Meðferð opinberra mála
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 74/1974, um meðferð opinberra mála, með síðari breytingum. Flm. auk mín eru þær þingkonur Kvennalistans Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir.
    Þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði hljóða svo, með leyfi forseta:
    ,,5. mgr. 40. gr. orðast svo:
    Nú skal spyrja barn yngra en 16 ára og skal þá tilkynna það barnaverndarnefnd. Getur nefndin sent fulltrúa sinn til að vera við yfirheyrslurnar. Einnig skal tilkynna foreldri eða forráðamönnum barnsins um yfirheyrslurnar svo fremi að grunur leiki ekki á að þau tengist málinu.``
    Frv. þetta er ekki mikið að vöxtum. Í grg. kemur fram hverjar þær meginbreytingar eru sem lagt er til að verði gerðar á greininni. Þar stendur:
    ,,Í gildandi lögum stendur að tilkynna skuli barnaverndarnefnd um yfirheyrslu barna ,,ef þess er kostur``. Lagt er til í frumvarpi þessu að það sé skylda að tilkynna barnaverndarnefnd ef barn er kallað til yfirheyrslu.
    Einnig er lagt til að skylt sé að tilkynna foreldri eða forráðamanni ef barn er tekið til yfirheyrslu hjá lögreglunni, en ekki einungis barnaverndarnefnd eins og núgildandi lög kveða á um. Ef grunur leikur á að foreldrar eða forráðamenn barnsins tengist málinu sem yfirheyrslan snertir gildir þetta ákvæði ekki.``
    Varla leikur nokkur vafi á því að hér er um að ræða lagfæringu á lögum sem á fullan rétt á sér. Þetta mál er nú flutt vegna ábendingar foreldris sem varð fyrir því að barn var kvatt til yfirheyrslu án þess að fjölskyldan vissi nokkuð um það. Slíkt hlýtur að koma sem reiðarslag yfir fjölskyldu sem það hendir og því er mjög mikilvægt að þetta nái fram að ganga.
    Ég vil aftur vísa í grg. þar sem stendur: ,,Börn geta verið mikilvæg vitni í opinberum málum og nauðsynlegt málsins vegna að færa þau til yfirheyrslu. Lögreglunni er skylt ef svo er að leita til barnaverndarnefndar og láta vita af því að barnið verði tekið til yfirheyrslu. Nefndin þarf að veita samþykki sitt og getur sent fulltrúa til að fylgjast með yfirheyrslunni. Það er hins vegar engin trygging fyrir því í núgildandi lögum að foreldrar eða forráðamenn séu látnir vita ef barn þeirra er fært til yfirheyrslu. Það er vissulega alvarlegt mál ef barn tengist brotamáli á einhvern hátt en yfirheyrsla hjá lögreglu er ekki síður alvarlegt mál. Það getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir barnið að vera óstutt á meðal einkennisklæddra lögreglumanna. Návist foreldra eða forráðamanna getur veitt barninu ómetanlegan stuðning þó að ekki sé mælt með að foreldrar eða forráðamenn séu viðstaddir sjálfa yfirheyrsluna.``
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.