Heilbrigðisþjónusta
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. um ráðningu trúnaðarmanna við sjúkrahús. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Kvennalistans, Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir. Um hlutverk slíkra trúnaðarmanna segir svo í frv., með leyfi forseta:
    ,,Við sjúkrahús, sbr. 1.--3. tölul. 1. mgr. 24. gr., skal starfa trúnaðarmaður sjúklinga og aðstandenda þeirra, ýmist í hlutastarfi eða fullu starfi, og greiðast laun hans úr ríkissjóði.
    Trúnaðarmaður skal vera talsmaður sjúklinga og aðstandenda þeirra gagnvart sjúkrahúsum og heilbrigðisyfirvöldum, afla upplýsinga fyrir þá og greiða úr spurningum. Trúnaðarmaður skal efla samvinnu milli starfsfólks heilbrigðisstétta, sjúklinga og aðstandenda þeirra.``
    Þau sjúkrahús sem hér um ræðir eru svæðissjúkrahús, deildasjúkrahús og almenn sjúkrahús. Í grg. frv. segir m.a.:
    ,,Málefni sjúklinga, aðstandenda þeirra og starfsfólks sjúkrahúsa eru nú víða til umfjöllunar og endurskoðunar. Stofnuð hafa verið fjölmörg félög sjúklinga er hafa látið málefni þeirra varða sig á margvíslegan hátt.`` Vil ég þar m.a. nefna Styrk sem er félag krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra, Samhjálp foreldra sem er félag foreldra krabbameinsveikra barna og Samhjálp kvenna sem er félag kvenna með brjóstakrabbamein. ,,Meðal annars hafa þau beint sjónum að
andlegri líðan við erfiðar aðstæður. Starfsfólk sjúkrahúsa hefur einnig víða tekið höndum saman og átt frumkvæði að því að fjalla um mál er varða andlega velferð starfsfólks og sjúklinga. Í því sambandi má benda á umfjöllun um sorg og sorgarviðbrögð sem heilbrigðisstéttirnar, sjúklingar og aðstandendur þeirra hafa látið til sín taka.``
    Kveikjan að því frv. sem hér liggur fyrir var samtal mitt við konu sem varð fyrir því að missa barn sitt eftir veikindi sem enduðu með sjúkrahúsdvöl eins og löngum er í slíkum málum. Í huga þessarar konu var mörgum spurningum enn ósvarað. Spurningum sem án efa hefði verið hægt að svara ef hún hefði vitað hvert hún átti að snúa sér. Henni voru ofarlega í huga spurningar eins og: Hvers vegna var meðferð barnsins míns breytt? Var einhvern tíma von um bata? Af hverju vissi ég ekki hvað var að gerast?
    Nokkur ár eru liðin og þessum spurningum er enn ósvarað að því er þessa konu varðar. Hún lét þó vel af framkomu starfsfólks deildar þeirrar sem barnið lá á. Þar mætti hún hlýju og skilningi. Margt var gert til að greiða úr spurningum hennar en eftir sat að hana fýsti að fá að vita meira um þá læknisfræðilegu meðferð er barnið fékk en vissi ekki hvern hún átti að spyrja. Það var einfaldlega enginn sem hafði það sérstaka hlutverk að greiða úr slíkum spurningum. Þó er ég sannfærð um að ýmsir er á deildinni unnu hefðu bæði haft vilja og getu til að ræða málin við hana, leita eftir svörum frá læknum og þekkingu til að

miðla þeim fróðleik til hennar. Það þarf áræði og frumkvæði starfsfólks, sjúklinga og aðstandenda þeirra til að taka af skarið og tala um slík mál og það þarf tíma sem er sérstaklega tekinn frá til þessa.
    Hjúkrunarfólk hefur víða haft frumkvæði af því að taka þetta hlutverk að sér og sinnt því vel. En það breytir því ekki að slíkri þjónustu er ekki ætlaður staður innan heilbrigðiskerfisins né heldur tími í þéttskipaðri dagskrá sjúkrahúsanna og starfsfólksins sem þar vinnur.
    Eins og skipulagi sjúkrahúsa er nú háttað þykir mörgum, bæði starfsfólki stofnana og sjúklingum og aðstandendum þeirra að heppilegt væri að koma á einhvers konar kerfi trúnaðarmanna fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra líkt og trúnaðarmannakerfi á vinnustöðum. Starfssvið þessara aðila yrði án efa mjög vítt og mundi þurfa að mótast í samvinnu við sjúklinga, aðstandendur þeirra og starfsfólk sjúkrahúsa. Hlutaðeiganda yrði ætlað annað hlutverk en nú er í höndum félagsráðgjafa og presta sjúkrahúsa, m.a. að leita svara við spurningum sjúklinga og aðstandenda þeirra um læknisfræðilega meðferð, liðsinna sjúklingum og aðstandendum þegar þeim þykir skorta skýringar eða upplýsingar um læknismeðferð eða aðrar ákvarðanir sem teknar eru um málefni þeirra. Einnig væri það hlutverk trúnaðarmanns að vera talsmaður sjúklinga og aðstandenda þeirra í öllum þeim margvíslegu málum sem upp kunna að koma í mannlegum samskiptum á sjúkrahúsum. Þar koma oft upp viðkvæm mál þegar taka þarf erfiðar ákvarðanir. Slíkt reynir mjög á fólk bæði líkamlega og andlega.
    Æskilegt er að slíkur trúnaðarmaður hefði sérþekkingu á sviði heilbrigðismála og þekkingu á aðhlynningu sjúkra. Því segir svo í 5. mgr. frv.:
    ,,Trúnaðarmaður skal vera hjúkrunarfræðingur að mennt eða hafa aðra þá faglegu reynslu og menntun sem starfið krefst að mati sjúkrahússtjórnar. Sjúkrahússtjórn annast ráðningu trúnaðarmanns, að höfðu samráði við félög sjúklinga og aðstandendur þeirra verði því við komið. Trúnaðarmaður getur jafnframt gegnt öðrum störfum á sjúkrahúsinu.`` Þessa síðustu setningu tel ég mjög mikilvæga vegna lítilla sjúkrahúsa og einnig vegna þess að oft getur skipt máli að ekki sé verið að ráða í stöðu sem er stök heldur hluti af verksviði einhvers starfsmanns á sjúkrahúsi.
    Íslenskt heilbrigðiskerfi er að mörgu leyti mjög gott. Menntun starfsfólks heilbrigðisstétta er mikil og tækjakostnaður sjúkrahúsanna er víða fullkominn. Það er því fyllilega tímabært að hyggja nánar að andlegri velferð allra er leita þurfa til sjúkrahúsa vegna veikinda sinna eða náinna aðstandenda. Frv. er ætlað að verða skref í þá átt að taka á því mikilvæga máli sem mannleg samskipti á sjúkrahúsum eru og virða rétt sjúklinga og aðstandenda þeirra til að fá fullkomnar upplýsingar og úrlausn mála hjá einum óháðum aðila sem bundinn er trúnaði og hefur þá skyldu fyrst og fremst að liðsinna sjúklingum og aðstandendum þeirra og efla samstarf sjúklinga, aðstandenda þeirra og heilbrigðisstéttanna.

    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.