Umferðarlög
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Flm. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Ég ætla að mæla hér örfá orð fyrir frv. til laga á þskj. 855 um breytingu á umferðarlögum.
    Efni frv. er það að lagt er til að bifreiðaeigendum sé heimilað að skrá nýja bíla eða umskrá notaða samkvæmt hinu gamla númerakerfi ef þeir þess óska en jafnframt verði fastnúmerakerfið í gildi fyrir þá sem það kjósa.
    Með lagabreytingunni nr. 62/1988, þar sem breytt var nýsettum umferðarlögum, var afnumin sú langa hefð að skrá bíla eftir umdæmum. Rökin fyrir því voru þau að þessi breyting væri til sparnaðar. Það hefur komið í ljós að það var algjörlega úr lausu lofti gripið og allar fullyrðingar um sparnað af þessari nýbreytni voru rangar.
    Það er nú svo að mörgum bifreiðaeigendum er eftirsjá að gamla númerakerfinu, enda er það auðvitað miklu gleggra og þjóðlegra en hin erlenda eftiröpun sem tekin var upp 1988. Þess vegna er lagt til að gamla kerfið verði framlengt við hlið hins nýja fastnúmerakerfis.
    Herra forseti. Þetta mál þarfnast ekki frekari skýringa. Ég vænti þess að frv. verði vísað til athugunar í hv. allshn. að lokinni þessari umræðu.