Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Pétur Bjarnason:
    Herra forseti. Ég fagna framkomu frv. og tek eindregið undir efni þess. Það er að sjálfsögðu ekki tilviljun að það er Vestmanneyingur sem er 1. flm. og frummælandi fyrir þessu frv. en umræðan hefur einmitt verið mjög mikil þar í bæ sem er eðlilegt, þetta er höfuðstöð útgerðar á Íslandi og hefur verið um langan aldur. Ég kem hins vegar frá Ísafirði og ekki síður þar hefur þessi umræða verið í gangi. Einmitt á síðasta einu ári höfum við þó nokkuð mörg dæmi þar sem við teljum að hafi skipt algjörlega sköpum að menn voru í flotbúningi þegar óhöpp urðu. Við höfum kannski ekki eins skýr dæmi um það hvað hefði getað verið annars staðar því að það er nú svo að á útgerðarstöðum, eins og í Vestmannaeyjum og á Ísafirði þar sem menn sækja sjóinn sér til lífsviðurværis, gerast óhöppin oftar en skyldi og ég held að það sé skylda okkar að stuðla að hverju því sem getur orðið til aukins öryggis fyrir sjómenn okkar sem stunda þessa atvinnugrein. Og svo að ég víki að Vestfjörðum aftur, þá er þar mjög kaldur sjór. Þar er stundaður veiðiskapur á litlum bátum að vetrarlagi og sá veiðiskapur er fjarri því að vera hættulaus, eins og reynsla margra undanfarinna ára sýnir, og það hafa orðið afar mörg óhöpp, allt of mörg. Núna að undanförnu vitum við, eins og ég sagði áðan, að þessir búningar hafa, að mati sérfróðra manna, skipt sköpum og bjargað mannslífum. Þess vegna held ég að mjög æskilegt sé að frv. fái sem best brautargengi.
    Ég tek sérstaklega undir orðin ,,sem fullnægja kröfum`` vegna þess að ég var á fundi með siglingamálastjóra fyrir skömmu og þar barst einmitt talið að flotgöllum, afskiptum stofnunarinnar af þessu máli sem kom fram að hún taldi sig ekki hafa umboð til þess að sinna. Hins vegar, eins og kemur fram í frv., þá hefur Siglingamálastofnun ríkisins sett ákveðinn stimpil á þá búninga sem uppfylla þær kröfur sem settar eru. Það eru fleiri búningar á markaði á
Íslandi svo að það er mjög nauðsynlegt að einmitt þetta verði skýrt, að það séu ekki aðrir en fullnægjandi búningar sem standast gæðakröfur sem fái þessa undanþágu.
    Flotvinnubúninga er ekki skylt að hafa í fiskiskipum, en það er held ég bara tímaspursmál hvenær það verður þar sem þetta ágæta öryggistæki hefur sýnt sig að vera þannig að það er hægt að sinna vinnu í þessu og oft og tíðum er hægt að meta aðstæður þannnig að menn séu í svona búningum við vinnu sína þegar meiri hætta er á ferðum en oft áður.
    Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta en ítreka það að ég tek undir efni frv. og vænti þess að það fái sem best gengi.