Tekjustofnar sveitarfélaga
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Í upphafi skyldi endinn skoða, segir einhvers staðar, en í dag eru Reykvíkingar að súpa seyðið af því að borgarstjórn hefur ráðist í tvær stórar byggingar, ráðhús ofan í Tjörninni og veitingahús ofan á geymum Öskjuhlíðar. Nú er komið að skuldadögum og þá vantar borgina pening. Því hefur verið gripið til þeirra úrræða að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga, aðstöðugjald, og nú blasir við að aðstöðugjald verði lagt á alla fjölmiðla í Reykjavík að þó einum undanskildum sem er Ríkisútvarpið þar sem Ríkisútvarpið er undanþegið greiðslu aðstöðugjalda með sérstakri heimild og undanþágu í lögum. Þess vegna er frv. sem ég mæli hér fyrir lagt fram, frv. til laga um breytingu á lögum nr. 91/1989, um tekjustofna sveitarfélaga.
    Í 1. gr. frv. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Við síðari mgr. 34. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi:
    d. Starfsemi fjölmiðla, þ.e. sjónvarps- og útvarpsstöðva og dagblaða.``
    Í frv. er lagt til að lögunum verði breytt þannig að starfsemi þessara fjölmiðla verði undanþegin aðstöðugjaldi á sama hátt og Ríkisútvarpið.
    Flm. telur það vera eina af æðstu skyldum Alþingis að mismuna ekki þegnum og að gæta þess að allir hafi hér sama rétt. Þess vegna sé það á verksviði Alþingis að búa svo um hnútana að í einni og sömu starfsgreininni sé ekki eitt
fyrirtæki sem losnar undan gjöldum sem annað greiðir. Eðlilegast er í þessu sambandi að ekkert þessara fyrirtækja greiði gjöldin sem hér um ræðir.
    Þegar lög um prentfrelsi voru sett á sínum tíma tóku þau aðeins til prentaðs máls þar sem ekki var gert ráð fyrir öðrum miðlum á því sviði, en í dag hefur ný tækni flutt stóran hluta af prentuðu máli yfir á öldur ljósvakans og yfir í myndmiðla. Þar með hefur öld fjölmiðla gengið í garð og þó svo að enn þá sé talað um prentfrelsi er í rauninni verið að tala um fjölmiðlafrelsi því að fjölmiðlafrelsi er ekkert annað en málfrelsi og raunar staðfesting á tjáningarfrelsi.
    Þessi eru rökin fyrir því að þetta frv. er flutt. Þó svo að fjárhagur Reykjavíkurborgar kunni að vera bágborinn verða menn að bjarga honum á annan hátt. Það má ekki verða á kostnað hinna frjálsu fjölmiðla á meðan ríkisfjölmiðlarnir sleppa undan skattheimtunni og því er eðlilegast að ekkert þessara fyrirtækja beri aðstöðugjald í framtíðinni.
    Virðulegi forseti. Flm. telur ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta meira, en vísar til greinargerðar og treystir því að þingheimur haldi áfram vörð um málfrelsið í störfum sínum.
    Ég leyfi mér að mæla með að frv. fari til 2. umr. og hv. félmn.