spurði mig um nokkur atriði. Í fyrsta lagi gagnrýndi hann eignarréttarlega uppbyggingu frv. og taldi eðlilegra að sjóðurinn væri færður hjá hverjum aðila fyrir sig og eignfærður þar. Ég er ekki sammála hv. þm. í þessu. Ég tel eðlilegast að eignalega séð sé farið með þennan verðjöfnunarsjóð með svipuðum hætti og gengur og gerist að því er varðar tapsfrádrátt fyrirtækja. Fyrirtæki geta ekki dregið tap fyrri tíma frá nema hagnaður verði og segja má að hér sé um sambærilega reglu að ræða, ekki er hægt að efna til verðjöfnunar nema eign sé fyrir hendi og aðeins í því tilviki að verðjöfnunartilefni sé. Það er t.d. ekki hægt að taka út

úr Verðjöfnunarsjóði við það að fyrirtæki sé slitið, við það að fyrirtæki verði gjaldþrota eða leggi niður rekstur. Ég veit að hv. þm. er það ljóst eins og mér að auðvitað er hægt að sameina og leggja niður fyrirtæki af ýmsu tilefni. Það er ekki eðlilegt að mínu mati að þar sé aðilum mismunað og hægt sé t.d. að fá út úr þessum sjóði við það eitt að slíta félagi og stofna e.t.v. nýtt.
    Ég skil hins vegar vel áhyggjur hv. 1. þm. Reykv. út af þessu máli. Hann sagði reyndar að hann teldi eðlilegt að gera þetta með öðrum hætti, þ.e. vera ekki með þennan sameiginlega sjóð heldur að hvert fyrirtæki fyrir sig tæki sínar ákvarðanir og hefði heimildir til sveiflujöfnunar. En þá kemur að því sem hv. 1. þm. Vestf. sagði réttilega, og vitnaði þar í ágætan hagfræðing sem um þetta ritaði um síðustu helgi í Morgunblaðið, að miklar kröfur eru gerðar til sjávarútvegsins þegar þar verður uppsveifla og sú kröfugerð verður oft til þess að jafnvel í tiltölulega góðu árferði myndast taprekstur í sjávarútveginum. Og ekki er nóg með það að sjávarútvegurinn byrji að tapa fé, heldur allur íslenskur atvinnurekstur. Það sem hefur verið eitt það versta er að við slík skilyrði hefur iðnaðurinn í landinu oft og tíðum farið afar illa. Þessar staðreyndir hvetja menn oft og tíðum til að gera þetta með þeim hætti að ekki sé um eign viðkomandi fyrirtækja að ræða í þeirri trú að það geti orðið til þess að allur almenningur í landinu sætti sig fremur við að sjávarútvegurinn safni upp nokkru fé til ráðstöfunar þegar verr gengur. Það eru þessar staðreyndir sem hafa a.m.k. sannfært mig um að ekki sé rétta leiðin að gera þetta innan fyrirtækjanna sjálfra heldur með þessum hætti. En hitt er svo allt annað mál að að sjálfsögðu þurfa að vera almennar heimildir til einhverrar sveiflujöfnunar í fyrirtækjum almennt og á það jafnt við um fyrirtæki í sjávarútvegi, iðnaði og öðrum atvinnurekstri. En í þessu tilviki er verið að taka á sérstökum málefnum sjávarútvegsins, þ.e. aðstæðum sem leiða til þess að verð fellur og verð stígur á okkar afurðum.
    Hv. 1. þm. Reykv. spurði hvort ætlunin væri að fram færi verðjöfnun við útflutning á óunnum fiski. Svarið er já. Hann sagði jafnframt að ekki hefði verið lagt í sjóð að því er varðar útflutning á óunnum fiski. Þetta er ekki alls kostar rétt því þegar verðjöfnun átti sér stað, sérstaklega í saltfiskdeild á sínum tíma, var tekið vegið meðaltal af verðjöfnun í freðfiskdeildina og saltfiskdeildina og greitt inn í Verðjöfnunarsjóð af útflutningi á ferskum fiski í nokkurn tíma. Þessar fjárhæðir voru hins vegar ekki miklar og greiðslurnar á engan hátt fallnar til þess að jafna þau ójöfnu skilyrði sem þar hafa verið á ferðinni sem ekki eru síst vegna mismunandi tollareglna í Efnahagsbandalaginu. En ég er alveg sammála hv. 1. þm. Reykv. um það að ekki er eðlilegt að taka upp verðjöfnun sem þessa nema hún nái til allra sjávarafurða, í hvaða formi sem þær eru, eftir hlutlausum reglum.
    Að því er varðar spurningu hans um ákvæði til bráðabirgða, um það hvernig rétt sé að bókfæra

viðkomandi skuld, þá sýnist mér að það liggi alveg í augum uppi hvernig rétt er að bókfæra hana. Það ber að sjálfsögðu að bókfæra skuld hjá þeim sem skuldar umrædda fjárhæð og er frekar lögfræðinga að svara slíkum spurningum en aumra bókara. En af því að lögfræðingurinn spurði bókarann um það, og ég skal vel kannast við það að ég var a.m.k. bærilegur í bókhaldi, þá get ég staðfest þann skilning sem mér fannst hann hafa, að við það að Verðjöfnunarsjóðurinn skuldaði ekki lengur fjárhæðina hlyti ríkissjóður að skulda hana.
    Fleira var það ekki sem ég tel að hafi komið fram í þessari umræðu sem til mín var beint en vil endurtaka þakklæti mitt fyrir þessar ágætu umræður sem hér hafa farið fram. (Gripið fram í.) En sem svar við þessari síðustu spurningu þá hef ég lagt niður kennslu í slíkum fræðum.