Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Flm. (Árni Johnsen):
    Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir jákvæðar undirtektir í umfjöllun um þetta mikilvæga mál. Það er nú einu sinni svo að því miður er það bláköld staðreynd að öryggismál sjómanna hafa löngum setið óeðlilega á hakanum í okkar þjóðfélagi, kannski ekki síst vegna andvaraleysis sjómanna sjálfra í þeim efnum því það er þannig að allir sem þekkja vel sjómenn vita að þeim er gjarnt að leiða hjá sér umræðu og umfjöllun um eigið öryggi. Það er eins og það sé rótgróið meðal íslenskra sjómanna að leiða slíkt hjá sér að hluta, en sem betur fer hefur orðið breyting á því á undanförnum fáum árum og ég held einna mest í kjölfar stofnunar öryggismálanefndar sjómanna sem skipuð var 10 þingmönnum 1984 og vann allmikinn bálk sem hefur verið hrundið fram markvisst síðan. Og þetta er aðeins liður í því. Það er kominn búnaður sem menn geta unnið í. Eins og kom fram hjá hv. 12. þm. Reykv. er bæði um að ræða blautbúninga og þurrbúninga. Auðvitað gefur þurrbúningurinn meiri möguleika, en þó skiptir þarna miklu máli, eins og ég sagði áðan, hvort búningarnir falla vel að líkamanum eða eru víðir, hleypa inn í sig sjó. Þetta er spurning um að halda hita við æskilegastar aðstæður. Og þurrbúningarnir eru talsvert mikið dýrari. Blautbúningarnir gefa auðvitað minni lífsmöguleika og ekki, eins og ég sagði, svona langan tíma, nema það séu sérstaklega gerðir búningar sem eru mjög dýrir en eru til, en þessi almenni vinnuflotgalli er það sem málið snýst um og margir sjómenn hafa sæst á að vinna og þykir gott að vinna í honum fyrir utan öryggið sem það skapar.
    Það má með sanni segja að sjómenn Íslands séu stríðsmenn Íslands. Þeir heyja það stríð sem kostar í atvinnulífi og lífsbaráttu þjóðarinnar flest mannslífin. Aðeins í einu plássi, Vestmannaeyjum, hafa á síðustu 100 árum farist yfir 500 sjómenn, þ.e. fimm menn á ári, og það er mikil ástæða til þess að vera sífellt á verði í þessum efnum og gæta þess að vera hvetjandi en ekki
letjandi. Virðisaukaskattur á þennan búnað er letjandi. Hann er gegn því að menn vilji og hafi geð í sér til þess að horfast í augu við að það er mikilvægt að auka og efla öryggi sjómanna og það er það sem við þurfum að gera.
    Stríðsmenn Íslands, sagði ég. Sem betur fer höfum við ekki þurft að búa við her á Íslandi, með íslenskum hermönnum, en þetta er ósköp svipað í sjálfu sér eins og það ef fallhlífastökkvarar Winstons Churchill á stríðsárunum hefðu sagt: Við förum ekki í fallhlíf, það þarf að setja lög um að fella niður tolla af þeim. Þetta er mikilvægt mál sem, eins og ég vil endurtaka, er ástæða til þess að stuðla að sem skyldusetningu. Það mál þarf að vinna betur. Fyrsta skrefið í þá átt er að tryggja það að ekki sé virðisaukaskattur á flotvinnubúningum og það er einfaldlega það atriði sem þessi lagagrein byggir á.